Þessi lífsreynsla hristi upp í Lovísu

Lovísa Ólafsdóttir viðskiptafræðingur lenti í slysi fyrr á árinu sem olli því að hún lítur lífið og tilveruna öðrum augum. Jólin eru engin undantekning á því. 

„Mér finnst dásamlegt að fá að vera til staðar, vera eyru, axlir og klappstýra dætra minna. Þess á milli er ég með hausinn ofan í alls konar verkefnum sem ég hrindi í framkvæmd eða ekki. Ég er menntaður viðskiptafræðingur með master í fjármálum og reyni að finna mér verkefni sem eru þannig að ég geti verið eilítið laus við líka,“ segir Lovísa um verkefnin sín um þessar mundir.

Lovísa lenti í alvarlegu bílslysi í febrúar á þessu ári þar sem bíll ók í veg fyrir hana á þjóðvegi og mátti litlu muna að illa færi.

„Ég er búin að vera að finna út úr umbreytingunum í lífinu. Þetta hefur verið niðurbrjótandi og mikill tími farið í endurhæfingu, sjúkraþjálfun, sálfræðinga- og læknisheimsóknir. Slysið var á sama tíma mikill vendipunktur og uppvakning. Lífið var allt í einu hverfult og þó að ég, líkt og allir, viti hvernig þetta endar að lokum, þá var það í mínum huga mjög fjarlægt á þessum tíma. Þannig hristi þessi lífsreynsla vel upp í mér og ég fór að líta lífið öðrum augum. Kannski af því að ég var föst og komst ekkert nema inn á við.“

Lovísa segir að áður en hún lenti í slysinu hafi hlutirnir gengið út á að láta allt ganga upp.

„Í dag spyr ég mig frekar: Af öllu því sem ég get verið að gera í lífinu, langar mig að vera að gera þetta?

Ég er ótúrlega þakklát fyrir að hafa fengið að stíga upp úr hjólastól og fá að eignast með tímanum heilbrigðar hendur og fætur. Það er bara svo mögnuð gleði í því.“

Gaman að undirbúa jólin með fjölskyldunni

Lovísa heldur í margar hefðir jólanna.

„Ég, mamma og systir mín höfum bakað sörur saman fyrir jólin sem er æðisleg samvera. Við gerum jólakrans og erum með piparkökukeppni á heimilinu sem vindur upp á sig á hverju ári. Við höfum látið það eftir pabba að fara í skötu sem okkur finnst öllum alveg hræðileg. Á sama tíma hafa dætur mínar gaman af því að halda fyrir nefið og lifa þetta af og horfa á afa og ömmu borða svo þennan illa lyktandi mat og jafnvel látið sig hafa það að smakka. Mér þykir vænt um þá hefð að tendra ljós á leiðinu hennar ömmu á Þorláksmessukvöld eftir góða hnetusteik og jafnvel rölt um bæinn. Á aðfangadag förum við alltaf í möndlugraut hjá mömmu í hádeginu, sem er alveg ómissandi.“

Lovísa er handavinnukona og þegar blaðamann bar að garði hafði hún saumað jólanáttföt á stelpurnar sínar.

„Amma mín var mikil handavinnukona. Það lék einhvern veginn allt í höndunum á henni. Á unglingsárunum settu búkhlutföllin mín strik í reikninginn í tískuinnkaupum. Hún kippti því í liðinn, lagaði öll fötin og endursaumaði heilu flíkurnar á mig. Þessi dásamlega samvera hefur líklega verið kveikjan að því að pæla í sniðum og efnum. Svo hef ég gaman af því að sauma sjálf.“

Það er auðséð að dætur Lovísu eru mikil jólabörn.

„Já, þær eru mikil jólabörn og hafa gaman af öllu þessu stússi. Þær velta því samt stundum fyrir sér hvenær það væri tímabært að hætta að setja skóinn út í glugga. En jólasveinarnir koma hingað með 39 gjafir dagana fyrir jól, sem þær kunna ósköp vel. Helst vilja þær svo hafa jólatré inni í öllum herbergjum.“

Nýtir tímann í dag til að læra eitthvað nýtt

Jólin snúast að mati Lovísu um huggulegheit. Á jólunum klæðir húr sig í klassískan fatnað og velur sér gjarnan eitthvað úr fataskápnum.

Lovísa hefur nýtt stundirnar á kórónuveirutímum vel. Hún er mikið fyrir að dunda sér heima og mælir með því að læra eitthvað nýtt í þessu ástandi og njóta þess að vera með börnunum.

Hvað mælirðu með að gera með börnunum?

„Fara með þau til ömmu og læra að steikja kleinur eða taka slátur. Leggja flísar og prjóna peysur, skrifa sögur eða dagbækur og tala við þau og veita þeim athygli.

Besta uppeldisráð sem ég hef fengið er að börn fæðast fullkomin. Það eina sem þarf að gera er að skemma þau ekki. Sem hljómar frekar einfalt en er flóknasta verkefnið sem ég hef tekist á við. Hvenær ertu að leiðbeina og ala upp og hvenær ertu að stjórna og taka fram fyrir hendur þeirra? Tilfinningar eru flóknar, margbrotnar og síbreytilegar bæði hjá okkur sjálfum og börnum. Öll erum við ekkert nema mannleg.

Ég held að það sé gagnlegt sem foreldri að taka upplýsta ákvörðun um hvaða hegðun eða venjum úr eigin reynsluheimi er gott að miðla áfram til barna sinna. Þannig tel ég mikilvægt að æða ekki áfram af hugsunarleysi og gömlum vana.“

Lovísa segir gaman að vaxa og þroskast í lífinu og vellíðan sé orð sem hún leggur aðra merkingu í en hún gerði áður.

„Þegar börnin voru lítil fólst vellíðan í því að eyða tíma á gólfinu að leika með þeim. Púsla, lesa, setja saman eða raða dóti sem þær fengu í jólagjöf. Reyna að halda rútínu, þannig að svefn barnanna færi ekki úr skorðum og þar með dagarnir þar á eftir. Eftir því sem börnum fjölgaði komu búferlaflutningar. Þeim fylgdi oft þráhyggja um að laga þetta og klára hitt fyrir jólin. Þegar ég horfi til baka get ég ekki annað en brosað yfir metnaðinum og dugnaðinum og á sama tíma hrist hausinn yfir ruglinu. Misskilningurinn fólst í því að þetta gæfi af sér einhverja vellíðan en staðreyndin var fjarverandi móðir vegna þreytu. Núna nenni ég engum stórræðum fyrir jólin. Ef einhverjar frábærar hugmyndir koma upp, þá eru þær tímasettar og framkvæmdar í janúar. Núna veit ég ekkert betra en að njóta aðventunnar og hitta fjölskyldu og vini. Lesa góðar bækur, borða smákökur og hendast í heitt bað með jólafroðuilmi.“

Mikið jólabarn

Það er auðséð að Klara Bryndís Gunnarsdóttir, yngsta barn Lovísu, er mikið jólabarn. Í raun má segja að Klöru Bryndísi líði aldrei eins vel og á jólunum.

„Á jólunum líður mér vel í hjartanu. Það er svo mikill friður og ró og það finnst mér bara svo gaman. Það skemmtilegasta við jólin er að hafa gaman og vera með fjölskyldunni. Að skreyta og kaupa pakka og að gera allt tilbúið er einnig það skemmtilegasta.“

Strax eftir hrekkjavökuna fer Klara Bryndís af stað í að skreyta.

„Ég myndi vilja byrja að skreyta í september, en ég byrja alltaf að skeyta strax eftir hrekkjavökuna. Mamma segir að ég þurfi að bíða eftir að það sé búið áður en ég fer að skreyta fyrir jólin. Ég byrja svona snemma því þá eru jólin lengri fyrir mér.“

Hvað ætlarðu að verða þegar þú verður stór?

„Ég ætla að vinna í jólabúðinni á Akureyri eða stofna mína eigin jólabúð. Kannski verð ég svo leikkona á sumrin,“ segir Klara Bryndís.

Hana dreymir um candy-floss-vél í jólagjöf, himnasæng og að fá fimleikasalinn leigðan svo hún geti haldið áfram að æfa sig.

Besta gjöfin sem hún hefur gefið er skraut sem hún bjó til sjálf í skólanum.

„Ég gerði jólakúlu í skólanum sem var rosalega fín. Hanna systir mín var rosalega glöð einu sinni þegar ég pakkaði inn pening og gaf henni. Hún var alltaf að tala um hvað hana vantaði pening. Ég fékk einu sinni 10.000 króna pening frá ömmu og afa í afmælisgjöf og mamma mín var ekkert búin að leyfa mér að nota hann. Ég mátti ekki kaupa nammi fyrir hann og ekki fara í ísbúðina og ekki kaupa dót þannig að ég hafði ekkert að gera við hann svo ég bara pakkaði honum inn og gaf henni.“

Hver er uppáhaldsjólasveinninn? „Þeir eru allir geggjaðir. Mér finnst betra að vera ekki að metast með þá og móðga. Það er ekki gott út af því að þá eru þeir sem ég nefni ekki ekkert að vanda sig með gjafirnar.“

Áttu góða uppskrift sem þú gerir alltaf á jólunum sem þú værir til í að deila með lesendum?

„Mér finnst skemmtilegast að gera pipakökur og skreyta þær en ég kann ekki að búa til deigið. Mamma mín gerir það. Við fletjum út og bökum og svo erum við með keppni hver gerir flottustu piparkökuna. Hanna systir mín vann í fyrra. Ég hef líka unnið og Björg systir mín og mamma en aldrei pabbi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál