27 ára og enn þá með unglingabólur

Íslensk kona kvartar yfir því að vera enn þá með …
Íslensk kona kvartar yfir því að vera enn þá með unglingabólur 27 ára. Ljósmynd/Unsplash

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem er enn þá að fá bólur eins og hún sé unglingur. 

Góðan dag

Ég er 27 ára kona og er enn þá að fá bólur eins og unglingur, stundum mikið og stundum lítið, bæði litlar en líka bólur með grefti. Ég reyni eftir bestu getu að kreista þær ekki. Ég nota hreinsi og kornamaska.

Ég er með frekar viðkvæma húð og verð oft rauð á nefinu. Ég hef aldrei fundið húðvörur sem mér finnst gera neitt sérstakt fyrir húðina mína, hvorki mildar né sterkari vörur. Ég hef þó aldrei verið að kaupa neinar rándýrar vörur. Eftir að lesa svarið frá ykkur um retinóla fór ég að hugsa hvort það gæti verið lausn fyrir mig? Mig langar svo að losna við þessar bólur.

Kær kveðja, 

K

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda.
Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda.

Sæl

Þetta er vandamál sem væri örugglega hægt að hjálpa þér með hjá húðlækni. Reyndu að freistast ekki til að kreista bólurnar, það getur valdið sýkingum og öramyndun. Oft er betra að nota færri húðvörur en fleiri, of mikið af mismunandi efnum á húðina getur  gert hlutina verri.

Retinolkrem eru mjög góð og gætu jafnvel hjálpað þér með bólurnar. Þau eru hins vegar til í mismunandi styrkleika og geta ert húðina ef þau eru ekki notuð rétt. Það er mjög mikilvægt að þú notir réttar vörur fyrir þína húð, því öll erum við jú misjöfn. Stundum duga krem ein og sér ekki á bólur og þá þarf jafnvel styttri eða lengri töflukúra. Ég ráðlegg þér því eindregið að panta tíma hjá húðlækni svo hægt sé að finna réttu lausnina fyrir þig.

Bestu kveðjur,

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Örnu Björk spurningu HÉR. 

mbl.is