Hvers vegna fáum við bauga?

Hvers vegna fáum við bauga?
Hvers vegna fáum við bauga? Ljósmynd/Unsplash

Ragna Hlín Þorleifsdóttir, húðlæknir á Húðlæknastöðinni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem er með mikla bauga. 

Sæl Ragna. 

Ég er með svo mikla bauga undir augunum og er búin að vera svoleiðis í mörg ár. Fólk fær yfirleitt áfall ef það sér mig ómálaða. Ég ræddi þetta við lækni fyrir mörgum árum spurði hvort þetta gæti stafað af vítamínskorti en ég fékk engin svör. Veistu hver ástæðan gæti verið?

Kær kveðja, 

Ellen. 

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Sæl Ellen!

Baugar undir augum stafa af nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi tengjast þeir erfðum. Við erfum andlitsbygginguna frá foreldrum okkar þ.m.t. beinauppbygginu og þykkt og staðsetningu fituvefja og sumir eru einfaldlega með bauga frá barnsaldri. Í öðru lagi er húðin missþykk á augnsvæðinu, almennt þynnist húðin með árunum og þá verða æðar meira sjáanlegar og gefa þess vegna þennan einkennandi blárauða lit. Í þriðja lagi minnka einnig fitu- og stoðvefir sem liggja í augntóftinni með aldrinum þannig að við verðum „holari“ sem lætur okkur líta út fyrir að vera með meiri bauga. Auk þessara þátta er fjöldamargt annað sem getur stuðlað að áberandi baugum til dæmis: 

  1. Svefnleysi
  2. Dekkri húðgerð. Fólk með dekkri húðlit er oft dekkra kringum augun (hyperpigmentation)
  3. Krónískt eksem á augnsvæði getur dekkt húðina
  4. Ofnæmi t.d. fyrir frjókornum eða dýrum sem einkennist af bólgu kringum augu
  5. Of mikil útsetning fyrir sólinni!

Þetta er ekki tæmandi listi en ég ráðlegg þér að leita til húðlæknis til meta vandamálið og hugsanlega er hægt að finna lausn sem hentar þér.  

Kærar kveðjur,

Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent húðlækninum spurningu HÉR. 

mbl.is