Er 29 ára kona of ung fyrir retinól?

29 ára íslensk kona spyr hvort hún sé of ung …
29 ára íslensk kona spyr hvort hún sé of ung til að nota retinól.

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu um retinól. 

Sæl Ragna Hlín,

Ég hef heyrt marga góða hluti um retinól krem og lét verða af því að kaupa mér eitt slíkt í sumar í utanlandsferð.  Ég varð hins vegar eldrauð og flagnaði mikið eftir 4 daga notkun. Þoli ég ekki kremið eða er ég kanski of ung til að nota það (er 29 ára)?

Kveðja, KK

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Sæl,

já, retinóíðar eða retinól hafa aukið vinsældir sínar síðustu árin enda efni sem hafa margsannað gildi sitt í hundruðum klínískra rannsókna. Retinóíðar eru A-vítamín sýrur sem hafa margvíslega virkni. Þessi efni eru grunnurinn í öflugum bólumeðferðum því þau minnka fituframleiðslu í fitukirtlunum, fækka fílapenslum og taka burtu dauðar húðfrumur sem geta stíflað kirtla ásamt húðfitu. Hins vegar gera retinóíðar svo miklu meira en bara þetta.  A-vítamín sýran binst viðtökum í kjarna húðfrumna sem meðal annars veldur því að umsetning eða endurnýjun þeirra verður hraðari.  Þar af leiðandi grynnkar á fínum línum og hrukkum í húðinni og áferð húðarinnar verður sléttari. Auk þess geta litabreytingar orðið minna sjáanlegar sem og ör í húðinni. Að lokum örvar efnið nýmyndun kollagens en kollagen er eitt aðal byggingarefni húðarinnar og það byrjar að minnka í húðinni okkar uppúr 25 ára aldri. Þannig að þú skilur af hverju retinóíðar eru sagðir vera ofurhetjur þegar kemur að vörum sem vinna á öldrun húðarinnar eða fyrirbyggingu öldrunar í húð.

Hins vegar eru retínóíða krem mjög öflug og á Íslandi og flestum Evrópulöndum eru retinóíðar flokkaðir sem lyf (sbr. bólulyfin sem við húðlæknar ávísum). Þess vegna er nauðsynlegt að fá góðar leiðbeiningar um hvernig á að nota þessi efni og jafnvel að fá mat á húðgerð áður en meðferð hefst þar sem alls ekki allir þola að nota retinóíða.  Ef þú ert til dæmis með virkan bólgusjúkdóm í húð eins og rósroða geta retinóíðar gert ástandið verra. Í öðru lagi þurfa ljósari húðgerðir oftast að trappa upp meðferðina mikið hægar en þeir sem eru með meira litarefni í húðinni og í sannleika sagt erum við Íslendingar upp til hópa með mjög viðkvæma húð. Í þriðja lagi þarf að byrja með vægan styrkleika á retinóíðum og vinna sig svo hægt og bítandi upp í notkun og styrkleika. Vanalega mælum við með því að fólki noti kremið aðeins 1-2x í viku fyrstu vikurnar.

Þú ert í sjálfu sér ekki of ung til að byrja notkun á retinóíðum en þú verður að gera þetta rólega og hugsa um meðferðina sem maraþon sem á endanum mun skila þér fallegri og unglegri húð og viðhalda húð þinni til margra ára.

Að lokum langar mig bara að minna þig á að gleyma ekki sólarvörninni, því hún er okkar besta forvörn gegn ótímabærri öldrun húðarinnar!

Kær kveðja,

Ragna Hlín húðlæknir

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Rögnu Hlín spurningu HÉR. 

mbl.is