Á fullan fataskáp af fallegum fatnaði

Birgitta Sveinbjörnsdóttir hefur einstakan fatastíl.
Birgitta Sveinbjörnsdóttir hefur einstakan fatastíl. mbl.is/Árni Sæberg

Birgitta klæðir sig upp á svo eftir er tekið. Hún segir skartgripi eins og hún gerir alltaf áhugaverðan valkost að skreyta hefðbundinn fatnað með.

„Ég hef unnið sem útstillingahönnuður fyrir NTC í tíu ár. Eitt skiptið þá vantaði skartgripi og fylgihluti í Kúltúr svo ég setti saman nokkrar perlufestar og hef verið í því síðan.“

Birgitta fer reglulega til Los Angeles þar sem hún kaupir efnið í skartgripina sem hún gerir.

„Ég hef sérstakan áhuga á perlufestum og passa að gera engar tvær festar eins. Ég held að þessi áhugi komi frá Coco Chanel en ég elska að blanda saman fínu og grófu og finnst alltaf mest spennandi að gera eitthvað óvænt. Það sama á við heima hjá mér sem og í útstillingum. Ég er mikið fyrir að gera eitthvað sem vekur áhuga fólks og fegurðarskyn.“

Mikið fyrir að hugsa út fyrir kassann

Hvernig lýsir þú heimilinu þínu?

„Heima er ég rétt eins og í vinnunni þar sem ég geri bara það sem mér dettur í hug hverju sinni. Ég fylgi ekki tískusveiflum og lifi mig bara inn í það sem ég er að gera hverju sinni. Sem dæmi um þetta er ljósið í borðstofunni sem er ekki látið hanga fyrir ofan borðstofuborðið.

Það er ekki allt í sama stíl hjá mér. Heldur raða ég hlutum á óvæntan og skemmtilegan hátt saman.“

Fatastíll Birgittu er einfaldur og minimalískur í grunninn.

„Ég er mikið í íþróttafatnaði og er þá mikið fyrir að setja á mig áberandi skartgripi. Ég er ekki með perlur við fínan fatnað, nema að ég vilji klæða mig upp á í anda Chanel.“

Birgitta lærði útstillingahönnun í Iðnskólanum í Hafnafirði. Spurð um hvernig henni líði í vinnunni segir hún vinnuna vera áhugamálið sitt.

„Ég er mjög mikið í flæðinu og hugsa ekki mikið um álit annarra á mér eða því sem ég er að vinna við. Ég er smávegis öryggisfíkill í eðli mínu en reyni að vera fordómalaus í minn garð og annarra og reyni eftir fremsta megni að leyfa fólki að vera það sem það er. En þannig hef ég ekki alltaf verið.

Hér áður lifði ég meira með það að markmiði að þóknast öðrum meira en sjálfri sér. Mér finnst frelsi mitt hafa komið með aldrinum, lífsreynslu minni og auknum þroska. Það gerðist eitthvað þegar ég varð fimmtug og þá byrjaði mér bara að vera meira sama um hlutina. Þá fór ég að treysta sjálfri mér betur fyrir því sem ég var að gera. Þetta viðhorf hefur aðstoðað mig við að vera skapandi í vinnunni.“

Notar hælaskó við íþróttafatnaðinn

Hvað keyptir þú þér síðast í fataskápinn?

„Fataskápurinn minn er fullur af flottum fötum. Ég kaupi mér mikið af fatnaði og í raun er fatnaður það sem ég leyfi mér í lífinu. Þannig að ef einhvern vantar móralskan stuðning í að kaupa sér eitthvað, þá er gott að hafa númerið mitt að hringja í. Það síðasta sem ég keypti mér í fatskápinn minn voru æðislegir skór frá Billi Bi í Evu. Þeir eru rosalega sætir, támjóir með litlum hæl og spennu yfir ristina. Þeir gætu verið frá árinu verið frá 1940 en það tímabil sem heillar mig mest í tískunni er seinnihluti áttunda áratugarins. Ég er mikið fyrir alls konar liti og hef í seinni tíð verið að færa mig upp á skaftið þegar kemur að litum. Annars finnst mér svartur litur og grár alltaf klassískur og það sama má segja um hvítan.“

Hvernig notarðu íþróttafatnað?

„Ég nota íþróttafatnaðinn minn með hælaskóm. Ég kaupi íþróttabuxurnar mínar hér og þær, stundum sauma ég þær jafnvel sjálf. Það er fallegt að vera með perlufesti við hælaskóna og buxurnar, klæðast stórri peysu við og þá er ákveðið útlit komið sem ég heillast að. Þegar ég fer á stefnumót með manninum mínum, þá fer ég í svartar útvíðar buxur, falleg stígvél, huggulega peysu og svo kápu.“

Birgitta fær nýjar hugmyndir héðan og þaðan.

„Þetta er eitthvað sem ég lærði í náminu mínu. Ég sanka ólíkum hugmyndum saman í huganum og get gripið í þær þegar mér dettur í hug. Ég bý einnig til fleira en skartgripi þegar kemur að útstillingum. Sem dæmi get ég búið til allskonar skraut því það getur verið erfitt að nálgast það sem mig langar að hafa í hönnun. Ég hef búið til risastóra köngla fyrir jólin en einnig smærri hluti sem eru þá í rétta forminu eða litnum.“

Birgitta sér um útstillingar hjá NTC sem rekur meðal annars …
Birgitta sér um útstillingar hjá NTC sem rekur meðal annars verslunina Evu á Laugavegi.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »