Rauði varaliturinn fer líka á kinnarnar

Berglind Guðmundsdóttir hefur lengi haft áhrif á förðun.
Berglind Guðmundsdóttir hefur lengi haft áhrif á förðun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Berglind Guðmundsdóttir eigandi uppskriftasíðunnar GulurRauðurGrænn&salt er þekkt fyrir breitt bros og rauðan varalit. Hún hefur lengi haft áhuga á snyrtivörum og lærði förðunarfræði áður en annað tók yfir. Blaðamaður fékk að forvitnast um uppáhaldssnyrtivörur Berglindar. 

Berglind leggur mikið upp úr því að hugsa um raka húðarinnar og næra hárið vel. Einnig er svefn algjört lykilatriði að hennar mati. 

„Ég reyni aðallega að viðhalda eðlilegum raka húðarinnar sem getur reyndar verið mikil áskorun á þessum árstíma. Ef rakinn er í lagi þá gengur allt annað vel upp. Það sama gildir um hárið að það sé vel nært. Ef ég er með ljótuna þá klikkar ekki að lita augabrúnirnar og skella á sig brúnkukremi. Annars er góður svefn lykillinn að því að líta vel út — snyrtivörur geta aldrei gert það sem góður nætursvefn færir manni,“ segir Berglind þegar hun er spurð hvernig hún hugsi um útlitið. 

Hvernig málar þú þig dagsdaglega?

„Ég set á mig rakakrem, farða, kinnalit, augnskugga, eyeliner, skyggingu og gloss eða varalit.“

Berglind notar „eyeliner“ bæði hversdags og við fínni tilefni.
Berglind notar „eyeliner“ bæði hversdags og við fínni tilefni.

En þegar þú ferð eitthvað spari?

„Sama rútína nema þá nota ég dekkri augnskugga eða breikka eyeliner-línuna, geri skyggingu og svo elska ég rauðan varalit. Hann er svona mitt einkennismerki.“

Hvað tekur það þig langan tíma að gera þig til?

„Ætli ég sé ekki svona 15 mínútur að skella hversdagsfarðanum á en ef ég er að fara eitthvað fínt finnst mér voða gaman að dúllast aðeins við þetta. Þá getur þessi athöfn alveg léttilega farið upp í klukkutíma með ljúfri tónlist, góðri vinkonu og jafnvel prosecco — já svei mér þá.“

Berglind hugsar vel um húð og hár.
Berglind hugsar vel um húð og hár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvenær byrjaðir þú að mála þig?

„Ég hafði mjög snemma áhuga á förðun. Ég og vinkona mín lékum okkur að því að setja á okkur mjög litríka augnskugga og kinnaliti. Ætli við höfum ekki verið 12-13 ára gamlar. Hefði nú verið gaman að eiga myndir af því, en það var frekar skrautlegt. Svo hélt áhuginn áfram og ég endaði á að fara og læra förðunarfræði og það kom alveg til greina að vinna við það. Svo varð þó ekki og leið mín lá í staðinn í matarbransann þar sem sköpunarkrafturinn fékk notið sín.“

Hvernig hugsar þú um húðina? 

„Ég reyni að viðhalda eðlilegum raka húðarinnar, sem getur reyndar verið mikil áskorun á þessum árstíma. Mér finnst gott að nota kókosolíu sem ég nota sem rakakrem og einnig til að fjarlægja farða og þrífa húðina. Svo er góð rakabomba á andlitið sem ég nota en hún er frá SkinCeuticals, Moisturize Hydrating B5 gel. Gefur húðinni fallegan ljóma. Ég ætti líklega að drekka meira vatn og minna af rauðvíni, en það hefur ekki alveg gengið eftir. Annars á ég það til að fá kuldaexem og Ása Regins gaf mér það frábæra ráð að fá mér daglega matskeið af hampfræjum eða hampfræsolíu. Þau hjálpa til við að halda exeminu í skefjum.“ 

Berglind notar ekki bara kókosolíu í matreiðsluna heldur einnig á …
Berglind notar ekki bara kókosolíu í matreiðsluna heldur einnig á andlitið. Getty Images

Hvað gerirðu til að dekra við þig?

„Mér finnst voða huggulegt að liggja í óhóflega heitu ilmolíubaði og setja á mig andlitsmaska. Svo fer ég stundum í meira dekur til Evu frænku sem er snyrtifræðingur á snyrtistofunni Kopar í Garðabæ. Hún lumar alltaf á einhverju sniðugu fyrir mig og ég kem alltaf „gordjöss“ út frá henni. Það sama get ég sagt um hana Hrafnhildi hjá Portinu sem sér um að halda hárinu mínu fallegu. Þetta er draumateymið mitt!“

Hvað finnst þér skipta máli að eiga í snyrtibuddunni?

„Góðan farða, maskara og rauðan varalit sem ég nota líka sem kinnalit.“

Berglind notar farða frá Estée Lauder.
Berglind notar farða frá Estée Lauder.

Uppáhaldssnyrtivörurnar?

„Það eru nokkrar vörur sem ég kaupi aftur og aftur eins og Esteé Lauder Double Wear-farðinn. Þrátt fyrir að hafa prufað þá marga er þessi farði alltaf í uppáhaldi. Tarte-hyljararnir eru algjör snilld og svo er Better Than Sex-eyelinerinn sá besti sem ég hef prufað. Já og svo verð ég að fá að nefna Born to Glow highlighter-pallettuna frá NYX en ég fæ alltaf fyrirspurnir um það hvernig ég fæ svona fallegan gljáa þegar ég nota hana.“

Berglind notar Born to Glow frá NYX.
Berglind notar Born to Glow frá NYX.

Hvað dreymir þig um að eignast í snyrtibudduna?

„Ég væri alveg til í að eignast gott ilmvatn. Ég á enn eftir að finna ilminn fyrir árið 2020.“

Berglind stefnir á að kaupa sér gott ilmvatn á árinu.
Berglind stefnir á að kaupa sér gott ilmvatn á árinu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is