Franskur fjársjóður

Vörur Maison Francis Kurkdjian fást ekki á Íslandi. Panta má …
Vörur Maison Francis Kurkdjian fást ekki á Íslandi. Panta má sýnishorn hjá vefverslun framleiðandans eða finna vöruna hjá lúxusvöruverslunum erlendis.

Það var löngu orðið tímabært að útvíkka þennan fasta lið ViðskiptaMoggans enda margt fleira gott í lífinu en lekker vín og ljúffengt viskí. Við byrjum vitaskuld á toppinum, hjá fransk-armenska undrabarninu Francis Kurkdjian sem árið 2014 sendi frá sér framúrskarandi ilm sem hefur áhugaverða vísun í franska ilmvatnssögu.

Þeir sem vita sínu viti um ilmvötn ættu að kannast við nafnið enda Kurkdjian afkastamikill og flinkur ilmhönnuður sem skaut upp á stjörnuhimininn árið 1995 með metsöluilminum Le Male sem hann blandaði fyrir Jean Paul Gaultier. Kurkdjian var þá aðeins 26 ára og hefur síðan þá sent frá sér hvern þrusu-ilminn á fætur öðrum fyrir tískurisa á borð við Burberry, Guerlain, Dior, Kenzo og Lanvin, en undanfarin ár hefur hann fengið hvað mesta útrás fyrir sköpunargáfur sínar í gegnum sitt eigið merki: Maison Francis Kurkdjian.

Kurkdjian finnur innblástur víða og blandaði árið 2014 nýjan ilm til að fagna 250 ára afmæli franska kristalvöruframleiðandans Baccarat. Það var ekki hvað síst fallegum kristalumbúðum Baccarat að þakka að Frakkar urðu leiðandi í framleiðslu ilmvatna í byrjun síðustu aldar. Þar kom við sögu athafnamaðurinn François Coty sem sá að dýrmætt viðskiptatækifæri væri fólgið í því að framleiða ilmi í snotrum flöskum á verði sem hinn almenni neytandi gæti ráðið við. Coty varð fyrir vikið einn af auðugustu mönnum Frakklands.

Baccarat Rouge 540 er fjölhæfur ilmur en meira karlmannlegur en …
Baccarat Rouge 540 er fjölhæfur ilmur en meira karlmannlegur en kvenlegur. Ásgeir Ingvarsson

Baccarat Rouge 540 átti upphaflega að vera sérútgáfa og voru aðeins 250 númeraðar flöskur í fyrsta upplaginu, en árið 2016 var ilmurinn gerður að varanlegum hluta af framboði Maison Francis Kurkdjian.

Áður en lengra er haldið er rétt að vara lesendur við: Baccarat Rouge 540 er töluvert dýrari en íslenskir neytendur eiga að venjast. Meðalstór 70 ml flaska af eau de parfum kostar 195 evrur (31.500 kr.), en 295 evrur (47.500 kr.) ef valið er extrait de parfum af sömu stærð.

Hver og einn verður að gera upp við sig hvort peningunum er vel varið, en sá sem þetta skrifar vill meina að Baccarat Rouge 540 sé hverrar krónu virði, því ilmurinn er engu líkur og lúxus sem sjálfsagt er að fólk láti eftir sér. Þá hlýtur mörgum að þykja það eftirsóknarvert að nota ilm sem er ekki til á öðru hverju íslensku heimili og fyrir vikið meira persónulegur og afgerandi.

Um er að ræða ferskan en fjölhæfan ilm með mikinn persónuleika. Fyrstu lögin eru sæt og minna á kandífloss með ögn af mintu inni á milli. Þar með er ekki sagt að Baccarat Rouge sé væminn ilmur því jarðtengingin er til staðar og anganin þróast yfir í trjákvoðu, saffran og furu. Þó að bæði karlar og konur geti borið þennan ilm er hann meira karlmannlegur en kvenlegur, og ekki laust við að það sé eitthvað við blönduna sem gerir Baccarat Rouge örlítið „kinkí“ – í jákvæðustu merkingu þess orðs. Þar er kannski komin skýringin á að sumum þykir ilmurinn nánast ávanabindandi.

En ilminn ætti hver að meta með sínu nefi og þó Baccarat Rouge 540 sé meistaraverk þá er skiljanlegt ef lesendur vilja ekki veðja 2-300 evrum, og öllum tilheyrandi sköttum, á vöru sem þeim líkar kannski ekki við þegar hún loksins berst í pósti. Vefverslunin www.franciskurkdjian.com, er með ágætis lausn þar sem panta má fjögur sýnishorn á 14 evrur og fylgir þá með 14 evra afsláttur af næstu pöntun. Gefst þannig tækifæri til að finna þann ilm sem hittir í mark. Vil ég mæla sérstaklega með að velja extrait de parfum-útgáfuna af Baccarat Rouge 540 sem loðir lengi við húðina og umlykur þann sem notar ilminn án þess samt að vera yfirþyrmandi.

Þessi grein birtist upphaflega í dálkinum Hið ljúfa líf í ViðskiptaMogganum

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál