Setur jólatréð alltaf upp í nóvember

Hendrikka Waage hefur fundið fyrir jákvæðum innblæstri undanfarið.
Hendrikka Waage hefur fundið fyrir jákvæðum innblæstri undanfarið. Ljósmynd/Aðsend

Listakonan Hendrikka Waage hefur fundið fyrir jákvæðum innblæstri í listsköpun sinni undanfarna mánuði. Um helgina opnar hún sína þriðju málverkasýningu á árinu en hinar tvær seldust upp. Einnig hefur hún verið að undirbúa skartgripina sína fyrir jólin sem eru alltaf klassísk og falleg gjöf. 

Málverkasýning hennar verður opnuð í dag, laugardaginn 5. desember, og verður í Matthildu í Kringlunni og í Collections Hafnartorgi. 

Hendrikka er búsett í Bretlandi en ætlar að eyða jólunum í faðmi fjölskyldunnar. Hún setur jólatréð alltaf upp hinn 18. nóvember, á afmælisdegi móður sinnar, svo hún fái að njóta þess lengur. 

Dásamlegar verur Hendrikku Waage verða í Matthildu í Kringlunni og …
Dásamlegar verur Hendrikku Waage verða í Matthildu í Kringlunni og Collections í Hafnartorgi. Ljósmynd/Hendrikka Waage

„Ég byrjaði að mála fyrir þremur árum. Hef reyndar alltaf verið að mála og teikna síðan ég man eftir mér. Ég hef einnig stundað nám í London Academy of Arts í gegnum tíðina samhliða starfi mínu sem skartgripahönnuður. Að skapa er mitt líf og yndi. Ég mála litríkar myndir sem ég kalla „dásamlegar verur“.

Ég hef sjálf mjög mikla gleði af að skapa þær og mála og ég vona að það sjáist í verkunum.  Það er einnig mikil einlægni í augunum þeirra. Verurnar eru allar með eitt eyra: „Þú þarft ekki að hlusta á allt.“ Við erum oft á tíðum svo svakalega heilaþvegin af öllu í kringum okkur og það er það sem ég túlka úr þessu. Annars vil ég leyfa áhorfandanum að túlka og upplifa verkin á þann hátt sem hann sér þau,“ segir Hendrikka í viðtali við Smartland.

Útgöngubanni í Bretlandi var nýlega aflétt en Hendrikka segist ekki hafa fundið mikið fyrir því. Hún býr í sveit fyrir utan London og hefur lítið verið að flækjast til höfuðborgarinnar. 

Dásamlegu verurnar hennar Hendrikku eru allar með eitt eyra.
Dásamlegu verurnar hennar Hendrikku eru allar með eitt eyra. Ljósmynd/Aðsend

„Nágrannarnir kynntust enn frekar og voru mikið saman og maður kynntist líka nýju fólki í hverfinu sem kannski ég hefði ekki haft tíma til að kynnast, sem var skemmtilegt,“ segir Hendrikka. 

„Ég hef ekkert verið að velta kórónuveirunni allt of mikið fyrir mér. Ég kvarta ekki. Ég finn aftur á móti mikið til yfir langveiku börnunum sem þurfa mikið að loka sig inni og fjölskyldum þeirra og einnig eldri borgurum. Aftur á móti hef ég fundið fyrir gífurlega jákvæðum áhrifum og miklum innblæstri. Það hefur gefst meiri tími til að hanna og skapa almennt en á móti kemur að búðir hafa verið mikið lokaðar í Bretlandi,“ segir Hendrikka aðspurð hvort veiran hafi haft áhrif á listsköpunina.

Skartið frá Hendrikku Waage er alltaf klassískt í jólapakkann.
Skartið frá Hendrikku Waage er alltaf klassískt í jólapakkann. Ljósmynd/Stefanía Linnet

Hvernig verða jólin hjá þér í ár? 

„Ég ætla að eyða jólunum í faðmi fjölskyldu minnar á Íslandi. Ég elska jólin og sérstaklega jólatré. Mér finnst svo skemmtilegt að hafa fallegt jólatré. Ég stilli því alltaf upp 18. nóvember, á afmælisdegi móður minnar. Ég veit að það er svolítið snemmt en ég er svo oft á einhverjum flækingi um jólin þannig að ég hef þetta fyrir hefð svo ég fái sem mest út úr því. Uppáhaldsdagurinn minn er samt jóladagur þegar öll stórfjölskyldan kemur saman og fer í kirkjugarðana. Við förum síðan í framhaldi af því í heitt kakó og kökur. Það er einhver yndislegur og ólýsanlegur sjarmi yfir þessu.“

Ertu búin að ákveða jólakjólinn í ár?

„Já, ég elska að klæða mig upp í síðkjóla um hátíðirnar. Ég kom með til landsins kjól sem ég fékk í New York fyrir 10 árum sem er mjög glæsilegur en sígildur, ég ætla að vera í honum á jólunum ásamt gylltum Hendrikku Waage-keðjueyrnalokkum. Mér finnst gaman að hafa stemningu.“

Hægt er að fylgjast með málverkasköpun og sýningu Hendrikku á instagramsíðu hennar.

Hendrikka í jólakjólnum sem hún fékk í New York fyrir …
Hendrikka í jólakjólnum sem hún fékk í New York fyrir 10 árum. Ljósmynd/Ásta Kristjánsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál