„Ég hef búið við óþolandi varaþurrk alla ævi“

Dainis Graveris/Unsplash

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu um varaþurrk. 

Sæl.

Ég hef búið við óþolandi varaþurrk alla ævi. Ég er 35 ára með barnaexem um allan líkama en næ að halda exeminu í skefjum með rakakremi. Varirnar eru þó verstar og ég þarf að nota varsalva á hverjum degi en mjög reglulega verða varirnar rauðar allan hringinn og munnvikin sérstaklega. Hvað er hægt að gera til að halda vörunum góðum þannig að ekki brjótist út þessi roði/öfgaþurrkur?

Allar ráðleggingar vel þegnar.

Kveðja, G

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda.
Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda.

Sæl.

Það er alveg rétt hjá þér að varaþurrkur getur verið mjög hvimleiður. Það er mikilvægt að þú sért dugleg að nota varasalva, ég mæli með úr apótekinu til dæmis Decubal. Mikilvægt að varasalvinn innihaldi engin ilmefni eða önnur efni sem geta ert varirnar. Oft er maður með hálfgerðan kæk að sleikja varirnar, sérstaklega þegar varirnar eru þurrar, þetta gerir bara illt verra og getur aukið á ertingu. Reyndu því að vera meðvituð um að sleikja ekki á þér varirnar.

Þar sem þú ert með undirliggjandi exem er líklegt að þetta sé líka exem í kringum varirnar og jafnvel sveppasýking í húðinni. Þetta þarf að meðhöndla með viðeigandi kremum sem þú færð hjá lækni. Stundum getur svona langvinnur varaþurrkur orsakast af snertiofnæmi, ef grunur er um það þarf að gera ofnæmispróf og reyna að komast að því hver orsakavaldurinn er.

Ég mæli því eindregið með að þú pantir þér tíma hjá heimilis- eða húðlækni ef ofangreind ráð hjálpa ekki.

Bestu kveðjur,

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Örnu spurningu HÉR

mbl.is