Magnús er smartasti skólameistari Íslands

Magnús Ingvason skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla er án efa smartasti …
Magnús Ingvason skólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla er án efa smartasti skólameistari landsins.

Magnús Ingvason er að margra mati best klæddi skólameistari landsins en hann starfar í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Hann á 15 litrík jakkaföt og ótal skyrtur með allskonar munstrum. Honum leiðist einlitur og litlaus fatnaður. Hann segist ekki eyða miklum peningum í föt á mánuði heldur hefur hann safnað þessum ævintýralegu fötum í mörg herrans ár.

Hvernig myndir þú lýsa þínum fatastíl?

„Ég myndi lýsa honum sem frekar skrautlegum og litríkum. Ég kýs að ganga í fötum sem ekki eru einlit. Ég á um það bil 15 skyrtur sem eru í svona óhefðbundnari kantinum; blómaskyrtur, skyrtur með áletrunum og ýmsu skrauti. Ég klæðist alla daga einhverri þeirra og er í „venjulegum“ buxum við þær.

Hvaðan sækir þú innblástur fyrir fatastílinn?

„Lífið er alls konar og föt eiga líka að vera alls konar.“ 

Fyrir hverju fellur þú oftast þegar kemur að fötum?

„Munstri, litum og einhverjum „grúví“ fatnaði. Maður verður að þora að vera eins og maður vill vera.“

Hér er Magnús í jakkafötum með teiknimyndamunstri.
Hér er Magnús í jakkafötum með teiknimyndamunstri.

Hefur þú alltaf verið svona?

„Já, sérstaklega í seinni tíð.“

Þú átt víst nokkuð safn af skrautlegum jakkafötum?

„Já, þau eru sér kapítuli. Ég á tvenn „venjuleg“ og falleg jakkaföt og svo 18 jakkaföt sem myndu þykja frekar óvenjuleg. Þau nota ég þó ekki oft, en þegar tilefni gefst, þá dreg ég þau fram. Bleiku jakkafötin á bleika deginum, gulu um páska, tvenn jólaföt á ég og svo fallega græn jakkaföt með blómum nota ég á degi náttúrunnar. Svo er „halloween“ og þá dregur maður fram blóðslettuföt og svo eru aðrir dagar sem gefa tilefni til að draga fram eitt og annað.“

Bleiku jakkafötin slá alltaf í gegn.
Bleiku jakkafötin slá alltaf í gegn.

Finnst þér dagurinn verða betri ef þú ert í réttu fötunum?

„Nei, ekkert sérstaklega. Það eru engin „rétt“ föt heldur bara mín föt.“

Hvar kaupir þú helst föt?

„Hér og þar; mest á Íslandi en einnig erlendis. Mér finnst stundum vanta í íslenskar verslanir lífleg föt. Mikið um svart, hvítt og grátt.“

Hvað eyðir þú miklu í föt á mánuði?

„Ég kaupi föt mjög óreglulega. Litríka spariskyrtu er ég búinn að eiga í um það bil 15 ár og önnur föt er mörg hver orðin gömul, en ekki lúin. Flottar skyrtur fara til dæmis aldrei úr tísku þó ég sé reyndar aldrei að hugsa um tísku þegar ég kaupi föt. Ef ég sé til dæmis skyrtu sem ég fell fyrir, þá er mér nokkuð sama hvað hún kostar. Keypti skyrtu um daginn sem kostaði 27 þúsund, en ég hugsaði mig reyndar þrisvar um. Litríku jakkafötin mín hafa ekki kostað mikið, en ég er líklega þó hættur að safna þeim. Orðið gott þegar einn fataskápur fer undir þau.“

Hvernig hugsar þú um fötin þín?

„Bara nokkuð vel. Allar skyrtur strauja ég og tek svona tarnir; strauja þá allt að 15 skyrtur í einu sem eru að koma úr þvotti. Gott ef það er fótboltaleikur í gangi á meðan.“

Hvað dreymir þig um að eignast?

„Ekkert sérstakt, bara góð, litrík og þægileg föt. Ég keypti mér mjög flottan og ekta kínajakka í haust og það var púslið sem mig vantaði.“

Hefur veðurfar áhrif á fatastílinn?

„Nei, bara hlý föt á veturna og létt föt á sumrin.“

Magnús á aðeins tvenn hefðbundin jakkaföt. Hér er hann í …
Magnús á aðeins tvenn hefðbundin jakkaföt. Hér er hann í öðrum þeirra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál