„Jólagreiðslurnar verða lifandi og í 70's-stíl“

Katrín Sif Jónsdóttir er lífsglaður hárgreiðslumeistari sem hefur endalausan áhuga á hári. Þegar hárgeiðslustofum var lokað vegna veirunnar tók hún sig til og gerði veftímarit um hár. Katrín Sif er einn af eigendum Sprey Hárstofu. Hún stofnaði nýlega veftímaritið Bubble þar sem hún sýnir lesendum allt það nýjasta í sambandi við hár og greiðslur.

„Jólagreiðslurnar verða lifandi og í 70's-stíl þar sem bylgjur, krullur og hárskraut verður vinsælt. Allir geta verið með bylgjur sama hvort hárið er stutt eða sítt. Hárið getur verið slegið, sett í lágt tagl eða poppað upp með fallegum spennum. Snúðar eru líka alltaf mjög vinsælir; lág tögl og lágir snúðar.“

Katrín Sif segir að þegar búið er að undirbúa hárið með bylgjum eða krullum þá sé svo auðvelt að gera meira við það. Hreyfing gerir mikið fyrir greiðsluna.

Hárskraut hefur verið mjög vinsælt. Það er nauðsynlegt að hafa spennur í hárinu á jólunum, perlur eða eitthvað sem glitrar smávegis á.

Þeir sem velja að vera með slétt hár eru gjarnan með smávegis vængi, sem er í anda 70's-tímabilsins. Það finnst mér mjög sætt. Hægt er að setja spennu eða spöng í hárið til að gera aðeins meira fyrir útlitið. Lágir snúðar eru alltaf mjög smart og stílhreinir. Við erum bæði að sjá mjög einfaldar greiðslur og svo líka þar sem til dæmis bylgjur eru settar í hárið og svo spennt í lítinn úfinn snúð.“

Katrín segir að fólki líði betur ef hárið er í lagi.

„Við eigum öll skilið að líta vel út og gera okkur til. Það skiptir ekki máli þótt þú sért ekki að fara út eða á meðal fólks. Við vitum öll að þegar við klæðum okkur upp á; förum í kjólinn eða nýju skyrtuna, þá líður okkur vel. Þar að auki vilja allir eiga flottar ljósmyndir af sér um hátíðirnar.“

Hvað með efni í hárið?

„Mitt uppáhaldsefni er frá Kevin.Murphy og heitir Anti.Gravity Sprey. Það er bæði hægt að blása hárið upp úr því og þá verður hárið viðráðanlegra og með meiri fyllingu og svo er hægt að nota það í þurrt hárið og sem dæmi krulla hárið.“

Hvers vegna ákvaðstu að gera hártímarit?

„Ég vildi ekki sitja aðgerðalaus á meðan hárgreiðslustofan okkar var lokuð og tók þá skrefið og byrjaði með veftímarit. Vinkona mín, Ása Bergmann, sem er hönnuður í Danmörku, hjálpaði mér að setja upp síðuna og bjó til vörmerkið. Hún hjálpaði mér með verkefnið. Tímaritið er bæði fyrir fagmenn og áhugafólk um hár og tísku.

Planið er að gefa út blað í hverjum mánuði og hægt er að kaupa vörur mánaðarins sem nefndar verða í hverju blaði. Ég hef mjög gaman af því sem ég geri og læri ekki síður mikið á því að skrifa um hár. Mig langar að hvetja alla til að skoða það sem ég er að gera á bubblemagazine.is og á Instagram.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »