Eru þetta einkenni lekandi brjóstapúða?

Ljósmynd/Unsplash

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manneskju sem veltir því fyrir sér hvort hún sé með leka brjóstapúða. 

Sæl,

Ef brjóstapúði lekur er möguleiki að út frá því fái ég mikla verki í öxl og handlegg. Ég hef enga aðra útskýringu á þessum verkjum. Hef verið með púðana í 13 ár. En þessir verkir hafa verið í 4 mánuði núna.

En hver eru annars einkennin ef brjóstapúðar leka?

Kveðja, 

S

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica.
Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir á Dea Medica. mbl.is/Árni Sæberg

Sæl og takk fyrir spurninguna.

Það er alveg hugsanlegt að þessi einkenni sem þú lýsir (verkir í öxl og handlegg) komi frá púðanum. Umhverfis púðann myndast alltaf himna (capsula) sem er undir venjulegum kringumstæðum þunn og mjúk. Þessi himna getur bólgnað/þykknað og valdið einkennum, brjóstið harðnar og færist ofar á brjóstkassann. Þessu geta fylgt verkir í bróstinu, til hliðar, upp í öxl og út í hendi sem koma og fara. Lagast oft við nudd. Stundum gerist þetta án þess að púðinn sé sprunginn og einungis lítil vökvasöfnun umhverfis púðann. Þá ganga einkennin yfirleitt til baka eftir einhvern tíma með nuddi og bólgueyðandi lyfjum. Nauðsynlegt er að fá skoðun hjá lýtalækni og í kjölfarið ómskoðun til þess að meta hvort púðinn sé farinn að leka. Ef svo er þá er ráðlagt að skipta um púða eða fjarlægja þá.

Gangi þér vel og bestu keðjur,

Þórdís Kjartansdóttir lýtalæknir.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Þórdísi spurningu HÉR

mbl.is