Ekkja Hefners dó næstum því í fituflutningi

Hugh Hefner og Crystal Hefner. Crystal Hefner reynist erfitt að …
Hugh Hefner og Crystal Hefner. Crystal Hefner reynist erfitt að meta sjálfa sig út frá öðru en útlitinu. REUTERS

Crystal Hefner, ekkja Playboy-kóngsins Hughs Hefners, fór í fituflutningsaðgerð í október. Aðgerðin gekk ekki betur en svo að Hefner var við dauðans dyr og var vart hugað líf. Hefner gagnrýnir fegurðargildi og ljóst að gagnrýnin kemur úr hörðustu átt en sjálf viðurkennir hún að hafa verið hluti af vandanum. 

„Ég missti helminginn af blóðinu í líkama mínum og endaði á spítala þar sem ég þurfti blóðgjöf,“ skrifaði Hefner á Instagram og sagðist vera hægt og rólega vera að vinna sig til baka og líður vel núna. 

Hefner segist hafa talað fyrir því að vera náttúrulegu útliti síðan hún varð mjög veik árið 2016 og lét fjarlægja brjóstapúða og annað eitur úr líkama sínum. „Ég hefði átt að læra mína lexíu í fyrsta skiptið en líklega heldur heimurinn áfram að senda þér sömu lexíuna þangað til þú lærir hana.“

Crystal Hefner áður Harris sat meðal annars fyrir í tímaritinu …
Crystal Hefner áður Harris sat meðal annars fyrir í tímaritinu Playboy. HO


Fyrirsætan segir bagalegt hversu slæmar fyrirmyndir konur hafa og viðurkennir að hún hafi sjálf verið með gervilíkama sem er slæmt fyrir aðrar konur. Hún segir einnig slæmt að karlmenn leikstýri tæplega 85 prósent kvikmynda, samfélagsmiðlar hjálpa ekki, auglýsingar ekki heldur. 

„Það er ómögulegt að halda í við hvernig menning okkar skilgreinir fegurð. Konur eru kyngerðar of mikið. Ég veit það af slæmri reynslu. Í tíu ár voru gildi mín byggð á því hvernig líkami minn leit út. Ég var verðlaunuð og vann fyrir mér með útliti mínu,“ skrifaði Hefner sem þarf enn þann daginn í dag að minna sig á að hún er meira en bara líkaminn. 

Hefner segist vorkenna ungu fólki sem horfir upp til fólks sem lítur óraunverulega út með aðstoð „filtera“, farða og peninga. Hefner segist hafa lært mikið af aðgerðinni. Á fertugsaldri er hún enn að læra af mistökum sínum og á erfitt með að standast þrýstinginn. 


 

mbl.is