Lætur drauminn rætast á Íslandi

Laimonas Dom Baranauskas er fæddur í Litháen en hefur búið …
Laimonas Dom Baranauskas er fæddur í Litháen en hefur búið á Íslandi frá árinu 2010.

Laimonas Dom Baranauskas er fæddur í Litháen en hefur búið á Íslandi frá árinu 2010. Hann hefur allt frá því hann man eftir sér haft áhuga á ljósmyndun. Í raun svo mikinn að hann eyðilagði ljósmyndirnar í skírnarveislu sinni.

„Ég fékk fyrst áhuga á ljósmyndun þegar ég var barn. Ég komst að því þegar ég spurði foreldra mína um ljósmyndir frá því ég var skírður að ég hefði náð að grípa í ljósmyndavélina, opnað hana og skemmt filmuna. Svo við eigum engar myndir frá þessum sögulega viðburði. Ég hef alltaf haft gaman af þessari sögu, því fyrir mér markar þetta upphafið á augljósum áhuga mínum á ljósmyndun.“

Fylgdi mömmu sinni til Íslands

Laimonas talar fallega íslensku og hefur mikinn áhuga á íslenskri menningu.

„Mamma og pabbi höfðu skilið að skiptum og bjuggu bæði í Litháen á sínum tíma. Hún kynntist íslenskum manni sem sigldi reglulega frá Þorlákshöfn til Litháens í kringum árið 2008. Hann heimsótti mömmu reglulega á veitingastaðinn hennar en eftir tvö ár ákváðu þau að búa saman. Mamma ákvað þá í upphafi ársins 2010 að flytja til Íslands. Ég var áfram í skólanum í Litháen og bjó hjá eldri bróður mínum, en skipulagði heimsókn til mömmu um sumarið. Eftir tvær vikur á Íslandi vissi ég að ég vildi hvergi annars staðar vera í heiminum en hér. Svo ég hringdi í pabba og tilkynnti honum að mig langaði að verða Íslendingur. Ég tók strax ákvörðun um að tileinka mér hlutina hér í stað þess að vera með samastað í tveimur ólíkum menningarheimum.“

Laimonas sér stóru atriðin í smáatriðunum.
Laimonas sér stóru atriðin í smáatriðunum. Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas

Laimonas segir að hann hafi aldrei séð eftir þessari ákvörðun sinni.

„Um leið og ég flutti hingað vildi ég verða hluti af samfélaginu. Ég gerði það með því að læra íslensku og með því að taka þátt í lífi og menningunni hér. Mér var mjög vel tekið um leið og ég kom hingað. Ég man ennþá eftir fyrsta degi mínum í Grunnskóla Þorlákshafnar. Nýju bekkjarfélagarnir buðu mér heim í súkkulaðiköku. Ég var óöruggur með mig og vissi ekki hvað þetta heimboð þýddi. Ég áttaði mig fljótt á því að krakkarnir voru góðir og vildu mér vel. Þeir vildu vita allt um hvaða tónlist krakkarnir í Litháen hlusta á. Hvað gert væri eftir skóla og þar fram eftir götunum. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu vel var tekið á móti mér.“

Leitast við að ná ástinni á filmu

Laimonas er ánægður með lífið og starfið sitt hér. Eitt leiddi af öðru og málin þróuðust þannig að hann fékk mestan áhuga á að mynda brúðhjón.

„Eftir að hafa aðstoðað vinkonu mína að mynda brúðkaup, uppgötvaði ég ánægjuna við þessa tegund af ljósmyndun. Hvert einasta brúðkaup er einstakt. Mér finnst alltaf mikill heiður að vera hluti af degi sem lifir í minni fólks til æviloka. Að fanga réttu augnablikin og ná flottum ljósmyndum af brúðhjónum og fjölskyldu þeirra.“

Laimonas þykir góður ljósmyndari að vinna með.
Laimonas þykir góður ljósmyndari að vinna með. Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas

Laimonas leitast við að ná ástinni á filmu, gleði og öllum smáatriðum sem skipta svo miklu máli.

„Brúðkaup snúast svo mikið um litlu atriðin. Tárin á vanga brúðarinnar, fyrsta kossinn og alla töfrana sem á eftir koma. Ég hef verið einstaklega heppinn með þau brúðkaup sem ég hef myndað, en eitt helsta verkefni mitt er að ná réttu augnablikunum og einnig að fá brúðhjónin til að slaka á og njóta augnabliksins. Brúðhjón eru að fara út fyrir þægindaramma sinn með svo margt. Það er stressandi að vera í fínum fötum, að halda stóra veislu og að hafa ljósmyndara fyrir framan sig.“

Stórbrotin íslensk náttúra.
Stórbrotin íslensk náttúra. Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Falleg sumarleg stemning.
Falleg sumarleg stemning. Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Íslensk náttúra í forgrunni á brúðkaupsdaginn.
Íslensk náttúra í forgrunni á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Laimonas Dom Baranauskas
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál