Rétt náði að halda kjólnum uppi í Ungfrú heimi

Priyanka Chopra var 18 ára þegar hún var valin sú …
Priyanka Chopra var 18 ára þegar hún var valin sú fegursta í heimi. REUTERS

Hin indverska Priyanka Chopra varð fræg þegar hún var krýnd Ungfrú heimur fyrir 20 árum en í dag er hún heimsfræg leikkona. Chopra hefur nokkrum sinnum liðið illa í flottum fötum fyrir framan heimsbyggðina. Hún átti til dæmis í vandræðum með að missa ekki kjólinn niður um sig þegar hún vann keppnina Ungfrú heim. 

„Árið var 2000 og ég vann Ungfrú heim, kjóllinn minn var límdur á mig. Þegar ég vann í lokin svitnaði ég svo mikið af stressi að límið lak af,“ sagði Chopra á vef People. „Allan þann tíma sem ég tók sigurgönguna eða hvað það kallast þegar ég vann hélt ég höndunum í bænastöðu, fólk hélt ég væri að þakka fyrir en í rauninni gerði ég það til að halda kjólnum uppi. Svo óþægilegt.“

Kjóll Priyönku Chopra var að leka niður.
Kjóll Priyönku Chopra var að leka niður. REUTERS

Chopra var orðin töluvert frægari þegar hún lenti síðast í óþægilegu atviki. Leikkonan var á Met Gala-góðgerðarkvöldinu fyrir tveimur árum. Hún leit ekki út fyrir að líða illa í guðdómlegum kjól frá Ralph Lauren en sannleikurinn er allt annar. 

„Ég var í lífstykki undir og gat ekki andað. Mér leið eins og það væri búið að endurmóta rifbeinin. Það var erfitt að sitja í kvöldmatnum og augljóslega gat ég ekki borðað mikið þetta kvöld.“

Priyanka Chopra var í óþægilegu lífstykki undir kjólnum frá Ralph …
Priyanka Chopra var í óþægilegu lífstykki undir kjólnum frá Ralph Lauren á Met Gala árið 2018. AFP
mbl.is