Ólíklegt að Hildur toppi Björk á Óskarnum

Hildur Guðnadóttir mun líklega ekki mæta í eins óhefðbundnum kjól …
Hildur Guðnadóttir mun líklega ekki mæta í eins óhefðbundnum kjól og Björk Guðmundsdóttir gerði um árið. Samsett mynd

Íslendingar gætu eignast sinn fyrsta óskarsverðlaunahafa á sunnudaginn en Hildur Guðnadóttir þykir líkleg til þess að vinna Óskarinn fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker. Listræn afrek falla þó oft í skuggann af fatnaði stjarnanna á rauða dreglinum. Hverju mun Hildur klæðast á rauða dreglinum? 

Tónlistarkonan Björk Guðmundsdóttir var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 2001 fyrir lagið I've Seen It All úr myndinni Dancer in the Dark. Björk fór ekki heim með styttuna góðu en ef það væru til verðlaun fyrir eftirminnilegasta kjól Óskarsverðlaunanna frá upphafi væri Björk afar sigurstrangleg. Ef fatastíll Hildar á verðlaunahátíðum undanfarið er skoðaður er ólíklegt að hún toppi svanakjól Bjarkar. Svanakjóllinn er það frægur að til er heil wikipediasíða um kjólinn sem Marjan Pejoski hannaði. 

Kjóll Bjarkar var afar umdeildur.
Kjóll Bjarkar var afar umdeildur. REUTERS/Fred Prouser

Í hverju mætir Hildur?

Hildur hefur mætt á hverja verðlaunahátíðina á fætur annarri og sópað að sér verðlaunum. Einfaldleiki, fágun og smá krydd hefur einkennt fatastíl Hildar til þessa. Líklegt er að hún haldi í sama stíl. Ekki er hægt að útiloka að Hildur mæti í íslenskri hönnun á rauða dregilinn en hún hefur meðal annars klæðst hönnun Hildar Yeoman á opinberum vettvangi. 

Hildur tók á móti BAFTA-verðlaunum í febrúar í ljósum kjól frá Lever Couture. Kjóllinn var í anda þriðja áratugar síðustu aldar og komst Hildur víða á lista yfir best klæddu konurnar á hátíðinni. 

Hildur í ljósu á BAFTA-verðlaunahátíðinni í byrjun febrúar.
Hildur í ljósu á BAFTA-verðlaunahátíðinni í byrjun febrúar. AFP

Skrautlegasti kjóllinn sem Hildur hefur klæðst síðustu mánuði er kjóllinn sem hún klæddist á Grammy-verðlaunahátíðinni. Kjólinn hannaði Iris Van Herpen. Þrátt fyrir óvenjulegt snið var kjóllinn afar kvenlegur og bjuggu efnið og munstrið til ákveðna sjónhverfingu.  

Hildur valdi litríkan kjól fyrir Grammy-verðlaunin.
Hildur valdi litríkan kjól fyrir Grammy-verðlaunin. AFP

Einn einfaldasti kjóllinn sem Hildur hefur klæðst var svartur stuttermasíðkjóll á Critics' Choice-verðlaunahátíðinni hinn 12. janúar. 

Hildur í svörtu og einföldu á Critics' Choice-verðlaunahátíðinni.
Hildur í svörtu og einföldu á Critics' Choice-verðlaunahátíðinni. AFP

Hildur vann Golden Globe-verðlaun í byrjun árs og mætti í pallíettufötum. Í fyrstu virðist um einfaldan pallíettufatnað að ræða en þegar betur er að gáð má sjá að Hildur er í buxum við kjólinn. 

Hildur í pallíettufötum á Golden Globe.
Hildur í pallíettufötum á Golden Globe. AFP
mbl.is