Taktu Marie Kondo á snyrtivörurnar

Þarftu að taka til í snyrtivöruhillunni?
Þarftu að taka til í snyrtivöruhillunni?

Nýjasta æðið í snyrtivöruheiminum er naumhyggjulífstíll, og kannski sem betur fer fyrir hina venjulegu konu. Það eru fáir sem hafa tíma fyrir húðrútínu í 10 skrefum sem inniheldur í það minnsta 10 vörur ef ekki meira. Hver hefur tíma fyrir fjölda krema, seruma, tónera og hreinsa nú til dags? 

Þetta nýjasta æði má rekja til Japans, heimalands Marie Kondo. Marie Kondo er að sjálfsögðu skipulagssnillingurinn sem er á bak við aðferðina „ef það vekur ekki gleði, hentu því“.

„Við höfum snúið okkur aftur til gæðanna sem má rekja til þess að við erum sífellt uppteknari og uppteknari,“ segir Gisela Ballard, kennari hjá Shiseido í Bandaríkjunum. „Húðrútínan þín á að vera markviss og góð fyrir öll skynfærin þín, og þér á að líða vel andlega og líkamlega. Fyrst þú ert að taka þér tíma í þetta, viltu fá sem mest fyrir peninginn,“ segir Ballard. 

Þessa breytingu má ekki aðeins greina í Japan, heldur eru kóresk merki, sem þekkt eru fyrir sínar töfravörur, farin að framleiða meiri gæðavörur sem gera margt í einu. Spurðu þig því, áður en þú kaupir sjöunda maskann eða kremið, vekur þessi vara gleði? Ef ekki getur þú alveg eins sleppt henni og eytt frekar tíma þínum og peningum í vörur sem gera margt á sama tíma og raunverulega virka.

Þarftu allar þessar snyrtivörur?
Þarftu allar þessar snyrtivörur? Ljósmynd/Pexels
mbl.is