„Ætla að vera í bláum Saks Potts-kjól sem systir mín á“

Irena Sveinsdóttir hefur verið dugleg að huga að heilsunni að …
Irena Sveinsdóttir hefur verið dugleg að huga að heilsunni að undanförnu.

Irena Sveinsdóttir, verslunar- og innkaupastjóri kvennadeildar Húrra Reykjavík, er 26 ára miðborgarbúi sem segir stemninguna í borginni alltaf mikla á þessum árstíma og mikið að gera í Húrra um þessar mundir. Hún á von á barni og hefur hugað vel að sér á tímum kórónuveirunnar. Irena er nokkuð viss um að góðir hlutir eigi eftir að gerast á nýju ári. 

Í hverju ætlarðu að vera á áramótunum?

„Ég ætla að vera í bláum Saks Potts-kjól sem systir mín á. Hann er ótrúlega fallegur.“

Hvað gerir þú fyrir húðina og hárið áður en þú klæðir þig upp á fyrir áramótin?

„Ég tek mig til í rólegheitum, finnst gaman að bæta einhverju smá við förðunarrútínuna. Ég set afgerandi eyeliner eða einhvern fallegan heillit yfir augnlokin. Ég leyfi hárinu oftast að þorna náttúrulega, þá verður það fallega liðað.“ 

Hvernig var árið 2020?

„Það var skrítið auðvitað eins og hjá flestum, en gott. Ég og Þórsteinn, kærastinn minn, keyptum okkur íbúð í miðbænum og höfðum góðan tíma til þess að koma okkur vel fyrir.“

View this post on Instagram

A post shared by IRENA (@irenasveins)

Hvað ætlarðu að gera á nýju ári?

„Ég er að verða mamma, við eigum von á barni í maí og ég er mjög spennt fyrir því.“

Náðirðu að huga að heilsunni í kórónuveirunni?

„Já, mér fannst fínt að hafa tíma til þess að slaka á. Taka eitt skref aftur á bak og átta sig á því hvað skiptir mig máli. Hreyfa mig, borða hollt og eyða tíma með fjölskyldu.“ 

Hvernig hugarðu að heilsunni?

„Ég er ekki að stressa mig á óþarfa hlutum, ég elda meira af næringarríkum og góðum mat og fer í langar gönguferðir.“ 

View this post on Instagram

A post shared by IRENA (@irenasveins)

Hvað gerir þú alltaf á áramótum?

„Það hefur verið vaninn að fara upp að Hallgrímskirkju að horfa á flugeldabrjálæðið og skála!“ 

Hvað gerir þú aldrei á áramótunum?

„Ég hef aldrei farið á brennu!“

Hver er besta gjöf sem þú gætir fengið?

„Mig langar mest í fallegan lampa frá Ragnheiði Ingunni úr Rammagerðinni.“

Lampi frá Ragnheiði Ingunni.
Lampi frá Ragnheiði Ingunni.
mbl.is