Auður Gná snillingur í að finna jólagjafir

Auður Gná er alltaf með eitthvað spennandi á hönnunar prjónunum.
Auður Gná er alltaf með eitthvað spennandi á hönnunar prjónunum. Ljósmynd/Íris Ann

Auður Gná Ingvarsdóttir innanhússhönnuður kemur alfarið til með að gefa gjafir frá íslenskum hönnuðum í ár. Hún veit hvar bestu jólagjafirnar og ilmkertin fást og er hafsjór af upplýsingum fyrir þá sem eru hugmyndasnauðir fyrir jólin.

Auði Gná þekkja margir fyrir hennar eigin verk. Eins hefur hún verið í tímaritsútgáfu og fleira. Nú starfar hún fyrir Rammagerðina.

„Rammagerðin var farin að undirbúa þessi umskipti, en fyrir nokkru var ákveðið að taka stökkið alfarið og fá inn nýjan hóp hönnuða sem endurspegla það besta sem íslensk hönnunarsena hefur upp á að bjóða. Jafnframt því hefur Rammagerðin farið í samstarf við nokkra hönnuði og afraksturinn er þegar orðinn sýnilegur í vörum sem hefur verið ótrúlega gaman að fylgjast með fæðast. Sumar verða einungis til boða tímabundið eins og jólakötturinn hannaður af Stúdíó Fléttu og jólakertið frá Fischer-ilmhúsi en aðrar vörur eru komnar til að vera og ýmislegt fleira sem verið er að undirbúa. Alltaf er þó hugsað um að íslenska handverkið eigi sinn sess líka. Fólk verður að geta komið á Skólavörðustíginn til að kaupa sitt laufabrauðsjárn og mokkavettlinga.“ 

Auður Gná er vel að sér þegar kemur að jólagjöfum …
Auður Gná er vel að sér þegar kemur að jólagjöfum eftir íslenska hönnuði.

Hvernig gjafir ætlar þú að gefa á þessu ári?

„Ég kem alfarið til með að gefa gjafir frá íslenskum hönnuðum og handverksfólki. Ég held uppi heiðri Rammagerðarinnar að því leyti að ég sendi ættingjum erlendis gjafir frá versluninni, í þetta skiptið voru það lopasokkar, mokkahúfa, ilmvötn, súkkulaði og diskar og skálar frá okkar helsta keramiker Bjarna. Jólakötturinn verður líka sendur utan sem og Fischer-jólakertin.“

Jólakötturinn er frábær vara að mati Auðar Gná. Hönnun sem …
Jólakötturinn er frábær vara að mati Auðar Gná. Hönnun sem var sérstaklega gerð fyrir Rammagerðina.

Auður Gná er mikill fagurkeri og alltaf að gera fínt í kringum sig.

„Ég hef, eins og svo margir, endalausan áhuga á hönnun, en ég er samt sem áður mjög lítið nýjungargjörn þegar kemur að því að endurnýja og kaupa ný húsgögn. Ég hef átt sömu hlutina árum saman og sumir af mínum kærustu hlutum hafa flutt með mér á milli landa og eiga eftir að fylgja mér alltaf. Ef ég fæ mér eitthvað nýtt inn á heimilið, þá hugsa ég það vel, spái í hvort það spili vel með því sem ég á fyrir. Núna reyndar, í fyrsta skiptið í mjög langan tíma, væri ég til í að endurnýja ýmislegt og skipta út fyrir íslenska hönnun, það er margt framúrskarandi sem verið er að hanna og framleiða hér heima sem ég væri til í að eiga, hlutir sem eru alveg á pari við það sem best gerist erlendis.“

Hvaða íslensku hönnuðir heilla þig núna?

„Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja, það væri mjög langur listi að telja upp, en undanfarið hef ég mikið verið í samskiptum við nokkra hönnuði sem hafa komið að sérverkefni sem ég hef verið að vinna fyrir Rammagerðina og 66 Norður. Það er með skemmtilegri verkefnum sem ég hef unnið, mér var falið að velja húsgögn inn í íbúð sem nota á fyrir erlenda viðskiptavini og ég stakk upp á að leita eingöngu til íslenskra hönnuða og framleiðenda. Ég vel allt íslenskt, frá sófum niður í viskastykki, og þar verða sérgerð húsgögn eftir Rögnu Ragnarsdóttur og Hönnu Dís Whitehead. Stúdíó Flétta kemur líka að verkefninu og svo verða þar húsgögn eftir Erlu Sólveigu, Pétur Lúthersson og fleiri. Punkturinn yfir i-ið verða síðan myndverk eftir íslenska myndlistarmenn. í þessu verkefni er búið að vera mjög gaman að vinna með öllum þessum aðilum, en eins og ég segi, listinn er ótæmandi, við erum mjög rík að hæfileikaríku fólki hér á landi á sviði hönnunar.“

Ilmkerti Rammagerðarinnar er samstarfsverkefni Aldísar Einarsdóttur keramikers og Reyk sem …
Ilmkerti Rammagerðarinnar er samstarfsverkefni Aldísar Einarsdóttur keramikers og Reyk sem sá um ilmhönnunina.

Hver er draumagjöfin þín á þessu ári?

„Ég ákvað að gefa mér sjálfri lampa eftir Ragnheiði Ingunni sem nýlega komu í sölu í Rammagerðinni og eru algjörlega sér á parti, allir hennar lampar eru listaverk. Helst myndi ég vilja gefa öllum lampa eftir hana, en það er svo margt annað spennandi til eins og jólakötturinn magnaði sem Studíó Flétta hannaði sérstaklega fyrir Rammagerðina og kemur í takmörkuðu upplagi. Hann er búinn til úr notuðum barnafötum og hver og einn köttur er ólíkur öðrum, alveg dásamleg vera og vara. Á næsta ári kemur svo annar köttur, þar sem aðrir hönnuðir koma að útfærslunni og hugmyndin er að hann verði varða sem fólk vill safna, ár eftir ár eða á meðan pláss leyfir.“

Hvað myndir þú gefa táningnum þessi jólin?

„Ég myndi klárlega skoða lopasokka og jafnvel mokkalúffur eða -húfu. Svo myndi ég segja að nýju peysurnar frá Millu Snorrason sem núna eru aftur komnar í framleiðslu og eingöngu fáanlegar í Rammagerðinni væru alveg tilvalin jólagjöf fyrir táninga jafnt sem aðra. Gjöf sem hefur mikið notagildi fyrir utan hversu fallegar og einstakar peysurnar eru. Fólk sem einu sinni hefur eignast eina slíka fer ekki auðveldlega úr henni aftur. Að sama skapi myndi ég segja að peysurnar frá Helicopter væru gjöf sem ætti alveg að hitta í mark. Báðir þessir hönnuðir láta framleiða sínar peysur hér heima, nánar tiltekið hjá Varma í Reykjavík, sem eykur heldur betur virði þeirra. Hvað er betra en gjöf unnin úr íslensku hráefni,  sprottin úr höfði íslensks hönnuðar og sem jafnframt skapar störf og gleði fyrir alla. Ég myndi segja að það væri jólagjöf í lagi.“

Hvað með íslenska hönnun fyrir konu og karla?

„Hér er aftur svo margt sem kemur til greina. Gott ullarteppi sem dæmi. Af þeim er meira en nóg til í Rammagerðinni, frá hönnuðum eins og IHönnu og Önnu Þórunni svo eitthvað sé nefnt fyrir utan Rammagerðarteppin sígildu. Svo er Fischer ilmhús með ótrúlega falleg teppi úr merinóull og það er margt úr þeirra vörulínu sem ég myndi segja að væri tilvalið fyrir bæði kynin. Ilmvötnin þeirra eru frábær sem og ilmkremin. Ilmkertin þeirra eru frábær gjöf og ef einhver vill gefa góða aðventugjöf, þá myndi ég hiklaust benda á jólakertið 2020 sem Fischer gerði sérstaklega fyrir Rammagerðina, ótrúlega hátíðleg og notaleg lykt og umbúðirnar mjög sérstakar. Svo myndi ég líka setja á listann ilmkerti Rammagerðarinnar, sem unnin voru af Aldísi Einarsdóttur sem gerði leirkerin fyrir kertin og Steinunni Jónasdóttur ilmhönnuði sem sá um að finna rétta lykt og tryggja að öll innihaldsefni væru eiturefnalaus og umhverfisvæn,  önnur ótrúlega falleg vara sem einungis er að finna í Rammagerðinni. Svo erum við með frábærar skálar frá Rögnu Ragnarsdóttur sem hentar fyrir öll kyn og það sama má segja um Theodóru Alfreðsdóttur og hennar vörur. Hanna Dís Whitehead verður með mjög skemmtilegan keramikhlut, eilífðarskálina. Það er nóg af glæsilegri gjafavöru fyrir alla í Rammagerðinni þessa dagana.“

Góðir rauður jólasokkar sem verma kaldar fætur. Fæst í Rammagerðinni.
Góðir rauður jólasokkar sem verma kaldar fætur. Fæst í Rammagerðinni.

Skiptir miklu máli að gefa íslenska hönnun?

„Það skiptir öllu máli. Sjáum bara hvað Danir og Svíar hafa gert, eða Finnar, þessar þjóðir hafa byggt undir sína hönnuði á mjög hnitmiðaðan hátt og skapað mjög sterka vitund hjá neytendum varðandi gildi þess að kaupa þeirra vörur. Íslenskir hönnuðir eru á heimsmælikvarða og það er kominn tími til að öll heimili fyllist af þeirra fínu vörum. Er íslenska lopapeysan ekki alltaf í tísku? Íslenska lopapeysan er sígild og verður alltaf til staðar. En nú er kannski kominn tími til að koma með nýja lopapeysu og láta íslenska hönnuði um að túlka þessa flík sem má segja að hafi sameinað alla Íslendinga í gegnum áratugina. Búið er að leggja drög að því að koma fram með hina nýju lopapeysu og vonandi með hækkandi sól verður hægt að sjá hana fullskapaða og handprjónaða af prjónakonum Rammagerðarinnar.“

Diskur með fallegu mynstri eftur Rögnu Ragnarsdóttur.
Diskur með fallegu mynstri eftur Rögnu Ragnarsdóttur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál