Leyfir líkamanum að njóta sín

Ágústa Sif Aðalsteinsdóttir.
Ágústa Sif Aðalsteinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Ágústa Sif Aðalsteinsdóttir, förðunarfræðingur og naglafræðinemi, er með skemmtilegan fatastíl. Pils eru í miklu uppáhaldi hjá Ágústu Sif sem segist reyna að sýna líkamslögun sína þegar hún klæðir sig. 

„Fatastíllinn minn er ótrúlega breytilegur og það fer oftast eftir árstíð og skapi hvernig ég vil klæða mig. Það sem ég leita eftir þegar ég vel mér flíkur er að þær séu þægilegar og aðsniðnar svo að línur líkama míns njóti sín sem best. Ég er mikið sjálfsöruggari í þannig fatnaði og líður hvað best með sjálfa mig. Það skiptir mig máli að ég geti nýtt flíkurnar í mörg ár, ef ég er ánægð með flík og hún er vel gerð get ég átt hana í 10-15 ár,“ segir Ágústa Sif þegar hún er beðin um að lýsa fatastílnum sínum.

Það er annaðhvort allt eða ekkert hjá Ágústu SIf og …
Það er annaðhvort allt eða ekkert hjá Ágústu SIf og það sama má segja um skartið sem hún ber. mbl.is/Árni Sæberg

Ágústa Sif er fædd árið 1991 og er tískan frá tíunda áratug síðustu aldar og rétt eftir aldamót í miklu uppáhaldi hjá henni.

„Ég horfði á systur mína gellast í 90's-tískunni og svo er ég unglingur á 2000-tímabilinu, sem litaði skoðanir mínar alveg rosalega. Ég hugsa oft: hvernig ég get yfirfært það sem ég elskaði sem unglingur í nútímann,“ segir hún.

Ágústa Sif er mjög hrifin af perlum. Hún notar stundum …
Ágústa Sif er mjög hrifin af perlum. Hún notar stundum perlur í farðanir en bleiku peysuna keypti hún á markaði í Holtagörðum fyrir frekar löngu síðan. Köflótta pilsið er frá SHEIN. mbl.is/Árni Sæberg

„Innblásturinn kemur oftast til mín þegar ég er ein að sinna heimilisstörfum, þá poppa oft upp myndir í kollinn sem mig langar að yfirfæra í raunveruleikann. Auðvitað sæki ég líka innblástur úr sjónvarpi og frá skvísum á Instagram. Ég hef rosalega gaman af því að fylgjast með konum sem eru með svipaða líkamslögun og ég eða eru með líkama sem ég tengi við. Ég fæ daglega innblástur fyrir fataval hjá konum eins og Arlette Jeanett og Önnu LaRiccia.

Ég versla langmest á netinu, sérstaklega um þessar mundir þegar við þurfum að passa upp á okkur sjálf og náungann. Ég á svolítið erfitt með að réttlæta það að fara í búðir þegar aðgengi verslana á netinu er eins frábært og það er. Það erfiðasta við netverslunina er að maður getur ekki mátað flíkurnar og ef eitthvað er ekki að virka fyrir mann þá þarf að skila og skipta sem getur alveg verið pirrandi,“ segir Ágústa Sif sem segist stundum fara í búðir sem eru ekki með netverslanir og mátar þá það sem henni líst vel á.

Ágústa Sif er förðunarfræðingur.
Ágústa Sif er förðunarfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Ágústa Sif segist ekki safna lengi fyrir hverri flík. Hún er þó með ágætt ráð þegar kemur að fatakaupum. Hún tekur frá ákveðna upphæð á mánuði sem hún má eyða í afþreyingu og verslun. Hún segist reyndar ekki kaupa mjög dýrar flíkur nema hún sjái fyrir sér að ganga í þeim í mörg ár.

Áttu þér uppáhaldsverslun?

„Ég versla út um allt svo að ég á ekki einhverja eina uppáhaldsverslun sem ég gæti ekki lifað án, það eru kostir og gallar við allt. Ég hef alltaf verið ánægð með gæði og endingu miðað við verð hjá til dæmis Vila og H&M. Ég kíki alltaf í New Yorker ef ég þarf að versla, þar leynast ýmsir gullmolar á spottprís! Á netinu fylgist ég hvað mest með Asos, Next, Missguided og SHEIN en gæðin hjá SHEIN eru oft arfaslök og skoplegt að sjá muninn á því sem maður ætlaði sér að kaupa og hvað maður fékk í staðinn. Það er samt rosalega gaman að skoða hjá þeim.“

Er einhver flík í uppáhaldi hjá þér?

„Þær eru nokkrar, til dæmis Burberry-skyrtan mín sem hefur fylgt mér í átta eða níu ár, pleðurskokkur sem mér finnst ótrúlega skemmtilegur og svo var ég að fá gervipels með kúamynstri sem ég held að verði lúmskt uppáhald í vetur! Öll pilsin mín eru líka í uppáhaldi, ég get ekki án pilsa verið.“

Ágústa Sif í pleðurskokk og skyrtu frá Burberry.
Ágústa Sif í pleðurskokk og skyrtu frá Burberry. mbl.is/Árni Sæberg

Bestu kaup sem þú hefur gert?

„Ætli það séu ekki silfurgallabuxurnar sem mamma keypti handa mér fyrir 12 árum. Ég hafði bara mátað þær daginn sem við keyptum þær. Þær voru aðeins of þröngar en við keyptum þær samt, draumagallabuxurnar sko! Þær pössuðu almennilega á mig nýlega og við eigum mjög skemmtilega sögu saman. Geng í þeim mjög mikið núna svo að ég fái nú eitthvað fyrir peningana.“

Gallabuxurnar eru keyptar fyrir 12 árum í Next. Harrods-taskan er …
Gallabuxurnar eru keyptar fyrir 12 árum í Next. Harrods-taskan er í miklu uppáhaldi. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar kemur að skarti kýs Ágústa annaðhvort netta og klassíska muni eða rosalegt glingur, það er enginn millivegur hjá henni. Uppáhaldstaskan hennar er klassísk taska frá Harrods sem hún rogast með þegar hún þarf.

Stíll Ágústu Sifjar hefur breyst mikið á undanförnum misserum. Hún kaupir sér fleiri föt eftir að hún tók andlega og líkamlega heilsu sín í gegn. Hún hristir höfuðið yfir þeim fötum sem hún klæddist fyrir árið 2018. Hún varð þó uppvís að stærsta tískuslysinu sem unglingur.

„Þegar ég var 14 og 15 ára var ég alltaf með bleika röndótta húfu með deri, mér fannst hún passa við allt, mér fannst ég svaka gella með hana, get ekki sagt að ég sé sammála þessum skoðunum í dag. Ég átti líka hvítan magabol með neonbleiku mynstri. Bolurinn var axlaber og renndur að framan með plastrennilás. Ég tengi alls ekki við það val í dag og finnst það óskiljanlegt að ég hafi ekki verið stöðvuð.“

Ágústa Sif notar ljósa rúllukragabolinn mjög mikið en hann passar …
Ágústa Sif notar ljósa rúllukragabolinn mjög mikið en hann passar við allt. Hún er ekki vön að ganga í víðum fötum en finnst hún töffaraleg í víða flauelsjakkanum. Stígvélin voru áður í eigu móður Ágústu Sifjar. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað er nauðsynlegt að eiga í fataskápnum sínum þessa stundina?

„Ég neita að fara í algjöran vetrarham alveg strax, mig langar að halda í haustið aðeins lengur. Ég er mikið að vinna með þykkar sokkabuxur. Pils, pils og aftur pils. Fallega prjónaða peysu, pels og há stígvél.“

Hvað er á óskalistanum fyrir veturinn?

„Listinn er ótæmandi en það sem mig vantar og langar hvað mest í er hlý bleik úlpa fyrir veturinn, sérstaklega þessi frá 66°Norður. Ég er líka að leita mér að fallegri rauðri ullarkápu, að sjálfsögðu nýjum fallegum jólakjól og ég þarf líka að skóa mig betur.“

Bleiku spariskórnir voru keyptir í skóbúðinni Bianco á sínum tíma.
Bleiku spariskórnir voru keyptir í skóbúðinni Bianco á sínum tíma. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál