Íslensk kona missir augnhárin: Hvað er til ráða?

Íslensk kona er að missa augnhárin og leitar ráða hjá …
Íslensk kona er að missa augnhárin og leitar ráða hjá Rögnu Hlín húðlækni. mbl.is/Unsplash

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu varðandi augnháramissi. 

Sæl Ragna Hlín.

Ég hef verið að missa augnhárin. Mest efri augnhár. Ég hef ekkert verið að breyta lífsstílnum. Þetta hefur gerst áður nokkrum sinnum. Þau hafa svo vaxið aftur. Það hefur tekið langan tíma. Af hverju gerist þetta? Ég lifi heilsusamlegu lífi. Hvað get ég gert?

Kveðja S. M.

Ragna Hlín Þorleifsdóttir, húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni.
Ragna Hlín Þorleifsdóttir, húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni.

Sæl S.M.

Þetta er vandamál sem þyrfti að kanna nánar. Fólk getur misst hárið tímabundið eða til lengri tíma af ýmsum ástæðum og þótt oftast sé það bundið við höfuðhár, getum við misst einnig augabrúnir og augnhár. Ég ráðlegg þér að leita til húðsjúkdómalæknis sem myndi þá skoða þig og fara yfir heilsufarssögu, ættarsögu og lyfjasögu þína. Hugsanlega ert þú með sjúkdóm sem heitir alopecia areata en þetta er sjálfsofnæmissjúkdómur sem veldur því að ónæmiskerfið ræðst á hársekkina með þeim afleiðingum að hárin detta af. Hins vegar er ekkert hægt að fullyrða fyrr en eftir heimsókn til húðsjúkdómalæknis.

Bestu kveðjur,

Ragna Hlín húðlæknir

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Rögnu Hlín spurningu HÉR. 

mbl.is