Kanntu stafrófið þegar húðin er annars vegar?

Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni.
Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir hjá Húðlæknastöðinni.

„Flest kunnum við stafrófið eftir að hafa lært það í grunnskóla, en ertu með húðumhirðustafrófið á hreinu?

A stendur fyrir A-vítamín, en þau kallast oft í daglegu tali retinóíðar eða retínól. Retínólkremin kannast margir við og eru þau eitt það vinsælasta í húðumhirðu í dag, enda hafa þau margsannað gildi sitt í fjölda klínískra rannsókna. Retínólkrem gegna ýmsum ólíkum hlutverkum í húðumhirðu. Þau eru til dæmis öflug gegn bólum, vinna á fínum línum og jafna áferð húðarinnar. Svitaholur verða minna áberandi og húðin verður ekki eins olíukennd þegar við notum krem sem innihalda retínól. Retínólin hafa líka lýsandi áhrif á litabreytingar í húðinni,“ segir Arna Björk Kristinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni í sínum nýjasta pistli: 

Retínólkremin komast því ansi nálægt því að vera hálfgerð töfrakrem en gallinn er að það eru því miður ekki allir sem þola þessi krem, til dæmis geta retinól oft verið of sterk fyrir þá sem eru með rósroða.

Þess vegna er mikilvægt að fá góðar ráðleggingar áður en maður byrjar að nota retínólkrem. Líka er nauðsynlegt að byrja með vægan styrk og nota kremið bara nokkur kvöld í viku. Síðan er smám saman hægt að auka styrkinn og hversu oft maður notar kremið. Það þarf líka að passa sig sérstaklega vel á sólinni þegar maður notar retinólkrem og jafnvel er gott að hvíla kremið yfir sumarið.

B-ið stendur fyrir B-vítamín. Í húðumhirðu er B3-vítamín mest notað og kallast niacinamid. Niacinamid er líklegast ekki jafnþekkt og retinól en lesið áfram og leggið nafnið á minnið, þetta efni viljið þið prófa! Niacinamid eykur meðal annars raka húðarinnar og örvar kollagenframleiðslu og vinnur þar af leiðandi gegn öldrun húðarinnar. Einnig verða svitaholur minna áberandi við notkun B-vítamínsins. Efnið vinnur gegn húðbólgum og roða, og er því gott fyrir þá sem eru með til dæmis rósroða eða bólur. Niacinamid er líka öflugt andoxunarefni og verndar þannig húðina gegn sindurefnum í umhverfinu sem eru skaðleg húðinni og geta flýtt fyrir öldrun. Það besta við niacinamid er að nánast allar húðgerðir geta notað það.  

C stendur fyrir C-vítamín. C-vítamínin eru öflug andoxunarefni sem vernda húðina gegn sindurefnum og UV-geislun. Þau örva einnig kollagenframleiðslu húðarinnar og vinna þar af leiðandi gegn öldrun. C-vítamín hafa góð lýsandi áhrif á húðina og vinna því á dökkum litabreytingum. C-vítamín þolast af flestum húðgerðum.  

D stendur fyrir D-vítamín. Það fær að fljóta með í þessari umfjöllun þótt hér sé ekki ætlunin að tala um D-vítamín í kremum.

Eins og þið hafið líklegast orðið vör við elskum við húðlæknar sólarvarnir og þreytumst ekki á að segja fólki frá mikilvægi þess að nota sólarvörn, alltaf! Í þessu sambandi fáum við þó oft spurningar frá áhyggjufullum sjúklingum um það hvort sólarvarnirnar hindri ekki alla D-vítamínframleiðslu líkamans og geti því leitt til skorts. Stutta svarið við þessari spurningu er nei! Sólarvarnir geta aldrei alveg blokkað geisla sólarinnar. Það er líka þannig (því miður) að ekkert okkar ber á sig nægjanlega þykkt lag og notar sólarvörnina nógu oft yfir daginn til að við náum fullkominni sólarvörn. Við þurfum því ekki að hafa áhyggjur af því að sólarvörnin valdi D-vítamínskorti hjá okkur. Svo megum við ekki gleyma því að við fáum líka D-vítamín í ýmsum fæðutegundum eins og til dæmis feitum fiski, eggjum og lýsi.

Það væri hægt að halda áfram með húðstafrófið en við látum þetta gott heita í bili og vonandi eruð þið einhverju nær. Eins og þið sjáið af þessari yfirferð er endalaust af vörum í boði og þess vegna er um að gera að kynna sér þær vel og endilega reyna að fá ráðleggingar hjá fagfólki áður en þið fjárfestið í fullt af vörum sem síðan henta ykkar húðgerð alls ekki.

Gangi ykkur vel!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál