„Ég er einhvern veginn alltaf að klúðra jóladressinu“

Sunneva Ása Weisshappel.
Sunneva Ása Weisshappel. Ljósmynd/Ása Dýradóttir

Sunneva Ása Weisshappel, myndlistarkona og leikmyndahönnuður, var í uppreisn gegn jólunum þegar hún var unglingur. Nú hefur hún tekið jólahátíðina í sátt og ætlar að leggja sérstaka áherslu á jóladressið á þessu ári. 

Hún er að ljúka við að hanna sína aðra leikmynd fyrir sjónvarpsþáttaseríur sem framleiddar eru af RVKStudios og Netflix. Þar starfar hún með unnusta sínum, Baltasar Kormáki Baltasarsyni. Hún segir ástina víða og því ekki úr takt að leiðir fólks liggji stundum saman í vinnu líka.

Þrátt fyrir kórónuveiruna hefur hún aldrei verið jafn upptekin í vinnunni og hefur þurft að vísa frá verkefnum. Hún er að gera leikmynd fyrir Ófærð III og svo var hún að fá sér kisu sem ég er mjög hrifin af.

Sunneva segir árið hafa liðið hratt.

„Eflaust vegna þess hvað mikið er búið að vera að gera. Ég hef einnig verið í hestaferðum og gert ýmislegt fyrir mig sem hefur aukið á jafnvægið í lífinu.“

Ljósmynd/Ása Dýradóttir

Kórónuveiran hefur sett strik í reikninginn

Fyrir ári var Sunneva í Kaupmannahöfn að leikstýra við Sydhavn Theater í samstarfi við Katrínu Mogensen.

„Verkið okkar hét Zoo og var tilraunaleikhús um manneskjuna. Ég kom síðan heim til Íslands til að vinna að leikmyndinni fyrir Kötlu, sem eru nýir sjónvarpsþættir framleiddir af RVK studios og Netflix. Það var mikil rússíbanareið þar sem verkefnið var mjög stórt og krefjandi. Útkoman er algjörlega mögnuð og ég hlakka gífurlega til þess þegar þetta listaverk kemur út. Katla var verkefni þar sem ég upplifði virkilega sterkt að allar hliðar listmiðilsins fengu að njóta sín og blómstra. Samstarfið og flæðið á milli listrænna deilda var magnað. Ég vann út frá sterkri listrænni sýn en á sama tíma fékk ég mikið frelsi. Ég upplifði flæði í samtali á milli listrænna deilda og að allir fengju að leggja sitt af mörkum og upplifa sig skapandi og mikilvægan þátt af heildinni. Að mínu mati verður það ekki betra í listænu samstarfi. Þegar svona gerist, þá er eins og eitthvað æðra taki við og maður dettur inn í ferli þar sem fullkomið traust ríkir og maður er sem leiddur áfram. Þegar þessi einstaka upplifun á sér stað finnur maður svo sterkt fyrir því af hverju maður hefur valið þessa leið í lífinu. Þessi heimsfaraldur hefur lamað leikhúsið en kvikmyndaheimurinn hefur getað haldið áfram með verkefni sín. Ég tel mig heppna að hafa fengið tækifæri þar og núna vinn ég á fullu við að klára að hanna Ófærð III. Þegar því er lokið ætla ég að leggja áherslu á mína eigin myndlist og halda áfram þar sem frá var horfið.“

Sunneva segir kvikmyndir og leikhús ekki svo ólík fyrirbæri.

„Hugmyndalega séð er það ekki svo ólíkt. Ég er ennþá að vinna við að búa til myndmál; myndir sem segja sögu eða styðja við sögu. Myndmál sem verður strigi sögunnar. Vinnuumhverfið er þó mjög ólíkt. Leikhúsið er kyrrt, unnið á sviði í svörtum kassa. Verkið er búið til og sett saman og síðan afhjúpað fyrir áhorfendum. Þá er hlutverki myndlistarmannsins lokið og ég fer á braut en kvikmyndin er öðruvísi ferli og þáttur myndlistarmannsins ólíkur þar. Ég er hluti af öllu sköpunarferlinu og vinn þangað til upptökum er lokið. Verkið öðlast svo einhverskonar eilíft líf. Ég fæ að skapa stærri heim því sem framleiðsluhönnuður (e. production designer) í kvikmynd býr maður ekki aðeins til sviðsmyndina heldur einnig allan heiminn í samstarfi við leikstjóra og aðra listræna stjórnendur. Sem leikmyndahönnuður velur þú og hannar allt frá rýmum að bílategundum, húsum, borgarmynd og náttúru. Í raun allt sem tengist myndheimi sögunnar. Umfangið er töluvert meira en í leikhúsinu vann ég reyndar aðallega við búninga. Mér hentar að mörgu leyti betur stærðin sem kvikmyndamiðillinn býður mér upp á og mér finnst það meira spennandi og ögrandi núna. Ég er mikið náttúrubarn og það er algjör gjöf að fá að starfa og skapa í náttúrunni, uppi á hálendinu, inni í hellum og í jökulsprungum.“

Upphaf hverrar listabylgju heillandi

Sunneva segir ekki síður listrænt að vinna við kvikmyndir en leikhús.

„Ramminn getur verið misþröngur sem maður vinnur innan og inni í þröngum ramma getur líka verið spennandi að finna listræna ögrun. Áður fyrr var ég sem dæmi mjög fordómafull gagnvart raunhyggju (e. realisma) og fannst hann leiðigjarn. Með auknum þroska hef ég reynt að ögra fordómum mínum og núna finnst mér sem dæmi spennandi í Ófærð III að takast á við stíliseraða raunhyggju og vinna myndheiminn þannig, sem er að einhverju leyti lagður og að sprengja hann út innan frá. Gott dæmi um stíliseraða raunhyggju er til dæmis Fargo eftir Coen-bræður og mörgum að óvörum hafa þeir sagt í viðtölum að það sé sitt stíliseraðasta verk.

En síðan vinn ég alltaf myndlistina mína til hliðar við og á milli verkefna og þar fæ ég kannski hina eiginlegu útrás fyrir „listagyðjuna“.

Hvaða tímabil í listasögunni heilla þig mest?

„Upphaf hverrar listastefnu/bylgju heillar mig alltaf mest. Því þá er alltaf svo mikil alvara í hlutunum. Upp á líf og dauða. Það er verið að finna upp hjólið. Listamenn setja sig alla í verkið. Það heillar mig. Ég elska metnað og ég elska þegar fólk hefur trú á því sem það er að gera og finnst verk þess og heimsmynd skipta máli. Þá fer lífsorka og framkvæmd saman og oft gerast ótrúlegir hlutir. Bæði hættulegir en líka kynngimagnaðir. Tímabil sem mér finnst einstaklega heillandi er til dæmis upphaf súrrealismans, dada-hreyfingarinnar og abstrakt-expressjónismans í Evrópu.“

Nú eru jólin að koma. Hvernig upplifir þú þennan tíma?

„Þegar ég var barn elskaði ég jólin og ævintýrin sem þeim fylgdu. Að fá frí í skólanum, pakkana, góða matinn og að vera heima í huggulegheitum. Þennan jólaheim sem kemur á ári hverju og gleypir mann. Þegar ég varð unglingur þá fór ég í mikla uppreisn gegn þessum tíma og fannst jólin innantóm og snúast að mestu um neyslumenningu. Ég fór gjarnan til útlanda yfir hátíðirnar og reyndi að finna taktinn minn í jólunum. Ég hef reynt á fullorðinsárum að líta á þau sem hátíð kærleikans. Mér finnst það skipta mig miklu máli. Eins konar uppskerutími þar sem maður fer yfir liðið ár, skoðar hvað má gera betur og sýnir sínum nánustu ást, virðingu og þakklæti. Í dag finnst mér jólin mikilvægur hluti af árinu. Vegna merkingar þeirra fyrir mig.“

Fyrirmyndin listræn hjón í samvinnu

Ertu mikil jólakona?

„Mér finnst voða gott að taka mér frí frá vinnu og daglegu amstri og hafa það huggulegt og borða góðan mat.“

Áttu fyrirmyndir í þínum geira sem þú lítur upp til?

„Ég á svo margar fyrirmyndir, enda er svo mikið til af flottu fólki og hæfileikum. Fólk veitir mér innblástur á ólíkum sviðum sem persónur og listamenn. Á Íslandi lít ég mikið til vinkonu minnar Ilmar Stefánsdóttur, myndlistarkonu og leikmyndahönnuðar. Varðandi kvikmyndamiðilinn þá lít ég upp til Catherine Martin, leikmynda- og búningahönnuðar, sem gerði til dæmis leikmynd og búninga fyrir Rómeó og Júlíu í leikstjórn Baz Luhrmanns sem er einnig eiginmaður hennar. Það er mikið afrek.

Síðan eru myndlistarkonurnar Frida Kahlo, Helena Frankenthaler og Louise Bourgeuis miklar fyrirmyndir í mínu lífi.“

Sunneva hefur róast mikið með aldrinum að eigin sögn og er orðin mjög heimakær.

„Ævintýraþráin mín átti það til að koma mér í vandræði en mér líður eins og með árunum séu svo mörg ævintýri í hversdagleikanum sem ég hef skapað mér. Þau koma til mín og ég þarf ekki sækja þau eins mikið og þegar ég var yngri. Ég trúi því að lífið og mistökin sem við gerum séu til þess að bæta fyrir þau. Að verða betri í dag en í gær við sjálfa mig og umhverfið mitt og það skiptir mig miklu máli. Með því að stækka sem manneskja þá stækkar líkar listin mín. Ég tel að listin sé órjúfanlegur partur af listamanninum og með því að vaxa í persónulega lífinu þá vex listin sem ég skapa því hún speglar alltaf innra ástand og allt sem ég sé og túlka speglar sjálfa mig. Mér finnst það skemmtilegasta verkefnið í lífinu að takast á við sjálfan sig.“

Hvar sérðu þig fyrir þér eftir 20 ár?

„Ég stefni á að hafa einhvers konar áhrif á samtímann með listsköpun og vona að ég get verið innblástur fyrir komandi kynslóðir. Mig langar til að hjálpa ungum listamönnum og veita sérstaklega konum hugrekki og styrk að standa með sér og hugmyndum sínum. Ég sé fyrir mér að búa einhvers staðar úti í sveit eða í löndum með stóra fjölskyldu, umvafin dýrum, ást, sköpun og náttúru.“

Sunnevu dreymir um að halda stóra myndlistarsýningu með fullt af málverkum og skúlptúrum.

Ætlar að setja sérstakan metnað í jólafötin á þessu ári

Jólin á þessu ári verða þannig að hún er að vinna út Þorláksmessu og eru jólin því aðeins óráðin ennþá.

„Ég verð með ástvinum og fjölskyldu í friðsæld og þakklæti. Það er það eina sem skiptir mig máli á jólunum.“

Eldarðu eitthvað alveg sérstakt á jólunum sem þú ert til í að deila með okkur?

„Mamma og pabbi veiða alltaf rjúpur fyrir jólin. Ég hef borðað þann jólamat síðan í barnæsku. Núggatísinn hennar mömmu er mér samt mikilvægasti hluti jólakræsinganna. Hún hefur gert hann síðan ég man eftir mér og við borðum hann alltaf einu sinni á ári; á aðfangadagskvöldi. Ég hef haldið jólin í mörgum löndum, í ólíkum aðstæðum, en alltaf hefur mér tekist að útbúa þennan ís og hann er órjúfanlegur partur af jólunum fyrir mér.“

Hvað með að skreyta heimilið?

„Ég hef ekki mikið verið í að ofgera þegar kemur að jólaskreytingum. Kerti, góð tónlist, jólasería og blágreni er nóg fyrir mig eins og er.“

Áttu skemmtilega sögu af þér sem barni á jólunum?

„Það var einu sinni á aðfangadag að mamma og pabbi höfðu sett pakka undir jólatréð rétt fyrir jólamatinn. Við litla systir mín Inga Magnes vorum mjög spenntar því það fór ekki á milli mála að það var eitthvað lifandi í pakkanum; í banastuði. Með eftirvæntingu að opna pakkann borðuðum við jólamatinn. Hávaðinn undir trénu ágerðist yfir matnum og þegar við loksins fengum að opna pakkan þá var inn í honum búr með tveimur hvítum músum. Það var mikil gleði og tilhlökkun, en hún varði aðeins í í smá stund. Önnur músin var aðeins stærri en hin og hún réðst á þá minni og hóf að tæta hana í sig. Ég man ennþá hljóðin frá litlu sætu músinni og stóra músin breyttist í skrímsli, það var grátur og sjokk og við rifum þá stærri frá þeirri litlu. Síðan fórum við öll fjölskyldan saman út í bíl, með vondu músina í kassa og keyrðum upp í Öskuhlíð í myrkrinu. Það var kalt úti, snjór og stjörnubjartur himinn. Ég man hvað ég var full sektarkenndar að láta „kannibal“ músina eina út frostið og snjóinn. Því ég vissi að þar beið hennar eflaust ekkert nema dauðinn. Við skiluðum músinni þetta aðfangadagskvöld í Öskjuhlíðina og kvöldið var sveipað niðarsorta og melankólíu. Þetta jólakvöld man ég alltaf mjög vel og mamma og pabbi gáfu okkur aldrei aftur dýr í jólapakkann.“

Hvað með jólakjólinn?

„Ég er einhvern veginn alltaf að klúðra jóladressinu. Er of sein eða gleymi að hugsa um það og kaupi mér eitthvað í flippi í Kringlunni og lít út eins og jólakúla. Ég er voðalega dugleg að hanna á aðra en gleymi stundum sjálfri mér. Ég held að ég þurfi bara að prufa nýtt núna og hanna á sjálfa mig fyrir þessi jól. Ég byrja bara strax og fæ Elmu klæðskera til að sauma dressið á mig. Takk fyrir að minna mig á þetta!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál