Vetrarbrúðkaup sem minnti á sumarið

Magnea Einarsdóttir, fatahönnuður og eigandi fatamerkisins MAGNEA, og Yngvi Eiríksson, …
Magnea Einarsdóttir, fatahönnuður og eigandi fatamerkisins MAGNEA, og Yngvi Eiríksson, verkfræðingur, giftu sig í Dómkirkjunni og héldu ævintýralega fallegt brúðkaup í febrúar á þessu ári þar sem þau lögðu áherslu á upplifun í mat og drykk. mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas

Magnea Einarsdóttir, fatahönnuður og eigandi fatamerkisins MAGNEA, og Yngvi Eiríksson, verkfræðingur, trúlofuðu sig í París haustið 2017. Þau héldu ævintýralega fallegt brúðkaup í febrúar á þessu ári þar sem þau lögðu áherslu á upplifun í mat og drykk. 

„Við vildum gera ævintýralegt vetrarbrúðkaup með íslenskri sumarstemningu.

Við giftum okkur reyndar ári áður nánast upp á dag í febrúar og héldum því í raun upp á eins árs brúðkaupsafmælið okkar. Það voru mjög persónulegar ástæður fyrir því að við létum pússa okkur saman með litlum fyrirvara í fyrra en planið var alltaf að halda stóra veislu. Við lofuðum henni innan árs og stóðum við það,“ segir Magnea.

mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas

Hannaði kjólinn sinn sjálf

Hvað getur þú sagt okkur um brúðarkjólinn?

„Ég ákvað að hanna kjólinn minn sjálf eftir mikla leit að rétta kjólnum. Það var viss áhætta í öllum undirbúningnum sem fylgdi brúðkaupinu að bera ábyrgð á kjólnum og ég viðurkenni að það gat alveg verið stressandi á köflum en ég sé alls ekki eftir því og var mjög ánægð með útkomuna. Ég var með ákveðnar hugmyndir sem voru samt að þróast fram á síðasta dag en fékk ómetanlega aðstoð frá góðri vinkonu sem er klæðskeri við að útfæra þær, sníða og sauma. Mig langaði að hafa pilsið sítt og með slóða og ákvað því að hafa kjólinn tvískiptan þannig að ég gæti auðveldlega skipt í styttra pils þegar leið á kvöldið. Toppurinn var hnepptur í síða pilsið með fallegri tölu en svo batt ég styttra pilsið við toppinn til að fá aðeins afslappaðra útlit. Ég lagði áherslu á að nota fallegt gæðaefni í kjólinn og valdi hvítt silki í tveimur þykktum sem ég vann með. Ég vildi ekki blúndur eða neitt skraut í efninu heldur bara að leyfa sniðinu og smáatriðunum að njóta sín. Ég valdi síðan skó og fylgihluti í ljós grá/bleikum tónum sem poppuðu heildarmyndina dálítið upp.“

mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas

Magnea bjó til stakan eyrnalokk og armband sem hún hengdi í eyrað öðrum megin og á höndina hinum megin sem braut upp á „symmetríuna“ í kjólnum.

„Ég er með sítt og þykkt hár og valdi að láta greiða það frá í afslappað tagl til að kjóllinn og skartið fengi að njóta sín. Ég rakst á skóna á Instagram og pantaði að utan, en þeir eru úr fölbleiku satíni og smellpössuðu við skartið. Galdrakonurnar hjá Pastel blómum gerðu brúðarvöndinn úr blöndu af blómum frá mér og þeim. Ég hafði þurrkað rós frá brúðkaupsdeginum árinu áður sem ég vildi nota í vöndinn og þær röðuðu í kringum hana dásamlegri blöndu af íslenskum fífum og öðrum hvítum þurrkuðum blómum. Þær útbjuggu síðan barmblóm fyrir Yngva og til að ramma inn heildina fengu börnin okkar fylgihluti í sama stíl, sonur okkar var með barmblóm og dóttir okkar með hárskraut úr sömu blómum.“

mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas

Hvernig lýsir þú brúðkaupinu þínu?

„Við héldum vetrarbrúðkaup, sem er kannski frekar óhefðbundið. Við ákváðum að halda veisluna daginn fyrir eins árs brúðkaupsafmælið eftir óvænta giftingu árið áður um miðjan febrúar. Tímasetningin ákvað sig því dálítið sjálf. Veturinn setti svip sinn á undirbúninginn, til dæmis var rauð viðvörun daginn áður og tvísýnt hvort við næðum að skreyta salinn og hvort vinir og ættingjar kæmust með flugi að utan en það hafðist allt á endanum. Þó að við höfum verið búin að gifta okkur áttum við eftir að setja upp hringa og ákváðum að halda athöfn i kringum það í Dómkirkjunni í Reykjavík. Það myndast svo töfrandi stemmning í brúðkaupsathöfnum sem setur tóninn fyrir restina af deginum svo við tímdum alls ekki að sleppa því.“

Gestirnir gátu farið í íslenska ilmsturtu

Brúðhjónin tóku þá ákvörðun að skipuleggja veisluna sjálf frá upphafi til enda.

„Við vorum með ákveðnar hugmyndir sem okkur langaði að útfæra, bæði hvað varðar veitingar, skreytingar og fleira. Pælingin var að skapa íslenska sumarstemmningu í miðju skammdeginu. Sumarið áður safnaði ég blómum í náttúrunni sem ég þurrkaði yfir veturinn og notaði í allar skreytingar. Við fengum íslensku ilmsturtuna frá Nordic Angan sem fyllti salinn af notalegum skógarilmi. Ilmsturtan er mjög falleg og bjó til skemmtilega upplifun fyrir gestina. Í stað þess að hafa „photobooth“ gat fólk farið í sturtuna og fengið mynd af sér í henni en við ákváðum að fara þá leið að vera með ljósmyndara í veislunni sem tók lifandi og skemmtilegar myndir allt kvöldið. Hann hefur einstakt auga og náði að grípa stemmninguna í myndunum. Þannig eigum við minningarnar ljóslifandi það sem eftir er.“

mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas

Brúðhjónin buðu upp á fjölbreyttan mat og lögðu mikið upp úr því að skapa upplifun í kringum matinn. „Þannig voru smáréttir bornir fram sem gestirnir deildu og svo vorum við með hlaðborð þannig að fólk stóð upp reglulega, hreyfði sig aðeins og hitti fleiri en sessunauta sína. Við röðuðum salnum upp í langborð og reyndum að hafa auka pláss við öll borðin og völdum síðan að sitja bara tvö við háborðið með lausa stóla við borðið svo að gestir gætu heilsað upp á okkur líka. Það kom mjög vel út að mínu mati. Veislustjórnin var í höndum góðra vina okkar sem héldu uppi frábærri stemmningu. Í lokin var síðan dansað með hljómsveitinni Björtum sveiflum fram á nótt.“

Ítalskt góðgæti í eftirrétt

Magnea segir að fjölskyldan elski að ferðast saman.

„Til dæmis eyddum við fjölskyldan hluta af fæðingarorlofinu okkar í fyrra saman á Sikiley á Ítalíu þar sem við drukkum í okkur menningu, mat og upplifanir á okkar forsendum. Brúðkaupsgestirnir okkar nutu góðs af þeirri reynslu, þar sem við buðum upp á ítalskt góðgæti í eftirrétt sem við sérpöntuðum frá Sikiley.“

mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas

Magnea segir að þegar hún hafi tekið að sér að ráðleggja konum með sérsaum fyrir brúðkaupið biðji hún þær að hugsa um uppáhaldsflíkur sínar.

„Þó að brúðarkjóllinn sé flík sem á að standa upp úr og þú notar jafnvel bara einu sinni mæli ég með því að fara ekki langt út fyrir þægindarammann. Ég velti því til dæmis fyrir mér sjálf hvort ég ætti að klæðast buxum eða samfestingi því þannig er ég oft klædd. Ég fór þó á endanum þá leið að sækja innblástur í þær hugmyndir en útfæra í meiri glamúr. Flestar konur vita hvað fer þeim best og hvernig þær eru ánægðastar með sig. Ef ekki, þá er gott að eiga samtal við hönnuðinn um það. Svo er alltaf gott að hafa í huga að minna er meira og gott að ákveða til dæmis hvaða líkamshluta eigi að leggja áherslu á og hvað ekki. Þetta á líka við um förðunina, hárið og allt heildarútlitið.“

mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas
mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas
mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas
mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas
mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas
mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas
mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas
mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas
mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas
mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas
mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas
mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas
mbl.is/ Laimonas Dom Baranauskas
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »