Gullhringur frá ömmu í uppáhaldi

Unnur Eir Björnsdóttir gullsmíðameistari er alltaf með eyrnalokka.
Unnur Eir Björnsdóttir gullsmíðameistari er alltaf með eyrnalokka. Ljósmynd/Aðsend

Unnur Eir Björnsdóttir gullsmíðameistari í Meba segir skartgripi setja punktinn yfir i-ið þegar fólk klæðir sig upp. Sjálf heldur hún mikið upp á hring sem hún erfði frá ömmu sinni en hún segir skartgripi klassískar vörur sem fólk leitar alltaf í. Gull og gullhúðað silfur er heitt í dag.

„Það sem er vinsælast hjá okkur er án efa íslensk skartgripahönnun, síðustu ár höfum við einbeitt okkur að því og úrvalið hjá okkur er með því besta á landinu. Ég held að við séum með skartgripi frá hátt í 20 gullsmiðum. Sala á gullskartgripum hefur líka aukist, enda klassísk og verðmæt vara,“ segir Unnur sem segir mikla grósku hafa verið í íslenskri skargripahönnun á undanförnum árum. Hún telur íslenska gullsmiði vera sýnilegri en áður en fólk einnig meðvitaðra um að kaupa íslenskt.

Unnur er ein af þessum íslensku skartgripahönnuðum. 

„Ég sæki mest innblástur í mitt daglega líf, það sem ég upplifi hverju sinni. Börnin mín og fjölskylda veita mér mikinn innblástur jafnt sem hvatningu. Ferðalög um landið veita mér einnig mikla orku og innblástur. Ég dett oft í minn eigin heim í bílferðalögum innanlands og á þeim ferðalögum koma oft bestu hugmyndirnar.“

Skartgripir klassískir

Klassískar vörur verða oft eftirsóttari á krepputímum og gull hækkar í verði. Sala á gullskartgripum hefur aukist og segir Unnur slíkar vörur klassískar. Salan féll þó í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins en það birti til í sumar og hefur aldrei verið meira að gera í netversluninni en akkúrat núna.

„Fólk hefur alltaf keypt gull og demanta, möguleiki er á að það sé gert meira á krepputímum þar sem þetta er ágætis fjárfesting. Þetta eru hlutir sem erfast í margar kynslóðir og eru persónulegir. Nú erum við til dæmis að fara að koma með demantshringa sem við framleiðum að hluta til á verkstæðinu okkar, þar verðum við með demanta upp í hálft karat.“

Unnur Eir Björnsdóttir er gullsmíðameistari í Meba.
Unnur Eir Björnsdóttir er gullsmíðameistari í Meba. Ljósmynd/Aðsend

Talandi um muni sem erfast í margar kynslóðir þá er einmitt einn af uppáhaldsskartgripum Unnar hringur frá ömmu hennar.

„Sá skartgripur sem ég held einna mest upp á er hringurinn hennar ömmu. Ég erfði hann og hann vekur dásamlegar minningar sem verma hjartað hverju sinni. Amma var alltaf með hann og ég man eftir mér lítilli dást að hringnum, fikta í honum og fá að máta hann. Þetta er ekta antikhringur úr gulli með ljósbláum steini, sem var vinsæll á árum áður og klassískur nú.

Af mínum skartgripum finnst mér erfitt að gera upp á milli, allir eiga sína sögu. Kannski má nefna hringinn Dimmalimm, hann var einn af fyrstu hlutunum sem ég hannaði. Hann gerði ég þegar ég stundaði nám í Central Saint Martins í London. Ég sótti innblástur í söguna Dimmalimm eftir Mugg, Guðmund Pétursson Thorsteinsson. Ég dró línur hringsins út frá formi svansins og setti svo stein í kórónu sem táknar prinsessuna. Hringurinn er mattur inni í eða með grófri áferð og það táknar hin dulúðugu álög.“

Hringurinn DImmalimm eftir Unni Eir.
Hringurinn DImmalimm eftir Unni Eir. Ljósmynd/Aðsend

Alltaf með eyrnalokka

Hvers konar skartgripir eru í tísku núna?

„Gyllti liturinn, hvort sem það er gullhúðað silfur eða ekta gull, er mjög heitur í dag, bæði fyrir konur og karla. Eyrnalokkatískan er mikil núna, má segja allar gerðir af lokkum hvort sem það eru fínlegir hringlokkar eða áberandi töff lokkar. Hálskeðjur eru líka mjög áberandi og oft fallegt men með.“

Hvernig notar þú skartgripi?

„Ég er alltaf með eyrnalokka og vel lokkana eftir tilefninu. Hversdags er ég oftast með klassísku hringlokkana úr línunni Draumum en spari set ég oft stærri lokka upp, finnst í lagi að hafa lokkana áberandi. Spari vel ég skartgripina eftir því í hverju ég er. Er auðvitað alltaf með eyrnalokka og vel í raun út frá þeim eitt eða fleiri men. Finnst mjög flott að vera með nokkur hálsmen saman. Armböndin og hringana vel ég svo saman, fer eftir skapi hversu mikið. Stundum er ég hógvær í vali og er það alveg jafn fallegt.“

Hvað gerir það fyrir heildarútlitið að nota skart?

„Skartgripirnir setja punktinn yfir i-ið að mínu mati. Þú velur þér smart dress og þá skiptir öllu að skartgripirnir fari vel með og hæfi dressinu. Skartgripirnir verða að vera þægilegir og klæðilegir alveg eins og fötin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál