Eyddi milljón á mánuði í fegrunarmeðferðir

Amanda Lauren fór í fegrunarmeðferðir fyrir rúmlega milljón á mánuði.
Amanda Lauren fór í fegrunarmeðferðir fyrir rúmlega milljón á mánuði. Skjáskot/Instagram

Fyrirsætan Amanda Lauren eyddi um 7 þúsund pundum á mánuði í fegrunarmeðferðir og bótoxmeðferðir. Þegar allt lokaði í heimsfaraldrinum neyddist hún til þess að hætta því tímabundið og hefur ákveðið að hætta að fara í svona margar meðferðir eftir að heimsfaraldrinum lýkur. 

Lauren hefur prýtt forsíður tímarita á borð við Playboy og Maxim og vinnur fyrir sér sem fyrirsæta. Hún hefur haft mikið fyrir útlitinu á síðustu árum og eyddi rúmri milljón íslenskra króna í meðferðir á borð við klippingu og litun, gervineglur og húðmeðferðir. Auk þess eyddi hún um 850 þúsund íslenskra króna í lýtaaðgerðir á ári. 

Í viðtali við hið breska Metro segir Lauren að í heimsfaraldrinum hafi hún sparað rúmlega 21 þúsund pund. Hún komst líka að því að meðferðirnar voru ekki nauðsynlegar og hefur ákveðið að eyða bara 100 pundum á mánuði í meðferðir hér eftir. 

„Fyrir útgöngubannið fór ég alltaf í fótsnyrtingu og handsnyrtingu á tveggja vikna fresti. Þegar ég fór í klippingu og litun fór ég bara á bestu staðina sama hvað það kostaði,“ sagði Lauren. Þegar hún var að fara eitthvað fínt út réði hún förðunarfræðing til þess að sjá um förðunina. 

„Að taka mér pásu frá öllum fegrunarmeðferðunum hefur gefið mér tækifæri til að líta inn á við. Ég hélt það myndi verða svakalegur munur á mér, fyrst ég gat ekki farið í allar meðferðirnar, en það hefur ekki verið það mikill munur.“

Lauren segir að sparnaðurinn sé bara bónus, henni líði miklu betur með sitt náttúrulega útlit í dag. 

Lauren líður vel með sitt náttúrulega útlit í dag.
Lauren líður vel með sitt náttúrulega útlit í dag. Skjáskot/Instagram
mbl.is