Hætti á pillunni og húðin hríðversnaði

Ljósmynd/Unsplash

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manneskju sem hætti á pillunni og hríðversnaði í húðinni. 

Góðan dag

Sem unglingur var ég með fína húð fyrir utan stöku bólur. Ég var á pillunni Jasmin frá tvítugu í hátt í áratug og húð og hár voru mjög góð á meðan. Þegar ég hætti á henni hríðversnaði húðin mín, hún varð feit og eins og hún væri alltaf að framleiða litlar og stórar óþægilegar bólur út um allt enni og hársvörð. Ég myndi lýsa því þannig að það er eins og húðin sé aldrei í pásu, alltaf eitthvað nýtt að spretta fram, ég var oft á dag að finna eitthvað nýtt. Þetta breyttist ekkert á þeim fjórum árum sem ég var ekki á pillunni, ég fór einu sinni til húðsjúkdómalæknis sem gerði hálfgert grín að mér því honum fannst þetta svo lítið og skrifaði upp á krem sem virkaði ekki.

Ég fór ekki aftur til hans því mér fannst hann gera lítið úr mér fyrir að hafa komið en mér líður illa með þetta og svo kreisti ég og kroppa svo húðin mín er alltaf öll út í sárum. Ég veit upp á mig sökina þar. En síðan varð ég ólétt og þá varð húð mín og hár allt annað. Engar bólur og ekkert vesen, glansandi þykkt hár og allt eins og í sögu. Þar til blæðingarnar komu aftur núna og ég útsteypt í litlum bólum og hárið er komið með aðra áferð, er feitara og mér líður eins og ég þurfi alltaf að vera að þvo mér í framan. Þetta segir mér að hormónarnir stjórni þessu hjá mér, ekki satt? Er eitthvað sem ég get gert í þessu?

Mig langar ekki að vera á pillunni svo ég er að leita annarra lausna. Mig bráðvantar ráð og skrifa þér vegna þess að ég er svo svekkt eftir þennan mann sem ég hitti um árið og vil ekki láta tala niður til mín ef ég mæti á stofu til einhvers. Með kærum fyrirframþökkum og von eftir svari.

Bestu kveðjur, Nafnlaus

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda.
Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda.

Sæl 

Það er leiðinlegt að heyra að þú hafir upplifað svona viðmót hjá lækninum sem þú hittir.

Það er misjafnt hvað er að valda bólum og oft er það sambland af ýmsum þáttum, til dæmis erfðir, húðgerð, hormónar og fleira.

Við húðlæknar höfum ýmis ráð sem gætu hjálpað þér, krem og töflur meðal annars en það er aftur á móti einstaklingsbundið hvað hentar hverjum og einum best. Ég hvet þig því eindregið til að panta þér tíma hjá húðlækni svo hægt sé að hjálpa þér á sem bestan hátt. Ekki láta fyrri upplifun hindra þig í að fá hjálp við þínu vandamáli.

Vonandi gengur þetta vel hjá þér!

Bestu kveðjur,

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Örnu Björk spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál