Hvað var Rudy Giuliani með í hárinu?

Margir hafa velt því fyrir sér hvað fór eiginlega úrskeiðis …
Margir hafa velt því fyrir sér hvað fór eiginlega úrskeiðis í hárgreiðslu Rudy Giuliani. AFP

Rudy Giuliani, lögmaður Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, vakti mikla athygli í gærkvöldi. Það var þó ekki endilega það sem Giuliani hafði að segja heldur svartur sviti sem lak niður úr hársverði hans. 

Spekingar hafa spáð í hvað væri í gangi á höfðinu á Giuliani og töldu margir að um væri að ræða slæma hárlitun sem hefði farið úrskeiðis. Hársnyrtimeistarar hafa bent á að það sé mjög ólíklegt þar sem hárlitur færi ekki að leka úr hári með þessum hætti, nema liturinn væri enn í, sem einnig er talið ólíklegt. 

Líklegast er að Giuliani hafi notað maskara til að dekkja …
Líklegast er að Giuliani hafi notað maskara til að dekkja hárin í hliðunum. AFP

Mirko Vergani, listrænn stjórnandi hjá Drawing Room-hárgreiðslustofunni í New York, telur að um sé að ræða einhvers konar tímabundna lausn sem Giuliani hafi leitað í til að dekkja bartana.

„Bartar eru vanalega grárri en afgangurinn af hárinu. Þú getur sett maskara til að dekkja gráa litinn svo það líti eðlilega út,“ sagði Vergani í viðtali við New York Times. Hann segir að þeir sem vilji dekkja hár sitt í hliðunum með maskara ættu að forðast að vera í miklum hita og leyfa vörunni að þorna alveg. Hann telur líka líklegt að of mikið hafi verið notað og því hafi það lekið úr með þessum hætti. 

Það er mjög vandasamt að ætla að nota maskara til að dekkja hárið og fela rótina, eins og Giuliani komst að í gærkvöldi. Það sem er miklu áhrifaríkara og skilar þér fallegri útkomu er þurrsjampó með lit, eins og til dæmis Brunette Dry Shampoo frá label.m.

Betra er að nota þurrsjampó með lit.
Betra er að nota þurrsjampó með lit. AFP
mbl.is