Notar sjampó á andlitið

Heidi Klum er jarðbundin þegar kemur að útlitinu.
Heidi Klum er jarðbundin þegar kemur að útlitinu. mbl.is/AFP

Heidi Klum er 47 ára og hefur sjaldan litið betur út. Hún segir almenna skynsemi ráða miklu þegar kemur að því að viðhalda unglegu útliti. 

„Starfs míns vegna fæ ég mikið af snyrtivörum og ég elska að prófa nýja hluti, hins vegar veltur þetta alltaf á nokkrum grundvallaratriðum. Þegar ég borða hollt og passa að drekka nóg vatn þá sé ég mun á andliti mínu. Maður verður að horfa á sig í speglinum til þess að sjá hvort eitthvað sé í gangi hjá manni. Bólur gætu gefið til kynna óhollt mataræði. Ef húðin er þurr þá ertu ekki að drekka nóg vatn,“ segir Klum í viðtali við Who, What, Where.

Snýst allt um mat

„Fegurðin snýst að mestu leyti um það sem maður borðar frekar en það sem maður lætur á húðina. Ég lærði það fyrir löngu. Það þýðir þó að maður þarf að leggja mikið á sig til þess að tryggja að í hverri máltíð fái maður nóg af fitusýrum, vítamínum og andoxunarefnum. Það hafa ekki allir tíma til þess og þess vegna er hægt að grípa til bætiefna. Auðvitað er matur alltaf í forgangi en það er allt í lagi að gefa sér smá aukalega með.“

Notar sjampó á andlitið

„Margt fyrir löngu fór ég til augnlæknis því ég var með vogrís. Hann ráðlagði mér að þvo andlitið með Johnson&Johnson-barnasjampói. Suma daga kem ég heim og er með mörg lög af gerviaugnhárum og andlitsfarða. Þá á sjampóið að sjá til þess að öll óhreinindin náist úr almennilega. Þetta er því það eina sem ég nota. Það er mjög milt og fer vel með húðina.“

Kókósolían gerir margt gott

„Ég elska að nota venjulega kókósolíu sérstaklega þar sem loftslagið þar sem ég bý er svo þurrt og ég er mikið úti. Ég ber kókosolíu á líkamann og í hárið. Það er ódýrt og fær mig til að líða vel. Ég hallast sem sagt meira að náttúrulegum efnum frekar en snyrtivörum sem eru uppfullar af lyktarefnum.“

Minna er meira

„Þegar ég er ekki að taka upp fyrir sjónvarp þá vil ég helst ekki nota mikið af snyrtivörum. Ég hef lært að minna sé meira. Það helsta sem ég nota er litað dagkrem, maskari og kinnalitur.“

Lærðu að kreista bólur rétt

„Ég segi 16 ára dóttur minni að hún megi ekki kreista bólurnar, en ég geri það sjálf. Stundum verður maður! Í gegnum árin hef ég lært að kreista þær rétt. Það má aldrei gera það með nöglunum. Það verður að gera það með hnúunum, fara djúpt og ná öllu út. Ef þú nærð ekki öllu ertu lengur að jafna þig en ef þú hefðir látið bóluna í friði. Þá gætirðu líka fengið ör.“

mbl.is