„Ekki breyta útlitinu til að þóknast öðrum“

Sonia Rykiel árið 1984.
Sonia Rykiel árið 1984. AFP

Sonia Rykiel var einn vinsælasti tískuhönnuður veraldar í áratugi. Hún kom eins og stormsveipur inn í tískuheiminn árið 1968 og bauð upp á fallegan prjónafatnað, hressar fyrirsætur og viðhorf sem ennþá eru viðeigandi. Rykiel lést í ágúst árið 2016 og var tískuhúsi hennar lokað um mitt árið í fyrra. Ennþá eru vangaveltur uppi um ástæður þess. 

Rykiel var á því að flottur tískustíll væri ekki fáanlegur fyrir peninga. Heldur í gegnum náttúrulegt útlit, viðeigandi hegðun og áhugaverða hugsun. 

Til að halda minningu Sonia Rykiel á lofti er áhugavert að skoða það sem Rykiel hafði fram að færa. Rykielism er sú hugmyndastefna að konur ættu að hafa frelsi til að vera þær sjálfar. 

Eftirfarandi atriði eru í anda Sonia Rykiel. 

Sonia Rykiel var einn vinsælasti tískuhönnuður veraldar í áratugi.
Sonia Rykiel var einn vinsælasti tískuhönnuður veraldar í áratugi. mbl.is/skjáskot Instagram

Útlit

Samkvæmt Rykielisma ætti hver einasta kona að vera stolt af því hvernig hún lítur út. Rykiel var sem dæmi ein af þeim sem hélt alltaf í hárlitinn sinn sem var skemmtilega rauður og alls ekki í hinum dæmigerða franska lit. 

Þegar kona lætur breyta útlitinu sínu eftir fegurðarstöðlum á ákveðnum tíma er hún að sýna undirgefni við samfélagið sem hún býr í, í stað þess að standa með því útliti sem hún hefur upp á að bjóða. 

Þess vegna forðaðist Rykiel sjálf að nota fyrirsætur sem væru allar eins. Hún lagði mikið upp úr því að fallegasti fylgihlutur hverrar konu væri sjálfsöryggi og breitt bros.

Ef þú vilt halda í hefðir Rykiel þá ættir þú að þora að vera með hárlitinn sem þér var gefinn. Ef þú ert með stórar varir og lítil augu. Af hverju þá ekki að ýkja það!

Það er einungis ein þú til á jörðinni. Það er í þínu valdi að leyfa þeirri konu að njóta sín.

Hegðun

Rykielism þýðir alls ekki að konur eigi að vera alltaf þægar og góðar. Að hennar mati eiga konur að hafa leyfi til að haga sér eins og þeim líður hverju sinni. Hún sagði jafnframt að konur ættu að hafa frelsi til að vera þær sem þær eru. Ekki vera bældar og þægar til að þóknast öðrum.  

Rykiel var ein af þeim sem elskaði hugrekki. Hún var fylgin sér og elskaði sjálfstæði og frelsi. Hún mælt með því að allir konur væru vissar um hvað þeim þætti skemmtilegt og svo ættu þær að gera sem mest af því. 

Það er í þínu valdi að finna hvað þú ert góð í að gera. Ekki bíða eftir því að aðrir sjái hæfileika þína og segi þér það. 

Hugsun

Rykielismi gengur mikið út á frelsi konunnar. Að konur finni staðinn þar sem þær geta verið án þess að óttast gagnrýni eða það að mistakast. 

Rykiel var svo sannarlega ekki fullkomin kona. En hún var samkvæm sjálfri sér og hætti aldrei að reyna.

Hún lét ekki mistök lífsins lemja sig niður heldur óx sjálfstæði hennar og þroski með aukinni reynslu. 

Þú getur kannski ekki stjórnað því hvað aðrir hugsa. En þú hefur stjórn á eigin hugsunum. Ef þú vandar það hvernig þú talar við þig sjálfa. Mun heimurinn vanda það hvernig hann talar við þig!

Sonia Rykiel.
Sonia Rykiel. AFP
mbl.is