Fór aldrei út úr húsi nema með gel í hárinu

Hárgreiðslumaðurinn Ásgeir Hjartarson liggur lítið í sófanum þessa dagana en hárvörulína sem hann fékk hugmynd að fyrir áratug hefur nú loksins litið dagsins ljós. Hún heitir Dark Force of pure nature og er framleidd á Íslandi. 

„Hugmyndin af merkinu kviknaði árið 2009 þegar ég var með hárgreiðslustofu við Laugaveg. Ég var alltaf að fá inn til mín fólk af götunni sem spurði hvort ég væri ekki með einhverjar íslenskar vörur. Þetta voru aðallega útlendingar sem virtust vera einstaklega áhugasamir um að kaupa íslensk sjampó. Ég fór því af stað og byrjaði að kynna mér hvernig svona vörur væru byggðar upp og hvaða efni ættu ekki að vera í þeim. Verkefnið fór nokkrum sinnum ofan í skúffu sökum anna og annarra stórra verkefna, en er loksins komið á koppinn núna,“ segir Ásgeir alsæll. 

Um er að ræða sjampó og hárnæringu sem inniheldur vikur úr Heklu sem gefur hárinu meiri lyftingu að sögn Ásgeirs. 

„Þari sjampó/næring inniheldur hrossaþara úr Breiðarfirði sem er gífurlega ríkur af vítamínum, steinefnum og andoxunarefnum og er sérstaklega gott fyrir gróft „unruly“ hár og litað. Það er ein vara fyrir sem kom á markað á síðasta ári en það er andlits-mist sem heitir Sea Breeze, byggð upp á sama þara og er í þarasjampóinu,“ segir hann og bætir við: 

Ilmurinn er einnig sérvalinn, en hún Margrét Alice Birgisdóttir aromatherapisti, hjálpaði til við ilmolíukjarna og er einungis notast við hreinar lífrænar ilmkjarnaolíur í vöruna. Allar rotvarnir eru einnig byggðar upp á plöntum og  eru niðurbrjótanlegar í náttúrunni. Svo er auðvitað okkar alíslenska vatn í vörunum, en við tökum það undan Kaldbak, fjallinu fyrir norðan sem er talin einn af orkustöðvum Íslands.“

Ertu einn að gera þetta?

„Nei, við erum í samstarfi við Pharmarctica á Grenivík sem sér um blöndun, áfyllingu og vöruþróun og einnig erum við í samstarfi við nokkra aðra aðila eins og Íslenska hollustu ehf. með Eyjólf Friðgeirsson í fararbroddi. En ég á allar hugmyndir að vörunum, það er að segja ég kem með hugmynd að formúlu/efni sem er síðan rædd og stúderuð og prófuð. Það tók til að mynda eitt og hálft ár að gera vikursjampóið.

Ástæðan að þetta fór af stað er kannski einfaldlega sú að ég hef alltaf haft mikinn áhuga á vörum eins og hárvörum og ilmvötnum síðan ég var krakki. Mamma sagði mér einhvern tímann að þegar ég var polli hafi ég alltaf spurt hana hvort það væri ekki í lagi með hárið á mér áður en ég fór út, þó svo ég væri á leiðinni að fara stinga mér út í næsta drullupott en heimtaði alltaf gel takk,“ segir hann og hlær. 

Ásgeir segir að slæm efni í hárvörum geri það að verkum að fólk fái flösu og kláða í hársvörð.

„Þessar vörur fyrir fólk sem er annt um hárið og húðina á sér og kann að meta fallega hönnun á miðum og umbúðum og umhverfið og náttúruna auðvitað. Fólk á að hætta að kaupa bara eitthvað í stórmörkuðum og furða sig á því af hverju barnið eða einhver í fjölskyldunni er alltaf með flösu eða eldrauðan hársvörð og kannski með óstöðvandi kláða og tilheyrandi óþægindi. Það er ástæða fyrir því að þetta er svona ódýrt. Umbúðirnar okkar eru endurvinnanlegar og til dæmis tók IKEA-risinn og endurvann og framleiddi „fronta“ á eldhúsinnréttingar úr sama efni og er í okkar umbúðum.“

Hann segir að hárvörubransinn sé að breytast og að kúnninn geri miklu meiri kröfur í dag. 

„Það er stór bylgja í gangi núna og hefur verið í nokkur ár. Risastór fyrirtæki í þessum bransa hafa tekið sig til og lagt af stað með milljarða fjárfestingar einungis til að fjarlægja óæskileg efni í vörunum sínum og verða að fylgja bylgjum sem snúa að þessum málum. Umhverfisvitund fólks er að aukast og tengist beint vörunotkun fólks sem gerir kröfur um umhverfisvænni vöru. Einnig sættir kúnninn sig ekki lengur við eitthvert drasl, því þetta er stórt mál, þessar vörur fara í kerfið þitt, inn í blóðrásina og líkamar okkar eru það dýrmætasta sem við eigum og ætti það að vera öllum ljóst að vanda þarf valið við vörur sem þú nuddar inn í húðina þína eða hársvörðinn þinn. Fyrir um það bil 5-6 árum var fólk ekkert að spá í innihaldsefni í til dæmis sjampóum. Það keypti bara vöruna og byrjaði að nota hana. Í dag er miklu algengara að fólk snúi brúsanum við og skoði hvað er í vörunni og skilar í hilluna ef það eru einhver efni sem vitað er til að eru skaðleg fyrir þig eða náttúruna og til allrar hamingju er vakning í þessum efnum,“ segir Ásgeir. 

Þegar Ásgeir er spurður að því hvað sé fram undan segir hann að markmiðið sé að koma vörunum á markað erlendis. Auk þess er hann að reka förðunarskólann Mask Academy ásamt konu sinni, Bergþóru Þórsdóttur, en þau eru líka með umboðið fyrir Make Up Forever Professional Paris. 

„Það sem drífur mig áfram í þessu vöruverkefni sérstaklega er kannski það að ég sé mig ekki fyrir mér fyrir aftan stólinn að eilífu eða vera að kenna. Mig langar að skapa og búa til þó svo að það hafi komið tímar þar sem ég er við það að bugast og langar mest til að gera ekki neitt. Svo er ég einnig þannig úr garði gerður að ef ég byrja og tala um að gera eitthvað stórt, þá skal ég klára það og gera það vel. Það fer ekkert meira í taugarnar á mér en fólk sem byggir skýjaborgir allan liðlangan daginn,“ segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál