„Það var stór ákvörðun að vissu leyti að loka búðinni“

Hlín Reykdal skartgripahönnuður hefur ákveðið að loka verslun sinni.
Hlín Reykdal skartgripahönnuður hefur ákveðið að loka verslun sinni.

Skartgripahönnuðurinn Hlín Reykdal hefur ákveðið að loka samnefndri verslun sinni úti á Granda og færa sig alfarið á netið. Hún segir að verslunarhegðun fólks sé að breytast mikið og netsala verði æ algengari. 

„Það var stór ákvörðun að vissu leyti að loka búðinni. Ég er búin að vera með verslunina núna í fjögur ár, sofin og vakin alla daga ársins ásamt því að hanna og framleiða tvær skartgripalínur á ári, vera með netverslun og selja til annarra verslana. Þetta er búið að vera frábær tími og mjög skemmtilegt að vera með verslun eins og þessa, búin að kynnast svo mörgum bæði hér heima og erlendis. Þetta er dýrmætur skóli sem ég bý að núna. 

Verslunarhegðun er að breytast og hefur netverslunin okkar hlinreykdal.com vaxið mjög hratt síðustu tvö ár. Þegar hún fór að rúlla fyrir alvöru fannst mér rétt að flytja verslunina alveg yfir á netið. Núna fæ ég meiri tíma til að einbeita mér að hönnun og netversluninni,“ segir Hlín. 

Nú er þetta ekki eina verslunin sem ákveður að flytja sig yfir á netið. Leonard í Kringlunni lokaði verslun sinni í vikunni svo dæmi sé tekið. Er vonlaust að standa í þessu?

„Það myndi ég nú alls ekki segja, að það væri vonlaust að standa í þessu, en þetta getur verið töff. Sérstaklega nú á tímum þegar hlutirnir gerast mjög hratt á samfélagsmiðlum og markaðssetning er önnur en var fyrir 10 árum. 

Við höfum líka aðgang að verslunum erlendis bara í símanum. Til að gera hlutina vel þarftu alltaf að vera á tánum og vanda til verka. En þetta eru áskoranir fyrir verslunareigendur sem eru skemmtilegar eða það finnst mér.“

— Hvað er að gerast í hönnuninni hjá þér þessa dagana?

„Ég kom með nýja línu fyrir jólin, hana einkenna stórir eyrnalokkar úr kristöllum og náttúrusteinum. Ég hef einnig verið að sérgera mikið af skartgripum fyrir ýmis tækifæri.“

— Finnst þér áherslur fólks vera að breytast í kaupum á fylgihlutum?

„Já, fylgihlutir eru stór hluti af tískunni í dag, stórir eyrnalokkar eru áberandi. Tískan í skarti er mjög fjölbreytt og skemmtileg núna. 

Fólk er óhrætt við að kaupa þá á netinu, þú þarft lítið að spá í hvort þetta passi eins og þegar þú kaupir föt.“ 

— Hvernig leggst 2020 í þig?

„2020 leggst mjög vel í mig, ég er spennt fyrir framtíðinni og ánægð með þessa ákvörðun.“ 

— Hvað ætlar þú að gera í ár sem þú hefur ekki gert áður?

„Ég ætla að gera ýmislegt skemmtilegt tengt hönnun, svo verð ég með pop up-verslun hér og þar, ásamt því að einbeita mér betur að mínum frábæru sölustöðum.“

mbl.is