Thelma á 150 kjóla: Hefur ekki keypt buxur í 15 ár

Thelma Jónsdóttir á 150 kjóla í fataskápnum sínum.
Thelma Jónsdóttir á 150 kjóla í fataskápnum sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvernig komast 150 kjólar fyrir í venjulegum fataskáp? Gott skipulag og skilningur eiginmannsins er það sem ræður úrslitum að sögn kjólasafnarans Thelmu Jónsdóttur. 

„Ég varð að finna einhverja lausn til þess að koma þeim öllum fyrir því þeir eru orðnir fleiri en 150 talsins og ég er bara með venjulegan fataskáp,“ segir Thelma, sem heldur úti Facebook-síðunni Kjólasafn Thelmu og samnefndum Instagramreikningi, aðspurð hvernig hún komi öllum kjólunum sínum fyrir í fataskápnum. Thelma segir að fyrir rúmum tveimur árum hafi hún endurskipulagt fataskápinn enda flæddu þá kjólarnir út um allt og maðurinn hennar hafði ekkert pláss lengur fyrir sín föt. „Þá fundum við góða lausn í IKEA; kassa sem ég stafla kjólunum í eftir að ég rúlla þeim upp. Þessir gömlu kjólar eru úr þannig efnum að það er yfirleitt mjög gott að rúlla þeim upp og kassarnir staflast vel í skápinn. Kjólar sem ég er lítið að nota lenda í efri skápunum en kjóla sem ég er oftar í hengi ég upp og litaraða þeim á slána,“ segir Thelma og bætir við að hún hafi fengið mun betri nýtingu úr skápnum eftir að hún fór að geyma kjólana svona upprúllaða.

Kjólarnir hennar Thelmu er litríkir og fallegir.
Kjólarnir hennar Thelmu er litríkir og fallegir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umhugað um heildarsvipinn

Thelma hefur verið forfallinn kjólasafnari í mörg ár en hún safnar litríkum vintage-kjólum frá árunum 1955-1975. Kjólana kaupir hún svo til eingöngu til eigin nota en þó slæðast stundum með kjólar í skápinn sem hún passar ekki sjálf í, einfaldlega vegna þess að þeir eru of fagrir til þess að eiga þá ekki. „Ég á bara eitt par af buxum og hef ekki keypt mér buxur í ein 15 ár. Ég geng alltaf í kjólum hvort sem er heima, í vinnunni eða ef ég er á leið í göngutúr.“ Þeir sem hafa fylgst með Thelmu á samfélagsmiðlum sjá fljótt að henni er umhugað um heildarsvipinn og klæðist hún alltaf sokkabuxum og skóm í stíl við kjól dagsins og handtaska fylgir líka oftast með. „Þar sem ég geng nánast eingöngu í kjólum þarf ég ekki hillur undir boli, skyrtur eða buxur og get því nýtt þær skápahillur undir kjólakassana eða undir skó.“

Hér er mjög gott skipulag á öllu.
Hér er mjög gott skipulag á öllu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Litaraðar í skápinn

Thelma bendir líka á að herðatrén í fataskápnum skipta máli svo plássið nýtist sem best. „Ég nota eingöngu gamaldags einföld tréherðatré undir kjólana. Þau eru nett og ekki eins fyrirferðarmikil og mörg nútímaherðatré, auk þess sem þau fara betur með fötin til lengdar en vírherðatré.“ Herðatrén hefur Thelma keypt notuð, til að mynda hjá Rauða krossinum, en hún er sérlega hrifin af herðatrjám sem hefur verið prjónað eða heklað utan um. „Þessi herðatré hæfa kjólunum líka svo vel.“ Sokkabuxunum er síðan litaraðað ofan í kommóðuskúffur, handtöskurnar hafa sína snaga og eyrnalokkarnir sem toppa oftar en ekki dress dagsins eiga líka sinn fasta samastað. „Ég er skipulagsfrík og vil helst hafa litaskipulag á öllu,“ segir Thelma sem þakkar fyrir skilning eiginmannsins á þessu áhugamáli hennar. „Sem betur fer er hann skilningsríkur því ég er alveg búin að hertaka fataskápinn undir kjólana, hann er bara með lítið horn í skápnum og er kominn með mikið af sínum fötum inn til annars sonar okkar.“

Thelma á sokkabuxur í öllum litum.
Thelma á sokkabuxur í öllum litum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Til að fullkomna dressið er nauðsynlegt að vera með eyrnalokka …
Til að fullkomna dressið er nauðsynlegt að vera með eyrnalokka í stíl. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »