Það er eitt að snúa peysu eða bol vitlaust en allt annað að nota samfesting sem blússu. Hin bandaríska Madison gerði það í heil fjögur ár. Madison greindi frá þessu á TikTok og birti myndir með til staðfestingar. Játning hennar hefur farið eins og eldur í sinu um netheima.
Saga Madison er lygileg en að hennar sögn svo fáránleg að hún hefði aldrei getað skáldað hana. Það reyndist henni alltaf pínu erfitt að klæða sig í flíkina þar sem hún notaði bara aðra skálmina. Hin hékk til hliðar.
„Ég er búin að eiga þennan samfesting í yfir fjögur ár og ég er bara núna að átta mig á að þetta er ekki toppur, þetta er samfestingur,“ skrifaði Madison.
Hún birti mynd af sér síðan á jólunum 2017 í samfestingnum en flíkin leit frekar út eins og síð blússa en samfestingur. Hún birti einnig mynd af sér þegar hún fattaði hvaða snið væri á flíkinni.