Fantaflottar á besta aldri og á lausu

Landið er sneisafullt af föngulegum konum í lausagangi. Stundum er talað um að samfélagið geri allt of mikið úr ungu fólki og gleymi þeim sem eldri eru og hafa reynslu af lífinu. Eftir ábendingar frá lesendum tók Smartland saman lista yfir fantaflotta kvenskörunga sem eru í lausagangi. Það sem þessar konur eiga sameiginlegt er að þær eru þroskaðar og hafa lært af lífinu.  

Helga Björnsson.
Helga Björnsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helga Björnsson tískuhönnuður bjó lengi í París þar sem hún starfaði fyrir þekkt tískuhús. Nú er hún flutt til Íslands og unir hag sínum vel í miðbæ Reykjvíkur. Helga er mikill bóhem sem elskar að vera til. 

Jónína Benediktsdóttir.
Jónína Benediktsdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Jónína Benediktsdóttir íþróttakennari og dítoxdrottning er á lausu eftir að upp úr hjónabandi hennar og Gunnars Þorsteinssonar í Krossinum slitnaði. Jónína býr í Hveragerði þar sem hún unir hag sínum vel. 

Valgerður Matthíasdóttir.
Valgerður Matthíasdóttir.

Valgerður Matthíasdóttir er þjóðargersemi sem kýs að sjá alltaf bjartar hliðar tilverunnar. Valgerður eða Vala Matt eins og hún er kölluð er ennþá í fullu fjöri á vinnumarkaðnum og hefur einstakt lag á því að gera lífið ennþá skemmtilegra. 

Guðný María Arnþórsdóttir.
Guðný María Arnþórsdóttir. Ljósmynd/Facebook

Guðný María Arnþórsdóttir braust fram á sjónarsviðið fyrir páskana 2018 með páskalagið „Okkar páskar“. Síðan þá hefur hún gefið út hvern smellinn á fætur öðrum og hefur einnig gefið út glæsileg myndbönd við hvert lag. Guðný María er lífsglöð og hress kona sem er ekki hrædd við að koma til dyranna eins og hún er klædd.

Herdís Þorgeirsdóttir.
Herdís Þorgeirsdóttir. mbl.is/Golli

Herdís Þorgeirsdóttir lögfræðingur er ein af glæsilegustu konum Íslands en svo er hún ekki bara sæt heldur eldklár og skemmtileg. Herdís hugsar vel um heilsuna og þegar sundlaugar eru opnar má gjarnan sjá hana í Sundlaug Seltjarnarness þar sem hún nýtur þess að láta vatnið núllstilla sig. 

Edda Björgvinsdóttir.
Edda Björgvinsdóttir. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Edda Björgvinsdóttir leikkona hefur komið landanum í gegnum súr og sæt tímabil með húmor og einstöku næmi. Edda hugsar vel um heilsuna og virðist bara yngjast með árunum eins og henni einni er lagið. 

Elsa Haraldsdóttir.
Elsa Haraldsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Elsa Haraldsdóttir hárgreiðslumeistari hefur unnið brautryðjandastarf á sínu sviði. Hún er fagmaður fram í fingurgóma og veit nákvæmlega hvað klukkan slær í smartheitum og stíl. 

Elísabet Jökulsdóttir.
Elísabet Jökulsdóttir. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Elísabet Jökulsdóttir er ein af þessum ævintýrakonum sem lífga upp á tilveruna. Hún er einstakur penni og kemur hugsunum sínum hraustlega í orð hvort sem það er í bókum hennar eða bara á samfélagsmiðlum. Elísabet yfirgaf Vesturbæinn og býr nú í Hveragerði eins og fjölmargir aðrir listamenn og lífskúnstnerar. 

Anna Kristjánsdóttir.
Anna Kristjánsdóttir.

Anna Kristjánsdóttir vélstjóri býr um þessar mundir á Tenerife. Anna er á lausu og er ein af þessum skemmtilegu manneskjum sem lífga upp á daginn. Hún kann að meta tilveruna í sólinni og ákvað til dæmis að koma ekki til Íslands þegar kórónuveiran bankaði upp á. 

mbl.is