Tískuleyndarmál Karls Bretaprins

Karl Bretaprins pælir mikið í litasamsetningum.
Karl Bretaprins pælir mikið í litasamsetningum. AFP

Karl Bretaprins hefur verið umhverfisverndarsinni í mörg ár og hefur það áhrif á hvernig hann klæðir sig. Prinsinn kaupir sjaldan föt en kýs gæði þegar hann kaupir nýja flík. Hann ljóstraði upp tískuleyndarmálum sínum í viðtali í breska Vogue. 

Prinsinn lætur lagfæra föt sín.

„Ég er einn af þeim sem hata að henda. Þess vegna vil ég frekar láta lagfæra föt mín, jafnvel setja á þau bætur, í stað þess að henda þeim,“ sagði prinsinn. „Vandamálið er að með aldrinum á líkamslögunin til að breytast svo það er ekki auðvelt að passa í fötin.“

Prinsinn segir stíl sinn ekki hafa breyst mikið. Hann tollir því af og til í tísku. 

„Ég hugsa mikið um smáatriði, liti og slíkt – og litasamsetningar,“ sagði Karl sem segist vera heppinn að vinna með góðu handverksfólki.

Karl var í kjólfötum frá árinu 1984 þegar sonur hans Harry Bretaprins gekk í hjónaband með Meghan vorið 2018. 

„Ég nota þau aðeins nokkrum sinnum yfir sumartímann svo augljóslega vil ég reyna að halda í þannig föt svo lengi sem ég passa í þau. En ef ég passa ekki í fötin þarf ég að láta sauma eitthvað nýtt.“

Prinsinn hvetur fólk til þess að fara með föt og skó í viðgerð þegar hann var beðinn að gefa ráð. 

„Það vill svo til að ég er einn af þeim sem láta laga skó eða annan fatnað frekar en að henda,“ sagði Karl. Prinsinn rifjar upp að þegar hann var barn hafi þau farið með skófatnað til skóara í Skotlandi sem setti nýja sóla á skóna.

Karl Bretaprins var í gömlum fötum í brúðkaupi Harry og …
Karl Bretaprins var í gömlum fötum í brúðkaupi Harry og Meghan. AFP
mbl.is