Leyndarmálið á bak við velgengni Loren

Sophia Loren er ítölsk og segir hlutina eins og þeir …
Sophia Loren er ítölsk og segir hlutina eins og þeir eru af tilfinningu í nýlegu viðtali við AARP tímaritið. mbl.is/AFP

Leikkonan Sophia Loren elskar konuna sem hún sér í speglinum á hverjum degi og myndi aldrei breyta því hvernig hún lítur út fyrir annað fólk. Hún er sinn mesti stuðningsaðili og skemmtanastjóri. 

„Stundum þegar ég segi að ég sé 86 ára trúi ég því ekki sjálf því mér líður eins og ég sé tvítug,“ segir hún í nýlegu viðtali við AARP-tímaritið. 

„Þegar ég horfi í spegilinn hrósa ég mér. Ég spyr mig ekki hvort ég sé frábær eða hvort ég sé falleg heldur finnst mér ég vera frábær og falleg þegar ég lít í spegilinn. Það er það sem skiptir mestu máli.“

Leikkonan sem býr í Sviss segir annað leyndarmál á bak við draumalífið sem hún lifir vera það að vera náin börnum sínum og barnabörnum. 

„Báðir synir mínir eiga tvö börn. Þar sem ég bý töluvert langt frá þeim tölum við mikið í síma og sendum myndir á milli. Ég reyni að vera glöð í þessu ástandi í dag og bíð eins og allir aðrir eftir að dagurinn á morgun verði betri.“

Loren er þekkt fyrir að veita litlu hlutunum í lífinu athygli og dvelja ekki í neikvæðni. Hún segir yngjandi að rækta hamingjuna innra með sér.

„Af hverju að breyta líkamanum og reyna að vera eins og einhver annar ef maður er hamingjusamur inni í sér? Ég hef aldrei viljað breyta mér, í raun hefur mér aldrei dottið það í hug. Mér líkar allt sem ég á og mér líkar vel við sjálfa mig.“

Loren viðurkennir að það hafi verið erfitt að missa eiginmann sinn. 

„Ég var mjög leið þegar eiginmaður minn dó og ég tel ekki hægt að komast yfir þá tilfinningu. Í hvert skipti sem ég hugsa um það fæ ég sterka einsemdartilfinningu. Þannig er lífið.“

 The New York Post

mbl.is