Er til í eitthvað betra en Bótox í hrukkurnar?

Bótox er vinsælt hjá báðum kynjum.
Bótox er vinsælt hjá báðum kynjum.

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem hefur prófað Bótox en veltir fyrir sér öðrum möguleikum. 

Sæl Arna. 

Ég er fjörutíu og fimm ára kona og hef farið í Bótox áður en ekki kynnt mér Restalyn almennilega. Ég sé að konur nota það og Bótox fyrir hrukkur.
Hvort myndir þú mæla með Restalyni eða Bótox fyrir broshrukkur?
Svo er annað, mér finnst augnlokin á mér elda mig, þau eru að síga fullmikið að mínu mati, hverju myndir þú mæla með til að fá slétt augnlok eða aðeins að lyfta þeim?

Kveðja, P

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda.
Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda.

Sæl

Þetta er að sjálfsögðu einstaklingsbundið eins og svo margt annað. Oftast er þó notast við vöðvaslakandi efni (Bótox) í þessar svokölluðu broshrukkur í kringum augun. Stundum eru þær þó töluvert djúpar og þá er hægt að nota bæði vöðvaslakandi og fylliefni. Þó ólíklegt að þess þurfi í þínu tilfelli þar sem þú ert það ung.

Varðandi augnlokin þá eru til ýmsar meðferðir, til dæmis hefur húðþéttingarmeðferð (oft kallað andlitslyfting án skurðaðgerðar) gefið góðan árangur á augnsvæðið. Stundum er hægt að fá létta lyftingu á augnsvæði með vöðvaslakandi efnum en í sumum tilfellum er skurðaðgerð óhjákvæmileg. Ég mæli eindregið með að þú pantir þér tíma hjá húðlæknum eða lýtalæknum til að finna út hvað myndi henta þér best.

Bestu kveðjur,

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Örnu Björk spurningu HÉR. 

mbl.is