Dior færði Par­ís­ar­bú­um há­tísk­una aft­ur

Fyrsta tískusýning Christian Dior einkenndist af kjólum og jökkum sem …
Fyrsta tískusýning Christian Dior einkenndist af kjólum og jökkum sem aðþrengdir voru við mittið. Þetta gerði kvenlegar línur meira áberandi. Mynd/Dior

Ævintýraleg saga franska tískuhússins Dior er enn í dag einn af máttarstólpum þess. Í tilefni af endurkomu merkisins til Íslands er áhugavert að rifja söguna upp en Krzysztof Nadziejewiec, förðunarsérfræðingur Dior, segir Dior alltaf vera í tísku.

„Þetta er bylting!“
Mikil spenna var í loftinu á Avenue Montaigne 30 í París. Þennan dag, 12.febrúar árið 1947, hélt Christian Dior sína fyrstu tískusýningu og fékk hann til liðs við sig 90 fyrirsætur. Ekki var langt um liðið frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar en lífið var þó byrjað að komast í eðlilegra horf. Það þótti því til tíðinda sæta að svo stór tískusýning væri haldin en Dior var ákveðinn í að sýna sköpun sína. „Þetta er bylting, elsku Christian!“ sagði Carmel Snow, ritstjóri Harper’s Bazaar, eftir sýninguna. Áhorfendur virtust himinlifandi en í sögubókum er þessi sýning einfaldlega titluð „The New Look“. Dior færði Parísarbúum hátískuna aftur en flíkurnar einkenndust að kjólum og jökkum, sem voru aðþrengdir við mittið, ásamt pilsum sem náðu niður á miðja kálfa. Flíkurnar undirstrikuðu kvenlegar línur, þvert á móti því sem hafði verið áberandi á stríðsárunum. Eftir þessa sýningu skaust Dior upp á stjörnuhimininn sem einn eftirsóttasti fatahönnuður veraldar og hefur hönnun hans ennþá áhrif á fatahönnuði 21. aldarinnar.

Christian Dior.
Christian Dior. Mynd/Dior
Kvenlegum fatnaði Dior var tekið fagnandi eftir stríðsárin.
Kvenlegum fatnaði Dior var tekið fagnandi eftir stríðsárin. Mynd/Dior

Ilmurinn sem ilmar af ást
Þegar seinni heimsstyrjöldin var í hámarki gekk Catherine Dior saman við frönsku andspyrnuhreyfinguna. Hún hafði það hlutverk að senda upplýsingar um ferðir þýska hersins til ráðamanna í Frakklandi en í júní árið 1944 var hún handtekin af Gestapo, leynilögreglu þýska ríkisins. Christian Dior, bróðir hennar, gerði allt í sínu veldi til að frelsa hana. Það var ekki fyrr en ári síðar að hann fékk símtalið, systir hans var á leiðinni með lest úr fangabúðum aftur til Parísar og voru miklir fagnaðarfundir þeirra á milli. Það skal því engan undra að fyrsta ilmvatn Dior nefndist Miss Dior, eftir systur hans. Ilmvatnið var afhjúpað samhliða fyrstu tískusýningunni og ilmvatninu úðað um allt rýmið áður en sýningin hófst. Að mati Dior var ilmur ómissandi hluti af persónu konunnar.

Christian Dior nefndi fyrsta ilmvatnið sitt Miss Dior í höfuð …
Christian Dior nefndi fyrsta ilmvatnið sitt Miss Dior í höfuð systur sinnar, Catherine Dior.

Hann vildi hanna ilm sem ilmaði af ást en Grasse-rósir ásamt Damaskus-rósum mynduðu eftirtektarverðan, munúðarfullan og kvenlegan ilm. Líkt og fatahönnun Dior þá var ilmurinn ólíkur þeim púðurkenndu ilmvötnum sem vinsæl höfðu verið árin á undan. Miss Dior passaði fullkomlega við nýja tískustrauma sem einkenndu hina hamingjusömu og frjálsu konu. 

Dior Miss Dior Eau de Parfum.
Dior Miss Dior Eau de Parfum.

Litur lífsins og ástríðunnar
„Ég elska rauðan lit, hann er litur lífsins,“ sagði Dior þegar fyrsti varaliturinn kom á markað árið 1953, samhliða nýjustu fatalínu tískuhússins sem einkenndist af rauðum kjólum. Varaliturinn nefndist einfaldlega 9, en það var happatala Dior. Í dag ber rauði varaliturinn frá Dior heitið 999 og er einn mest seldi rauði varalitur heims.

Dior Rouge Dior Lipstick (999).
Dior Rouge Dior Lipstick (999).

Þegar Krzysztof Nadziejewiec, förðunarsérfræðingur Dior, er beðinn um að nefna fimm af bestu snyrtivörum Dior er þessi auðkennandi varalitur að sjálfsögðu á listanum. Aðspurður segir hann að Diorskin Forever-farðinn, Diorshow Pump N’ Volume-maskarinn og Backstage Face Glow Palette frá Dior vera nauðsynjar í snyrtiveskið. „Ef hamingja væri litur þá væri sá litur bleikur,“ segir Nadziejewiec þegar hann bætir við að Dior Lip Glow eigi einnig heima í öllum snyrtiveskjum.

Dior Diorskin Forever Foundation.
Dior Diorskin Forever Foundation.
Dior Diorshow Pump N’ Volume Mascara.
Dior Diorshow Pump N’ Volume Mascara.
Dior Addict Lip Glow.
Dior Addict Lip Glow.

Húðumhirða fékk aukið vægi í heimsfaraldri
Mikill fögnuður var á meðal snyrtivöruunnenda þegar tilkynnt var að Dior væri nú aftur komið til Íslands. Af því tilefni gaf Nadziejewiec sér tíma til að ræða við blaðamann um Dior og mikilvægi sögu tískuhússins. ,,Starfsmenn Dior hafa staðið saman alla tíð frá 12.febrúar árið 1947, við hlustum á viðskiptavini okkar og Dior er alltaf í tísku,” og segist Nadziejewiec upplifa mikið frelsi í starfi sínu og fái að deila ástríðu sinni fyrir snyrtivörum með öðrum. Hann segir erfitt að tala um tísku- og förðunarstefnur í núverandi ástandi, á meðan heimsfaraldur gengur yfir. „Hinsvegar hafa þessar aðstæður hvatt fólk til að hugsa vel um sig og þar af leiðandi hafa margir byrjað að hugsa mun betur um húðina sína. Góð húðumhirða er alltaf grunnurinn að fallegri förðun,” segir Nadziejewiec. Þó erfitt sé að tala um sérstaka tískustrauma og stefnur í förðun fyrir sumarið er það alltaf gott ráð, að nota farða sem hentar veðurfarinu. „Á sumrin er tilvalið að nota léttari og náttúrulegri farða. Það er einnig alltaf gaman að auka ljómann við augun, það endurspeglar hamingjuna sem einkennir sumarið,“ segir hann.

Maskari á lokuð augun
Þegar Nadziejewiec er spurður um besta förðunarráðið sem hann hafi fengið þá er það heldur óvenjulegt. „Ég hafði tekið eftir förðunarfræðingum sem létu fyrirsætur loka augunum og þá var maskarinn borinn á augnhárin. Þá fór ég að tileinka mér þessa aðferð og hún er frábær,“ segir Nadziejewiec en hann segist þó reyna eftir fremsta megni að herma ekki eftir öðrum til þess að viðhalda hugmyndafluginu. Aðspurður hvað fegurð sé í hans augum segir hann að fegurð sé engin ein skilgreining, margt sé fagurfræðilega áhugavert. „Fegurð er allt í kringum okkur, hvort sem það eru augnablik, arkitektúr eða náttúran,“ segir Nadziejewiec að lokum.

Krzysztof Nadziejewiec, förðunarsérfræðingur Dior.
Krzysztof Nadziejewiec, förðunarsérfræðingur Dior.


 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál