Frægasta bikiní sögunnar falt

Ursula Andress í bikiníinu fræga í Bond-myndinni Dr. No.
Ursula Andress í bikiníinu fræga í Bond-myndinni Dr. No. Skjáskot/Youtube

Baðfötin sem leikkonan Ursula Andress klæddist í fyrstu James Bond-myndinni fara á uppboð í nóvember. Uppboðshúsið Profiles in History annast sölu baðfatanna sem fóru á uppboð árið 2001 og eru því ekki í eigu hinnar 84 ára gömlu Andress. 

Segja má að Andress sé fyrsta Bond-stúlkan en hún klæddist baðfötunum frægu í fyrstu James Bond-myndinni, Dr. No, sem kom út árið 1962. Þar lék hún Bond-stúlkuna Honey Rider á móti Sean Connery. 

Þetta er ekki fyrsta skipti sem baðfötin frægu fara á uppboð. Árið 2001 seldist bikiníið á 35 þúsund pund en á þeim tíma voru það 4,4 milljónir íslenskra króna. Það var Banda­ríkjamaður­inn Robert Earl, einn eig­enda Pla­net Hollywood-mat­sölustaðanna, sem keypti baðföt­in. 

„Atriðið þegar ég sést fyrst í mynd­inni klædd bik­iní­inu á þess­ari fal­legu strönd virðist nú vera talið sí­gilt atriði í kvik­mynda­sög­unni auk þess sem það gerði mig fræga sem Bond-stúlku,“ sagði Andress þegar baðfótin fóru á uppboð fyrir tæpum 20 árum. „Þetta bik­iní markaði upp­haf vin­sælda minna.“

mbl.is