Jane Fonda ætlar ekki í fleiri lýtaaðgerðir

Jane Fonda á Óskarsverðlaunahátíðinni.
Jane Fonda á Óskarsverðlaunahátíðinni. AFP

Leikkonan og baráttukonan Jane Fonda ætlar ekki að fara í fleiri lýtaaðgerðir það sem eftir er af ævi hennar. Fonda, sem er 82 ára, hefur farið í fjölda aðgerða á síðustu áratugum. 

Fonda sagði í viðtali við kanadíska Elle að hún hafi fundið fyrir mikilli pressu til að halda sér unglegri í Hollywood á árum áður og hafði miklar áhyggjur af útliti sínu. 

„Ég get ekki sagt að ég sé ekki hégómafull, en ég ætla ekki í fleiri lýtaaðgerðir. Ég ætla ekki að láta skera mig upp meira. Ég þarf að vinna í því á hverjum degi að taka sjálfri mér eins og ég er. Það er ekki auðvelt fyrir mig,“ sagði Fonda. 

Fonda barðist við lotugræðgi á sínum yngri árum og viðurkennir að hún hafi ekki náð almennilega stjórn á henni fyrr en þegar hún var komin yfir fertugt. Í viðtalinu segir hún að hún stefni að því að vera opnari um sín persónulegu málefni við aðdáendur sína þótt það þýði að líf hennar verði ekki sveipað jafn miklum frægðarljóma fyrir vikið. 

Fonda hefur áður rætt um lýtaaðgerðir sínar þar sem hún sagðist vera ánægð með að líta vel út þrátt fyrir aldur sinn, en að hún hafi þurft að fara í margar aðgerðir til þess. „Ég hata þá staðreynd að mér hafi fund­ist ég þurfa að breyta sjálfri mér lík­am­lega til að líða eins og ég sé í lagi,“ sagði Fonda.

Jane Fonda er ötul baráttukona.
Jane Fonda er ötul baráttukona. AFP
mbl.is