„Ég held einfaldlega að ég hafi unnið yfir mig“

Fanney Svansdóttir hannar og prjónar flíkur undir merkinu Ylur.
Fanney Svansdóttir hannar og prjónar flíkur undir merkinu Ylur. Ljósmynd/Aðsend

Fanney Svansdóttir stofnaði fyrirtækið Yl árið 2013 en hún selur prjónaflíkur undir því merki. Hún tók sér pásu frá framleiðslunni á síðasta ári en nú er hún að fara af stað aftur. 

Fanney segir að hún hafi einfaldlega unnið yfir sig og orðið leið á prjónaskapnum. Hún kláraði líka mastersgráðu við Háskóla Íslands árið 2019 og vildi nýta menntun sína sem hún og gerði. Hún hefur starfað hjá Reykjavíkurborg undanfarið árið. 

„Ég held einfaldlega að ég hafi unnið yfir mig og missti svolítið áhugann. Ég vil gera hluti sem veita mér ánægju og þetta var hætt að gera það. Ég held að þessi pása hafi gert mér mjög gott, áhuginn er kominn aftur og prjónið veitir mér þá ánægju og hugarró sem það gerði upphaflega.“

Fanney byrjaði að prjóna eftir að hún eignaðist dóttur sína …
Fanney byrjaði að prjóna eftir að hún eignaðist dóttur sína Rán. Ljósmynd/Emilia Kristin

Prjónaflíkur eru í mikilli tísku um þessar mundir og margir tóku upp prjónana í heimsfaraldrinum og hafa nýtt tímann í að prjóna á meðan allir viðburðir eru færðir á netið eða þeim frestað. Prjónaskapurinn hefur þó fylgt Fanneyju lengur. 

„Ég lærði að prjóna eftir að ég átti dóttur mína árið 2013. Ég er rosalega mikil allt-eða-ekkert-týpa og komst fljótt að því að það að prjóna eftir uppskriftum væri ekkert fyrir mig, ég hef alltaf átt erfitt með að fara eftir fyrirmælum. Ég birti myndir af því sem ég var að gera á Facebook og nokkrum mánuðum eftir að ég lærði að prjóna var ég farin að selja vörurnar mínar í nokkrum verslunum hér heima,“ segir Fanney. 

Fanney gerir flíkur á bæði börn og fullorðna.
Fanney gerir flíkur á bæði börn og fullorðna. Ljósmynd/Emilia Kristin

Fanney leggur áherslu á gæði í vörunum sem hún hannar og framleiðir sjálf og fylgir hugmyndafræðinni um hægtísku (e. slow fashion). 

Barnafötin eru öll hönnuð með það í huga að þau geti „vaxið með“ börnunum og sem dæmi um það hefur dóttir mín notað sömu peysuna í rúm fjögur ár. Ég vil að gæðin séu það mikil að eftir notkun barns geti flíkin fengið framhaldslíf hjá yngra systkini til dæmis. Allar vörurnar eru handgerðar, flestar flíkurnar eru prjónaðar af mér og samstarfsmanni mínum í gamaldags prjónavél. Ég sauma þetta svo saman og prjóna hálsmál og hnappagatalista í höndunum. Það eru því mörg handtök á bak við hverja og eina flík,“ segir Fanney. 

Auk þess að selja flíkur sínar í vefverslun og í verslunum hér heima hefur Fanney selt vörur í verslunum í Evrópu og Bandaríkjunum. 

Ein af nýjustu peysunum frá Yl.
Ein af nýjustu peysunum frá Yl. Ljósmynd/Emilia Kristin

Fanney er í miklu flæði þegar kemur að því að hanna nýja flíkur. Hún segist ekki vera með nýja flík á teikniborðinu um þessar mundir en eflaust eigi eitthvað eftir að bætast í vörulínuna hennar áður en langt um líður. En stefnir hún að því að fara gefa út prjónauppskriftir?

„Nei, mér finnst það afar ólíklegt. Mér finnst gaman að vinna í höndunum og sjá hugmynd verða að afurð. Flestar uppskriftirnar mínar eru eitthvert óskiljanlegt krot sem utanaðkomandi aðilar skilja ekki og nánari útskýringar eru geymdar í hausnum á mér,“ segir Fanney.

Fanney er byrjuð að prjóna aftur eftir smávegis hlé.
Fanney er byrjuð að prjóna aftur eftir smávegis hlé. Ljósmynd/Emilia Kristin
mbl.is