Lærði að elska líkama sinn upp á nýtt

Camilla Rut er að vinna að nýrri fatalínu.
Camilla Rut er að vinna að nýrri fatalínu.

Athafnakonan Camilla Rut Rúnarsdóttir er að vinna að sinni fyrstu fatalínu í samstarfi við Báru Atladóttur undir nafninu BRÁ. Fötin eru þægileg og kvenleg en Camilla var búin að ganga með hugmyndina að línunni í fimm ár áður en hún fann réttan farveg. Sjálf fór hún í gegnum mikla sjálfsvinnu eftir að hún varð móðir og lærði að klæða sig upp á nýtt. 

„Við Bára vorum saman í fatahönnunaráfanga í náminu á sínum tíma, svo var það ekki fyrr en fyrir um tveimur árum sem ég rakst á hönnunina hennar og kolféll fyrir bæði flíkunum og hugmyndinni. Við förum að vinna saman í gegnum miðilinn minn á Instagram nokkru síðar, við höfum oft talað um þetta, að mögulega gera línu saman. Eftir mikla vinnu og vangaveltur ákváðum við að 2021 væri árið sem línan fengi að líta dagsins ljós.“

Bára og Camilla hanna saman nýja fatalínu.
Bára og Camilla hanna saman nýja fatalínu.

Camilla tók nokkra áfanga í fatahönnun svo hún er með ákveðinn grunn sem nýtist við gerð línunnar. Hún rissaði niður skissur á blað og er grunnhönnunin hennar. Flíkurnar þróuðust svo þegar þær Bára unnu saman að sníðagerð og efnisvali.

„Við leggjum áherslu á kvenlegar línur, ýkjum allt það fallega sem kvenlíkaminn hefur upp á að bjóða og þar af leiðandi sjálfstraust kvenna í leiðinni, vonandi,“ segir Camilla um nýju línuna. Camilla segir konur með mjúkar línur oft vanmeta líkama sinn og allt of algengt að þær gefist upp á að reyna klæða sig eftir vexti. „Mig dreymir um að sjá allar konur upphefja líkama sinn, ekki fela hann.“

Hefur ekki alltaf klætt sig eftir vexti

Með árunum hefur Camilla lært hvernig föt sem fara henni vel ýta undir betri líðan. Það hefur þó ekki alltaf verið svoleiðis. Hún á ótal minningar um þau skipti sem hún reyndi að klæðast fötum sem hvorki fóru henni né hreinlega pössuðu á hana. 

„Þegar ég klæðist fötum sem fara mínum líkamsvexti þá einfaldlega rétti ég úr mér, ég er öruggari með sjálfa mig, sem endurspeglar svo margt í lífi mínu. Lítið sjálfsmat og óöryggi getur nefnilega haft áhrif á svo margt, það getur haft áhrif á framkomu í garð annars fólks, feimni, hugarfar og haldið aftur af þér í að ná árangri í lífinu. Ég myndi alls ekki segja að klæðaburður reddaði því öllu saman en það klárlega hefur áhrif. Ég hef nefnilega verið þar að geta ekki klætt mig eftir vexti og klætt mig í óþægileg föt sem eyðileggja daginn fyrir mér,“ segir Camilla. Hún nefnir dæmi sem margar konur kannast við eins og verki í fótum eftir háa hæla og meltingartruflanir í allt of þröngum buxum. „Já og svo hefur maður líka gerst svo djarfur að vera í svo óþægilegum þveng sem keyrir svo langt upp í rassinn á manni að maður næstum því finnur fyrir honum í heilanum  aldrei aftur!

Ég áttaði mig svolítið á hlutunum eftir að ég átti eldri strákinn minn. Ég var tvítug, vissi lítið sem ekkert um líkama minn, líkamsímyndin var brotin og það var enginn að segja mér það að eftir að maður fæðir barnið þá hoppar líkaminn ekkert í sama horf aftur. Ég gleymi því aldrei þegar strákurinn minn var vikugamall og ég var að fá pabba minn og ömmu í heimsókn. Ég svoleiðis tróð mér í gallabuxurnar sem ég átti síðan áður en ég varð ólétt, mér fannst ekkert eðlilegra en að ég ætti að passa strax í gömlu gallabuxurnar svo ég þrjóskaðist og bauð þeim upp á kaffi með strenginn kraminn inn í bumbuna á mér. Ég bauð þeim upp á kaffi og bað til guðs að þau myndu ekki staldra of lengi við því ég varð að komast úr þessum buxum sem allra fyrst!“

Camilla segir að föt sem fara fólk vel geta gert …
Camilla segir að föt sem fara fólk vel geta gert mikið fyrir sjálfstraustið.

Þótt það séu aðeins nokkur ár síðan þetta átti sér stað hefur margt breyst. Camilla segir að ekki hafi verið jafn mikið um samfélagsmiðla þá og ekki talað jafn mikið um jákvæða líkamsímynd. 

„Þegar ég var að leita mér að fötum fyrir skírnarveisluna fékk ég tuskuna í andlitið þar sem ég fattaði að ég þyrfti að læra að vinna með líkamsástand mitt. Eins súr og þessi tuska var þá tók ég málin í eigin hendur. Ég þurfti ekki bara að kynnast líkama mínum upp á nýtt heldur þurfti ég að læra að elska hann upp á nýtt, læra að klæða mig eftir nýjum líkamsvexti og daglegu amstri sem fylgir því að hugsa um barn og heimili.“

Camillu finnst nauðsynlegt að vera í fötum sem eru lipur, mjúk, þægileg og gefa aðeins eftir. „Ég hef engan áhuga á að klæðast fötum sem gera dagana mína erfiðari en þeir eru og ég hef gert það að mínu lífsverkefni að finna fatnað sem fyllir upp í þessar kröfur og er dugleg að deila ýmsum ráðum eða flíkum á instagraminu mínu.

Líkami Camillu breyttist þegar hún varð móðir en hún á …
Líkami Camillu breyttist þegar hún varð móðir en hún á í dag tvo drengi.

Með risastóra drauma

Fatalínan er enn ein rósin í hnappagat Camillu sem er afar vinsæl á Instagram. Hún segist vera ótrúlega lánsöm að hafa verið treyst fyrir stórum verkefnum á borð við snyrtivöruöskjur með L'Oréal og nú fatalínu með BRÁ verslun. Hún er þó hvergi nærri hætt. „Ég hef verið með mitt eigið vörumerki í þróun í góð tvö ár núna sem ég stefni á að svipta hulunni af á þessu ári líka.“

Mikil vinna er að baki árangri Camillu, sem er dugleg að setja sér markmið. „Í byrjun hvers árs sest ég niður með sjálfri mér og íhuga hvað ég vil fá út úr hverju ári fyrir sig. Ég er með risastóra drauma og mjög skýra sýn á hvert ég stefni svo mér finnst nauðsynlegt að sjá fyrir mér og kortleggja hvernig ég ætla að komast þangað. Ég skrifa niður hvað ég er að gera, af hverju ég geri það, hvað ég vil gera, hvert ég stefni og hvernig ég ætla að fara að því.“ 

Á bak við stóru markmiðin eru mörg minni skref sem hún þarf að ná og er skipulagning númer eitt, tvö og þrjú. „Ég legg mikið upp úr því að hugsa vel um andlegu hliðina og passa að ég sé ekki undir of miklu álagi hverju sinni. Sumir kalla það að vera „of góð við sjálfa sig“ en ég held því fram að ég sé að setja mig og heilsuna í fyrsta sæti, bæði líkamlega og andlega. Ef ég geri það ekki þá er það einföld uppskrift að uppgjöf fyrir mig.“

Camilla er í fæðingarorlofi þessa mánuðina og passar að skipuleggja sig sérstaklega vel. Mörkin milli einkalífs og vinnu geta verið óljós hjá sjálfstætt starfandi. „Ég reyni að skipta dögunum niður í orlofinu og nýti lúrana hjá stráknum mínum vel tvo til þrjá daga í viku. Lúrarnir fara þá ýmist í að búa til efni fyrir ingstagrammiðilinn minn sem ég get birt út vikuna, ég sinni bókhaldinu eða svara tölvupóstum frá viðskiptavinum. Hina dagana tek ég frá fyrir að fá að vera í „orlofi“. Þá daga er ég laus allra mála hvað varðar vinnu og nýti þá í að sinna afkvæmi mínu og heimili 100%.“

View this post on Instagram

A post shared by CAMY (@camillarut)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál