Myndi aldrei fara í smekkbuxur og magabol

Matthildur Ívarsdóttir er alltaf fallega klædd.
Matthildur Ívarsdóttir er alltaf fallega klædd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Matthildur Ívarsdóttir eigandi noomi.is segir að kauphegðun sín hafi breyst mikið. Þegar hún var unglingur átti hún það til að kaupa flíkur sem aldrei voru notaðar en nú er það ekki þannig. Fatastíll hennar er frísklegur og heillandi. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Matthildur er nýflutt aftur til Íslands eftir að hafa búið í Borås í Svíþjóð í átta ár. Hún er gift Inga Hrafni Guðmundssyni og eiga þau tvo drengi en fjölskyldan bjó í Svíþjóð á meðan heimilisfaðirinn var í sérnámi. 

„Ég var nýútskrifuð úr hagfræði frá Háskóla Íslands þegar við fluttum út en þar nýtti ég tímann og settist aftur á  skólabekk og náði mér í mastersgráðu í textílstjórnun. Ég fékk fjölda spennandi tækifæra, svo sem að starfa hjá Didriksons, sem margir á Íslandi þekkja vel og svo bauðst mér að gerast lærlingur (e. intern) hjá Gina Tricot — sem var algjörlega frábær upplifun enda búin að vera aðdáandi þess tískufyrirtækis frá því ég var unglingur. Í framhaldinu komst svo ekkert annað að en að reyna að koma þessu merki til Íslands og í fyrra stofnaði ég með vini mínum netverslunina noomi.is þar sem við seljum fatnað frá þessum sænska tískurisa,“ segir Matthildur. 

Hvernig myndir þú lýsa þínum stíl?

„Það sem kannski hefur mest áhrif á mitt val á fötum eru þægindin, en svo er þetta háð skapi hverju sinni og tilefni auðvitað. Ég get kannski sagt að minn stíll sé afslappaður, stílhreinn og á sama tíma kvenlegur. Mér finnst svo líka gaman að blanda eldri flíkum með nýjum.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrir hverju fellurðu oftast?

„Ég elska að kaupa yfirhafnir og á oftast auðvelt með að kaupa jakka, kápur og skó.“ 

Uppáhaldslitir?

„Ætli svartur, hvítur og blár séu ekki litirnir sem ég klæðist oftast. Mér finnst reyndar mjög gaman að klæðast eftir árstíðum —  eins og á haustin þá eru jarðlitir í miklu uppháhaldi og á sumrin er ég hrifnari af meiri litadýrð.“

Hvernig föt finnst þér klæða þig best?

„Föt sem mér líður vel í, það skilar sér alltaf í góðri útkomu. Svo reyni ég að velja föt sem mér finnst henta mínu vaxtarlagi.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?

„Það er mjög einfalt. Ég elska flottar gallabuxur og stuttermabol eða peysu. Nokkuð viss um að langstærsti hlutinn af gallabuxunum mínum er frá Gina Tricot, enda eru það langbestu gallabuxurnar að mínu mati. Hvort sem ég vel jakka og strigaskó við eða fínni blazer og stígvél þá er það alltaf skothelt.“

En þegar eitthvað mikið stendur til?

„Það er misjafnt, veltur algjörlega á stað og stund. En ég er þá oftast í klassísku og einföldu eða algjörlega á hinum endanum, þá í litum og leyfi mér meiri glamúr.“

Hvað myndir þú taka með þér á eyðieyju?

„Sólarvörn, bát og símann minn.“

Hvað myndir þú áætla að þú eyddir miklu í föt á mánuði?

„Ótrúlega erfitt að segja, en síðustu ár hefur eyðslan minnkað umtalsvert þar sem ég er meðvitaðari um í hvað ég er að eyða. Þegar ég var yngri eyddi ég oft peningum í föt sem svo voru bara aldrei notuð. Núna er ég mun meðvitaðri neytandi og hef fyrir reglu að spyrja mig hvort ég muni raunverulega nota flíkina og það hefur virkað vel fyrir mig. En ef ég verð að skjóta á eitthvað væri það kannski í kringum 20.000 krónur á mánuði, án þess að vera alveg sannfærð um sannleiksgildið.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hver er dýrasta flíkin í fataskápnum?

„Ég er ekki mikið fyrir að kaupa dýrar flíkur, er meira í að velja mér flíkur sem ég finn að eru úr góðum efnum og endast vel. Þær eru ekki endilega alltaf dýrastar. Ég er búin að búa erlendis síðustu árin og verðið er aðeins öðruvísi þar en hérna heima svo ég get ekki dregið fram neina sjokkerandi verðmiða hérna. En ætli Filippa K-ullarkápan mín sé ekki bara dýrasta flíkin í skápnum sem stendur.“

Hvað dreymir þig um að eignast?

„Mig dreymir einna helst um almennilegan og vel skipulagðan fataskáp, þá væri ég vel sett.“

Í hvað myndir þú aldrei fara?

„Smekkbuxur og magabol.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hver er best klædda kona veraldar að þínu mati?

„Ég er ekki með einhverja eina sem ég get sagt að mér finnist best klædd. Sjálf sæki ég mér innblástur í svo ólíkar konur. Þetta geta verið konur sem ég þekki eða jafnvel bara bláókunnugar konur úti á götu.“

Hvað gerirðu við föt sem þú ert hætt að nota?

„Mér finnst skipta miklu máli að nýta sem mest og henda sem minnst. Ég er dugleg við að gefa frá mér það sem ég nýti ekki sjálf og finnst fullkomið fyrirkomulag ef einhver annar getur nýtt. Ég er líka hrifin af lausnum eins og Extraloppunni og Trendporti. Mér finnst algjörlega frábært að sjá hversu margir að nýta sér svoleiðis í staðinn fyrir að kaupa allt nýtt.“

Verðurðu leið á fötunum þínum eða áttu sömu fötin ár eftir ár? 

„Neyslumynstrið hefur breyst mikið undanfarin ár og ég reyni að kaupa frekar fatnað sem ég veit að ég get notað meira. Ég reyni líka að haga kaupunum þannig að ég velji föt sem ólíklegt er að ég verði leið á, þ.e. meira af klassískum fötum og kannski þá minna af tískutrendum líðandi stundar. Mér finnst samt alveg gaman að hrista aðeins upp í skápnum með því að grípa trend við og við og mixa þá saman við eldri flíkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál