„Það ættu allar konur að eiga töffaralegan jakka“

Tania Lind segir haustið áhugaverðan tíma.
Tania Lind segir haustið áhugaverðan tíma. mbl.is/Árni Sæberg

Tania Lind veit fátt skemmtilegra en að skoða heiminn, kynnast nýju fólki og borða góðan mat. Hún bjó í fjögur ár í London, þar sem hún stundaði nám í Fashion Marketing London College of Fashion.

„Eftir að ég útskrifaðist fékk ég starfi hjá Exposure, fyrirtæki sem sérhæfir sig í stafrænni markaðsfræði og almannatengslum. Þar vann ég fyrir ótrúlega flott fyrirtæki á borð við Hendricks, Evian Water og Patron – þetta var dýrmæt reynsla sem ég kann svo sannarlega að meta í dag. Eftir fjögur ár í London ákvað ég að flytja heim, það sem spilaði inn í var að ég var búin að vera í fjarbúð í næstum þrjú ár. Þetta var sameiginleg ákvörðun um að dvelja um stund hér á landi saman. Draumurinn er þó að búa erlendis.“

Stefnir að því að flytja aftur út

Tania Lind er að taka meistarapróf í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands.

„Eftir námið stefni ég á að flytja til Kaupmannahafnar í von um meiri vinnureynslu á stærri markaði. Mig hefur alltaf langað að búa þar, enda ótrúlega falleg og sjarmerandi borg – og ekki skemmir fyrir hversu tískuvædd borgin er.“

Hún hefur verið að gera upp íbúð með kærastanum að undanförnu.

„Það er mjög skemmtilegt en krefjandi verkefni. En ég hef gert þetta meðfram náminu, sem á hug minn allan þessa dagana.“

Hvernig var að búa á erlendri grundu?

„Yndislegt. Í raun það besta sem ég hef gert. Ég hef búið í þremur ólíkum löndum og var það örugglega ein besta lífsreynsla sem ég hef fengið. London situr á toppnum, enda besta borg í heimi að mínu mati. Svo mikið líf og alltaf eitthvað að gera, hvort sem það er að rölta um í görðunum, skoða flotta markaði eða bara kíkja á pöbbinn. Það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi í London. Ég hvet alla sem ég þekki til að flytja til útlanda þó svo að það sé ekki nema bara í smá tíma, það gefur manni alveg ótrúlega mikið.“

Langar að stofna sitt eigið fyrirtæki

Hvert stefnir þú í framtíðinni tengt vinnu?

„Minn draumur hefur alltaf verið að stofna mitt eigið fyrirtæki, svo hver veit eftir námið hvað ég geri. Viðskiptahliðin á tísku er mín ástríða svo eitthvað tengt því væri mitt draumastarf. Annars verð ég bara ótrúlega sátt ef ég get fengið að vinna við það sem ég elska og ferðast í leiðinni. Ég bið ekki um meira en það.“

Hvernig var að vera í fjarbúð?

„Það var mjög krefjandi en samt sem áður mjög gaman og lærdómsríkt. Það styrkti sambandið alveg heilan helling og lærði ég að þekkja sjálfa mig vel. Eins kenndi það mér að standa meira á eigin fótum.“

Hvað finnst þér áhugavert tengt tískunni?

„Hvað hún er síbreytileg og fjölbreytt.“

Hvað er tíska í þínum huga?

„Mér finnst langflottast þegar maður getur túlkað hver maður er í gegnum fatnað. Maður þarf ekki alltaf að fara eftir nýjustu trendunum til að vera í tísku. Ég mæli með að fólk klæði sig í fatnað sem lætur því líða vel og gefur því sjálfstraust. Það er tíska fyrir mig.“

Tania Lind er mikið fyrir stórar yfirhafnir og töffaralega skó.
Tania Lind er mikið fyrir stórar yfirhafnir og töffaralega skó. mbl.is/Árni Sæberg

Hvaða greinar í viðskiptalífinu heilla þig? „Ég er lærður markaðsfræðingur svo það er kannski svolítið augljóst hvað mér finnst heillandi. En allt tengt stafrænni markaðsfræði og neytendahegðun finnst mér rosalega áhugavert. Ég pæli mikið í fólki og af hverju við gerum hlutina sem við gerum, svo að neytendahegðun er heillandi fyrir mig.“

Hvað finnst þér áhugavert að gera þegar þú ert ekki að vinna?

„Mér finnst ótrúlega gaman að hlaupa og þá sérstaklega í íslenskri náttúru. Það er eitthvað svo róandi við það. Einnig er ég gríðarlegur matgæðingur og finnst fátt skemmtilegra en að borða góðan mat og drekka gott rauðvín.“

Hvað getur þú sagt mér um ástina?

„Það er erfitt að svara. En ást fyrir mér er gott rauðvínsglas í góðum félagsskap.“

Stefnir þú að því að flytja aftur til útlanda?

„Já, alveg klárlega. Ég sakna þess rosalega að búa í stórborg og allra tækifæranna sem það býður upp á.“

Hvað langar þig að leggja af mörkum hér á Íslandi? „Ísland er að gera góða hluti þegar kemur að tísku og margt spennandi á uppleið. Það væri rosa gaman að geta tekið eitthvað af minni reynslu og miðlað henni á íslenskan tískumarkað.“

Hvað er það heitasta þegar kemur að tískunni?

„Það heitasta í tískunni fyrir haustið að mínu mati er fallegar yfirhafnir, stórir jakkar, samfestingar, stórir treflar og gróf stígvél. Ég er mjög hrifin af haust- og vetrarfatnaði þar sem maður getur leyft sér að klæða sig í mörg lög og verið í fallegum yfirhöfnum og blandað fatnaðinum við grófa skó. Ég get í það minnsta sagt að ég sé klárlega tilbúin fyrir haustið.“

Tania Lind blandar saman ólíkum stílum og hefur skemmtilegan fatasmekk.
Tania Lind blandar saman ólíkum stílum og hefur skemmtilegan fatasmekk. mbl.is/Árni Sæberg

Hefur verið dugleg að versla heima

Hvað keyptir þú þér síðast? „Það síðasta sem ég keypti mér var nú reyndar ekki flík heldur voru það ótrúlega fallegir kaffibollar úr minni uppáhalds húsgagnabúð, Magnolíu á Skólavörðustígnum. Ég var að flytja í íbúð með kærastanum mínum svo öll mín síðustu kaup hafa verið húsgögn eða eitthvað inn í búið.“

Getur þú lýst stílnum þínum?

„Ég myndi segja að ég væri með mjög stílhreinan fatastíl. Ég sæki mikið í tímalausar flíkur og kaupi sjaldnast flíkur bara af því að þær eru í tísku. Ég er veik fyrir fallegum jökkum og skóm og finnst skemmtilegast að „poppa upp“ einfalt útlit, með stígvélum og jökkum. Einkennisfatnaðurinn minn er stílhreinn bolur við gallabuxur, töffaralegir skór og stór jakki.“

Samfestingasjúk

Hver er uppáhaldsflíkin í fataskápnum?

„Þær eru nokkrar í miklu uppáhaldi hjá mér. Ætli það séu ekki samfestingarnir mínir frá & Other Stories og Mango. Ég er samfestingasjúk, enda finnst mér samfestingar svo fullkomin flík. Hægt er að klæða þá upp og niður og þeir henta fyrir öll tilefni.“

Hvar verslar þú?

„Ég versla í & Other Stories, AllSaints og Zara sem er í miklu uppáhaldi. Í þessum verslunum kaupi ég flestallar flíkurnar mínar.“

Tania Lind í fallegum ljósum samfesting sem er í uppáhaldi …
Tania Lind í fallegum ljósum samfesting sem er í uppáhaldi hjá henni. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað ættu allar konur að eiga fyrir veturinn?

„Þær ættu að eiga fallega kápu og töffaralegan jakka.“

Tania Lind er á því að töffaralegir jakkar séu ómissandi …
Tania Lind er á því að töffaralegir jakkar séu ómissandi fyrir veturinn. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »