Svona djúphreinsarðu húðina

Fyrirsætan Romee Strijd er með sérlega fallega húð.
Fyrirsætan Romee Strijd er með sérlega fallega húð. Skjáskot/Instagram

Brjóstahaldarinn virðist vera farinn í frí, fatastíllinn einkennist af öllu sem teygist og ég greiði mér ef ég er í stuði. Ég leit því í spegilinn nýverið og hugsaði með mér að nú skyldi ég hysja upp um mig (jogging)buxurnar. Markmið var sett, að ég skyldi snúa aftur í samfélagið með ljómandi húð og engar sjáanlegar svitaholur. Verandi einhleyp og barnlaus er þetta raunhæft markmið, þar sem ég þarf ekki að verja tíma í bangsaleit og hér er enginn til að röfla yfir óskipulagi í skúffunum. Ég hef komið mér upp ákveðinni rútínu til að djúphreinsa húðina og hentar hún minni ofurviðkvæmu húð vel en ég djúphreinsa húðina einu sinni til tvisvar í viku. 

Tvöföld hreinsun gerir kraftaverk

Undanfarið hef ég tileinkað mér tvöfalda hreinsun á hverju kvöldi og hefst djúphreinsun húðarinnar að sjálfsögðu á henni. Fyrsta umferð andlitshreinsis leysir upp farða eða óhreinindi úr umhverfinu og er yfirleitt olíuhreinsir eða hreinsivatn notað. Ef ég er með mikinn farða nota ég olíuhreinsi á borð við L'Huile Anti-Pollution Cleansing Oil frá Chanel til að leysa hann allan upp. Ef ég er með léttan eða engan farða og á hraðferð þá nota ég Low-Viscosity Cleaning Ester frá NIOD en þetta er öflugt hreinsivatn sem fjarlægir öll óhreinindi af húðinni án þess að þurrka hana. 

Chanel L´Huile Anti-Pollution Cleansing Oil er olíuhreinsir sem tekur af …
Chanel L´Huile Anti-Pollution Cleansing Oil er olíuhreinsir sem tekur af allan farða og hreinsar húðina. (6.399 kr.)
NIOD Low-Viscosity Cleansing Ester er öflugt hreinsivatn. Fæst í versluninni …
NIOD Low-Viscosity Cleansing Ester er öflugt hreinsivatn. Fæst í versluninni Maí eða í vefverslun þeirra á mai.is. (5.990 kr.)

Önnur umferð andlitshreinsunar er svo hugsuð til að hreinsa dýpra og ná til óhreininda sem sitja ofan í svitaholunum. Ég hef verið að nota Sanskrit Saponins frá NIOD en þessi djúphreinsandi kremhreinsir byggir á náttúrulegum jurtum sem Ayurveda-fræðin byggja á. Formúlan inniheldur engin óæskileg efni, hreinsar burt dauðar húðfrumur og finnst mér ég strax sjá mun á ásýnd svitaholanna. Þær virðast minni og húðin heilt yfir hreinni.

NIOD Sanskrit Saponins er djúphreinsandi andlitshreinsir. Fæst í versluninni Maí …
NIOD Sanskrit Saponins er djúphreinsandi andlitshreinsir. Fæst í versluninni Maí eða í vefverslun þeirra á mai.is.

Öflugur andlitsmaski sem rífur upp óhreinindi

Þegar húðin er orðin tandurhrein ber ég leirmaska á hana til að soga upp óhreinindi sem sitja djúpt í svitaholunum. Lesendur kannski taka kannski eftir að ég nota talsvert af vörum frá NIOD þessa dagana en þetta er, að mínu mati, eitt af áhugaverðustu húðvörumerkjum á markaðnum í dag. NIOD stendur fyrir Non Invasive Options in Dermal Science og er hluti af fyrirtækinu DECIEM sem á einnig húðvörumerkið The Ordinary. NIOD er þó talsvert dýrara og tæknilegra en þó án óæskilegra aukaefna. Mér fannst nýverið bent á andlitsmaska frá merkinu sem nefnist Flavanone Mud en þetta er framúrstefnulegur leirmaski sem afstíflar svitaholur á þrjá vegu. Fyrst er umhverfismengun, umfram húðfita og leifar af förðunarvörum hreinsaðar upp með þremur steinefnaríkum leirgerðum. Næst myndar andlitsmaskinn verndarhjúp yfir húðina sem heldur frá óæskilegum efnum úr umhverfinu. Að lokum eru það flavoníð, líkt og maskinn heitir eftir, sem á virkan hátt dregur úr sindurefnum á húðinni. Við fyrstu notkun skal nota maskann fimm daga í röð og svo einu sinni í viku eftir það. Þar sem ég er orðin ansi sjóuð í snyrtibransanum tek ég flestu með fyrirvara þar til ég prófa það sjálf en þessi andlitsmaski er svakalegur. Hann var aðeins óþægilegur á húðinni, eins og hann sviði eða væri að rífa upp úr svitaholunum óhreinindi, en húðin var ótrúleg eftir á. Mæli klárlega með þessum andlitsmaska ef þú vilt sjá árangur á skömmum tíma.

NIOD Flavanone Mud er mjög öflugur andlitsmaski. Fæst í versluninni …
NIOD Flavanone Mud er mjög öflugur andlitsmaski. Fæst í versluninni Maí eða í vefverslun þeirra á mai.is. (5.495 kr.)

Regluleg notkun ávaxtasýra 

Til að gæta þess að húðholur stíflist ekki aftur eftir djúphreinsun nota ég ávaxtasýruvökva annan hvern dag til að örva endurnýjun húðarinnar. Þó nota ég ekki ávaxtasýrur eftir að hafa notað öflugan andlitsmaska. Sumir nota ávaxtasýrur daglega en verandi með viðkvæma húð er það of ertandi. Ég hef verið að prófa Poreless Exfoliating Essence frá BareMinerals en þessi vökvi er mildur og nærir húðina samhliða húðflögnunaráhrifum sýrunnar. Formúlan er án allra óæskilegra aukaefna og finnst mér hún virka mjög vel.

BareMinerals Poreless Exfoliating Essence er náttúrulegur ávaxtasýruvökvi sem leysir upp …
BareMinerals Poreless Exfoliating Essence er náttúrulegur ávaxtasýruvökvi sem leysir upp dauðar húðfrumur.

Serum sem gerir við húðina

Líkt og ég hef skrifað áður tel ég alla eiga að nota serum í sinni húðumhirðurútínu. Serum eru öflugar formúlur sem ná dýpra niður í húðina til að jafna ýmsar misfellur en mikilvægt er að velja serum sem hentar vel þinni húð. Þar sem ég er með viðkvæma húð vel ég yfirleitt serum sem styrkja húðina og jafna húðlitinn en Copper Amino Isolate Serum 2:1 frá NIOD er það nýjasta á snyrtihillunni minni. Þetta er margverðlaunað serum sem inniheldur þrískipt kopar-peptíð sem vinnur á algengustu kvillum húðarinnar, svo sem áferð, þreytumerkjum, þurrki og öldrunarmerkjum. Eftir að ég fór að nota þetta serum finnst mér húðin verða jafnari ásýndar og ég er ekki frá því að hún virki sléttari eftir 7 daga notkun. 

NIOD Copper Amino Isolate Serum 2:1 er öflugt andlitsserum sem …
NIOD Copper Amino Isolate Serum 2:1 er öflugt andlitsserum sem þéttir og græðir húðina. Fæst í versluninni Maí eða í vefverslun þeirra á mai.is. (10.800 kr.)

Rakakrem

Eftir að hafa djúphreinsað húðina þar að róa hana og næra með góðu andlitskremi. Sjálf er ég að nota Redness Solutions Daily Relief Cream frá Clinique en það er sérlega milt og róar húðina samstundis. Það er þétt í sér og mjög nærandi, en þó olíulaust, og styrkir yfirborð húðarinnar. 

Clinique Redness Solutions Daily Relief Cream er frábært andlitskrem sem …
Clinique Redness Solutions Daily Relief Cream er frábært andlitskrem sem róar og nærir húðina. Fæst í næstu snyrtiverslun eða í vefversluninni Beautybox.is. (9.410 kr.)

Eftir þessa rútínu líður mér alltaf eins og húðin geti andað aftur. Svo lofa ég sjálfri mér því, að drekka meira vatn í stað rauðvíns, finna önnur föt en íþróttagallann og jafnvel leita að brjóstahaldaranum. Þessi bjartsýni varir í nokkra daga, svo sekk ég í gamla farið, fæ síðan nóg af því og djúphreinsa húðina aftur. Þessi hringur virðist vera kominn til að vera á meðan veiran gengur yfir. Inniveran virðist þó ekki hafa haft áhrif á sjálfstraustið, enda fannst mér tilvalið að nota mynd af ofurfyrirsætu sem forsíðumynd á grein um húðumhirðu mína. 

Vertu með á Instagram:
@Snyrtipenninn

mbl.is