Alíslensk reiðfatalína lítur dagsins ljós

„Íslenski hesturinn hefur verið okkar dyggasti þjónn og helsti fararskjóti í gegnum aldirnar og er órjúfanlegur hluti af menningu okkar og sögu. Reiðfatalínan okkar er tileinkuð þessari ríku hefð sem ríkir fyrir útreiðum og hestamennsku á Íslandi. Við leggjum okkur fram við að búa til hagnýtan og þægilegan reiðfatnað án þess að gefa eftir í glæsileika og tímalausum stíl,“ segir Gunni Hilmarsson hönnuður Kormáks og Skjaldar en ný tískulína hefur litið dagsins ljós. Um er að ræða samstarf Kormáks og Skjaldar og 66°Norður þar sem jakkinn Öxi er endurgerður í „tweed“-munstri sem er einmitt þungamiðjan í reiðklæðalínunni.

„Línan er í raun útivistarlína sem hentar íslenskum aðstæðum hvort sem er við útreiðar, veiðar eða bara í göngu með hundinn eða í sumarbústaðarferðina. Hún er með þessa íslensku „sveitarstemningu“ sem er svo skemmtileg. Fyrir utan línu af eiginlegum reiðbuxum eru jakkar, skyrtur, vesti, buxur og fylgihlutir fyrir herra og dömur í línunni. Línan er til sölu hjá Kormáki & Skildi á Laugaveginum og Öxi-jakkinn er seldur í verslunum 66°Norður,“ segir Gunni. 

mbl.is