„Maður lætur ekki demanta safna ryki“

Arna Björg er hrifin af vönduðum tímabilsfatnaði frá hátískuhúsum.
Arna Björg er hrifin af vönduðum tímabilsfatnaði frá hátískuhúsum.

Arna Björg Arnardóttir segir Íslendinga alltaf að verða vistvænni og meðvitaðri gagnvart tísku og hönnun. Hún er eigandi vefverslunarinnar Studiostreams.is sem sérhæfir sig í að verðleggja og selja vandaða notaða merkjavöru.

Hún geymir gersemarnar heima hjá sér í fallegu fataherbergi og býður fólki að koma í opið hús fram til jóla, alla virka daga á milli klukkan tólf og hálfþrjú á daginn. Hún segir eitthvað fallegt bætast við í hverri viku en helstu merkin í vefversluninni í dag eru Prada, Gucci, Louis Vuitton, Marni, Ralph Lauren, Dries Van Noten, STEiNUNN, Eggert Feldskeri, Burberry, Isabel Marant, Phillip Lim, Vent Couvert, Armani Exchange og Rag & Bone. 

Ertu mikið fyrir tímabilsfatnað sjálf? 

„Eftir því sem ég eldist og verð meðvitaðri um fataiðnaðinn hallast ég meir að svokallaðri „slow fashion“ og kaupi aðallega klassískar flíkur sem nýtast mér við mörg tækifæri.
Mér finnst nauðsynlegt að við séum skynsamari í neyslu okkar og hægjum á tískuiðnaðinum, kaupum vandað og notað þegar tækifæri gefst. Í þessu samhengi er áætlað að neysla okkar í tengslum við fataiðnaðinn aukist um 63% fyrir árið 2030, sem hræðir mig verulega.“ 

Hvað vakti áhuga þinn á vönduðum tímabilsfatnaði erlendis?

„Oft á tíðum var ég sek um að leita uppi ákveðnar vörur fyrir mig sjálfa, en einnig fyrir vini og fjölskyldu. Þetta vatt svo hægt og rólega upp á sig og þykir mér sem dæmi fátt skemmtilegra en að þræða búðir með tímabilsfatnað í Kaupmannahöfn þar sem ég á mér mínar uppáhaldsbúðir.“

Skór frá Gucci.
Skór frá Gucci.

Hver er dýrmætasta flíkin í þínum fataskáp?

„Þær eru þrjár sem eru mér dýrmætastar. Ég held mikið upp á Cartier Tank-úr sem pabbi minn keypti árið 1985 og gaf mér svo seinna meir. Prada-mittistaskan mín er mér dýrmæt. Börnin mín og maður gáfu mér hana í afmælisgjöf síðasta sumar í Kaupmannahöfn. Prada er eitt af mínum uppáhaldsmerkjum. Ég á einnig Zac Posen-brúðarkjól sem ég datt óvænt niður á í minni síðustu ferð til New York rétt áður en kórónuveiran brast á. Sá kjóll mun samt bíða betri tíma.“

Ertu alin upp við vandaða hönnun og fallega hluti eða hvaðan kemur þessi áhugi?

„Ég er svo sannarlega alin upp við vandaða hönnun, bæði í fatnaði, aukahlutum og innanhússmunum. Mamma mín, Björg Jónasdóttir, er með meiri töffurum sem ég þekki og þykir einstaklega smart og kenndi hún okkur systrum svo margt sem tengist tísku og hönnun. Gæði framyfir magn er eflaust það sem situr fastast í mér og hef ég komið þessari hugsun til dóttur minnar Sunnu sem er fjórtán ára og mjög meðvituð um gæði og góða hönnun.“ 

Kjóll frá Diane von Furstenberg er til sölu á síðunni.
Kjóll frá Diane von Furstenberg er til sölu á síðunni.

Af hverju ætti fólk að íhuga að koma í verð merkjavöru sem það notar sjaldan?

„Maður lætur ekki demanta safna ryki og sama má segja um gæðafatnað og -aukahluti.
Fallegar og vandaðar flíkur eiga þá virðingu skilið að vera gefið framhaldslíf þótt maður sjálfur hafi ekki not fyrir þær lengur.

Að selja merkjavöru er skynsamlegt fyrir alla aðila; seljandann sem og kaupanda, með því styrkjum við hvert annað, hringrásarhagkerfið og sýnum samfélagslega ábyrgð með að stuðla að því að halda einnota tísku í lágmarki.“

Er viðeigandi að gefa svona vörur í jólagjafir?

„Algjörlega. Vönduð hönnunarflík í góðu ástandi er ávallt góð gjöf, hvort sem hún er ný eða notuð. Ég myndi alltaf velja fallega gæðavöru sem er notuð fram yfir nýja lakari vöru sem kostar jafnvel svipað. Þegar kemur að kaupum á gæðahönnun skiptir öllu máli að varan sé ekta og það eru nokkrar leiðir til að ganga úr skugga um það. Enda ekkert meiri óvirðing í garð hönnuða og tískuhúsa en falsaðar vörur. Ég mæli með að fólk hendi aldrei skó- og/eða fatapokum, það eru mikil verðmæti í þeim og vörur seljast betur ef slíkt fylgir með.“

Af hverju ákvaðstu að fara af stað með þessa hugmynd?

„Fram til þessa hefur aðgengi að slíkri hönnunarvöru á Íslandi verið af skornum skammti, en þær flíkur sem var að finna til sölu hérlendis þurfti að leita uppi á sölumörkuðum Facebook og Bland til að nefna dæmi. Oft var ekkert verð að finna og takmarkaðar upplýsingar um flíkina, upprunavottun hennar og ástand. Heilmikill eltingarleikur var oft við að reyna að ná vörunni áður en hún seldist, því oft hefur eftirsóknin hér verið mun meiri en framboðið af slíkri gæðavöru. Með tilkomu Studio Streams hefur aðgengið verið auðveldað töluvert og hefur fólk nú færi á því að að kaupa upprunavottaðar vörur á einfaldan og þægilegan máta á netinu þar sem veittar eru ítarlegar upplýsingar um vöruna og ástand hennar.

Nú þegar hafa margir leitað til Studio Streams til að nýta sér þjónustuna, en fram til þessa hefur Íslendingum ekki staðið slík sérhæfð þjónusta til boða og ýmsum þótt erfitt að finna hönnunarflíkum réttan farveg til endursölu. Þjónustan er afar persónuleg, en hún hefst ávallt á viðtalstíma við seljanda þar sem farið er yfir þær flíkur sem viðkomandi vill selja, ástand þeirra og söluhæfni metin.“

mbl.is