Ástralski grínistinn Celeste Barber gerði nýlega grín að myndatöku sem söngkonan Jennifer Lopez fór í. Hin 51 árs gamla stjarna sat fyrir nakin á mynd og kom nakin fram í myndbandi. Barber sýndi öllu raunsannari mynd af venjulegri konu.
Barber, sem er 39 ára, er dugleg að herma eftir myndum af fræga fólkinu. Oftar en ekki verða myndir af fáklæddum stjörnum fyrir valinu. Á myndinni sem hún birti var hún í sömu stellingu og Lopez en klæddist ljósum þveng ólíkt Lopez sem var allsber.
Þegar Lopez birti myndina á samfélagsmiðlum sínum fékk ekki bara lof fyrir að vera í góðu formi. Hún var einnig gagnrýnd fyrir að sýna óeðlilega mynd af konu á sextugsaldri. Mynd Barber er vissulega skopstæling á mynd Lopez en líklega eiga flestar konur meira sameiginlegt með Barber en Lopez.