Það tók eitt og hálft ár að hanna gallabuxurnar

Hér má sjá fögur dress úr tískulínu Geysis.
Hér má sjá fögur dress úr tískulínu Geysis. Ljósmynd/Samsett

Ný tískulína Geysis var kynnt í Hafnarhúsinu á dögunum. Hönnuður línunnar, Erna Einarsdóttir, segir að mikil vinna hafi farið í að hanna gallabuxurnar í línunni.  

„Línan er ákveðið framhald af því sem við höfum verið að byggja upp í Geysir síðastliðin ár. Við erum að fara smá ótroðnar slóðir núna og erum að kynna Geysis gallabuxur í þessari línu. Það er búið að taka um eitt og hálft ár að þróa þær, finna réttan framleiðanda, efni og tölur og annað. Það er mikil tækni og nákvæmni fólgin í því að hanna flottar gallabuxur og ég myndi segja að Geysis gallabuxurnar eru mínar drauma gallabuxur, en sjálf geng ég varla í öðru. Ég hef lengi viljað hanna gallabuxur þannig að með þessari línu er ákveðinn draumur að rætast og mér finnast gallabuxur vera fullkominn neðrihluti við fallegar prjónaðar peysur. Við erum líka að auka úrvalið almennt, kynnum ullarkápur, skyrtur og nýja boli en prjónið er á sínum stað og er í stöðugri þróun. Við höfum verið að leika okkur með prjónuð prent og meira formaðar flíkur í gegnum prjónið og ég tel að við séum að kynna mjög sterka línu af prjónuðum fatnaði á konur og herra með þessari nýju línu. Stóru fréttirnar eru líka að við erum að kynna Geysis karlmanninn. Með þessari línu er hann að stíga sín fyrstu skref í átt að heilstæðu útliti. Við erum að kynna chinos-buxur og workwear-buxur sem og nýjar peysur á karlmenn, og auðvitað gallabuxur,“ segir Erna Einarsdóttir hönnuður hjá Geysi. 

-Hvaða efni eru mest áberandi í línunni? 

„Við erum að nota mikið af hágæða efnum frá Ítölskum efnaframleiðendum, bæði garn og ofin efni. Flest efnin okkar koma þaðan, en líka frá Spáni og Portúgal. Nýjasta viðbótin er þó nýtt íslenskt lambsullarband sem er þróað af Glófa og við erum mjög spennt að fá að nota það í treflana okkar og nýjar peysur. Þetta er íslensk ull sem er töluvert mýkri en okkar kunnuglega ærullarband. Við erum að framleiða úr þessu bandi hérna heima. Önnur skemmtileg efni sem við erum að nota eru ullarblönduð efni í skyrtur og þykk bómullarefni frá Portúgal í stuttermaboli sem við munum kynna á næstunni. Í prjóninu er ég mikið fyrir að nota garn með miklum texture, jafnvel marglitað og blandað úr nokkrum efnum, td. mohair, cashmere eða viscose. Mér finnst alltaf skemmtilegt að nota garn með miklum karakter.“

Þegar Erna er spurð út í innblásturinn segist hún vera undir áhrifum frá umhverfi sínu. 

„Innblásturinn fyrir línuna kom að einhverju leiti frá verkum Ásmundar Sveinssonar. Ég byrjaði að skoða verkin hans í fæðingarorlofi veturinn 2018 þegar maður var að labba um Reykjavík með vagninn. Það var styttan „Fýkur yfir hæðir“ sem vakti fyrst áhuga minn á verkum hans og varð til þess að ég sökti mér í hans feril. En annars myndi ég segja að röltið um Reykjavík á þessum tíma hafi einnig veitt mér mikinn innblástur, bæði borgin sjálf en líka mannlífið og dagsdaglegt amstur borgarinnar. Reykjavík veitir mér stöðugan innblástur, það er hér sem ég bý og fatnaðurinn er mótaður af því hvernig ég og mínir nánustu klæðum okkur. Eg hef líka alltaf sagt að mamma mín og systir veita mér innblástur í hönnun minni og ég lít svo á að ef ég er að hanna fatnað sem við allar þrjár sjáum fyrir okkur að vera í þá er ég ánægð.“

Þegar Erna er spurð að því hvernig tískuheimurinn sé að breytast segir hún að mikil vitunarvakning sé í gangi þegar kemur að umhverfismálu. 

„Það hefur verið að gerast smá saman síðustu ár að efnaframleiðendur eru að bjóða upp á betur framleidd efni, endurnýtt efni og annað og það er mjög jákvæð þróun sem við viljum taka þátt í. Við kaupum efni frá framleiðslum og framleiðendum sem sýna þessu sjónarhorni áhuga og skilning og vilja bæta sig. Viðskiptavinir eru meira að hugsa um efnin og gæði fatnaðar, vilja ferkar kaupa sér eina góða flík heldur en nokkrar verri.“

-Hvað um sniðin, hver er áherslan þar? 

„Sniðin eru þægileg og enn sem áður nokkuð minimalísk en núna erum við líka að kynna skyrtur, jakka og gallabuxur. Eg hef lengi leitað að sniðinu fyrir Geysis skyrtuna, hvernig sú skyrta væri og fann mig loks í frekar víðu sniði með hliðarklaufum og sérstökum frágangi yfir handveg og ermar. Fyrir mér eru það smáatriðin sem skipta öllu máli og í skyrtum og gallbuxum er engin undantekning og við förum aldrei einföldu leiðina, þó að flíkin líti út fyrir að vera einföld þá er mikil hugsun á bakvið sniðin og efnin í vörunum frá okkur. Við vorum mikið að hugsa um handveg og ermar í sniðunum okkar, prufa okkur áfram í frumlegum frágangi og að hafa ermarnar nokkuð víðar yfir efri handlegg, bæði í jökkum og prjónuðum peysum. Við unnum með oversize-fíling í mörgum flíkum fyrir þessa línu.“

-Fyrir hverja er þessi lína? 

„Þessi lína er fyrir alla sem finna sig og fíla sig í fatnaðinum og þá sem vilja prófa eitthvað nýtt. Eg vona að þarna séu flíkur sem tali til breiðs hóps af fólki, fólk sem vill líta vel út og vill ganga í vandaðri íslenskri hönnun.“

Hvað drífur þig áfram í hönnun þinni?

„Það er löngunin til að gera betur og betur, að gera fallega flík sem fólki langar að ganga í. Mér finnst ferlið skemmtilegt, frá hönnun yfir í framleiðslu og að sjá lokaútgáfuna á flíkinni og áhuginn almennt á hönnun drífur mig áfram.“

Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir
Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir
Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir
Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir
Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir
Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir
mbl.is